03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í C-deild Alþingistíðinda. (4371)

195. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vil út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, gefa skýringu. Það er vitað, að það er stefna landsstj. að ganga ekki í ábyrgð fyrir erlendum lánum. Þessari stefnu hefir verið haldið uppi frá því að stj. tók við völdum, og það er meiningin að halda henni uppi framvegis. Það verður í þessu sambandi að gæta þess, að það, sem hér er rætt um, er tvennt ólíkt. Annarsvegar er um það að ræða að ganga í ábyrgð fyrir hafnargerð á láni því, sem þarf til þess að koma verkinu í framkvæmd. Í þessu tilfelli er því um fyrirtæki að ræða, sem er ekki fært að standa sjálft undir þeim gjaldeyri, sem þarf í vexti og afborganir af láninu. Það fellur því undir þær ábyrgðir, sem stj. sér sér ekki fært að sinna, af því að þær þyngja á gjaldeyrisverzluninni. Hinsvegar er um það að ræða að ganga í ábyrgð fyrir erlendu láni, þar sem liggur fyrir rannsókn á því, að fyrirtæki það, sem lánið á að fara til, getur ekki eingöngu staðið undir hinum erlendu greiðslum, sem fara í vexti og afborgun, heldur liggur líka fyrir rannsókn á því, að fyrirtækið getur sparað gjaldeyri umfram það, sem fer í vexti og afborgun. Þá horfir málið öðruvísi við. Og þegar slík mál eru lögð fyrir ríkisstj., þá verður hún að taka afstöðu til þess, hvort hægt er að sinna þeim. Ég er nú ekki svo kunnugur þessu, að ég vilji taka undir með hv. þm. Mýr., að þetta sé hægt. En þetta mál er þannig vaxið, að ef það er sýnt, að með því sparist áburðarinnkaup, þá verður að reyna að hrinda því í framkvæmd, jafnvel þó það verði að gerast með erlendu láni. Og ég vil biðja menn að taka sérstaklega vel eftir því, að í þessu tilfelli er það upplýst, að fyrirtækið, sem um er að ræða að taka lán til, getur ekki aðeins staðið undir greiðslum til útlanda í vexti og afborgun, heldur líka sparað allverulega greiðslu til útlanda fyrir áburð.

Ég skal taka annað dæmi. Það hefir komið upp úr kafinu, að hægt er að framleiða sement hér á landi. En til þess þarf fé. Og ef það lægju nú fyrir upplýsingar um það, að fyrirtækið gæti sparað allan þann gjaldeyri, sem látinn er út úr landinu fyrir sement, þá er sjálfsagt að reyna að útvega lán til slíks fyrirtækis. Og slíka lántöku er alls ekki hægt að leggja til jafns við lántöku til venjulegs fyrirtækis, svo sem hafnargerðar, sem ekki getur staðið undir þeirri „valutu“, sem þarf til þess að greiða vexti og afborganir af láni. Þetta er höfuðatriðið. Því þó að ríkisstj. vilji halda þeirri stefnu, að auka ekki skuldabyrðina út á við og forðast að taka lán erlendis, þá verður hún að taka til athugunar, þegar um það er að ræða að ganga í ábyrgð fyrir láni, sem á að fara til fyrirtækis, sem líklegt er til þess að auka gjaldeyrinn í landinu. Ég skal taka það fram, að hafnargerðir eru ekki hliðstæðar því fyrirtæki, sem hér er um að ræða. því þó að þær séu ágætar fyrir þá staði, sem þær eru framkvæmdar á, og sjálfsagt að reyna að koma þeim upp, ef hægt er að fá fé til þeirra innanlands, þá liggur ekkert það fyrir, sem sýni, að hafnargerðir auki gjaldeyrinn í landinu, nema þá ef hægt væri að selja einhverja vöru, sem hægt er að afla vegna hafnargerðarinnar. Hafnargerðir verða því að teljast til almennra framkvæmda, og eru því ekki hliðstæðar við áburðarverksmiðju eða verksmiðju til sementsgerðar. Ég skal ekkert um það segja, hvort stj. getur komið þessu í framkvæmd að svo stöddu. Hitt er rétt, að flutt sé till. um að heimila þetta, því svona fyrirtæki hlýtur að hafa sérstöðu í augum allra landsmanna, og verður því að líta á það með almenningsheill fyrir augum.