09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í C-deild Alþingistíðinda. (4379)

197. mál, fóðurtryggingarsjóður

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég vil vekja athygli hv. n. á því, að ég tel vera fulllangt gengið í frv., þar sem ætlazt er til, að sýslufélög leggi jafnmikið á móti, ef koma á þessum sjóðum upp. Eins og nú er ástatt, er svo þröngt í búi hjá flestum sýslufélögum, að þau geta ekki bætt á sig miklum gjöldum. Ef þessari upphæð er skipt á sýslufélögin, kemur á hvert mikil fjárhæð árlega. Ég dreg í efa, að ýms sýslufélög geti notað sér þetta, þar sem ekki getur talizt fært að leggja þessi gjöld á bændur, enda þótt tilgangurinn sé góður. Eins og nú árar, er það sýnd veiði, en ekki gefin.

Eins og hv. frsm. veit, er aðalatriði fyrir okkur Norðlendinga ekki það, að hafa peninga í sjóði, heldur hitt, að á hverju hausti sé til nægur forði, helzt kornmatarforði, sem þá er hægt að grípa til og nota til manneldis, ef ekki þarf á að halda öðruvísi. Við Norðlendingar erum þannig settir, að hjá okkur getur hæglega lokazt fyrir um aðflutninga, ekki aðeins að því er snertir fóður handa skepnum, heldur líka vöru til manneldis. Þetta er því hættulegra sem kaupstaðirnir verða fjölmennari og fólk þar oft illa undir veturinn búið. Þetta sem annað stendur væntanlega til bóta, og vil ég óska þess, að hv. n. taki þetta til athugunar og sniði ákvæði frv. meira eftir þeim sérástæðum, sem eru á Norðurlandi.