18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (4384)

197. mál, fóðurtryggingarsjóður

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Eins og þetta nál. ber með sér, þá lýsir n. því yfir, að henni hafi ekki unnizt tími til þess að fara yfir frv. í einstökum atriðum. Þetta er nú ekki nema spegilmynd af þeim hundavaðshætti, sem nú er viðhafður þessa dagana og er eðlileg afleiðing af því, að menn hafa ekki nokkurn tíma til þess að kynna sér mál, sem fram koma, og gera við þau nauðsynlega athugun, til þess að ekki þurfi að breyta þeim strax og þing kemur saman næst. Ég sé ekki heldur, hvaða ástæða er til að knýja þetta mál svona fram núna. Það vill svo til, að hér er gert ráð fyrir því, að til þess að þetta mál geti komið til framkvæmda, þurfi samþykki sýslunefnda. Nú er það vitað, að sýslufundir eru ekki haldnir fyrr en síðari hluta vetrar eða með vorinu, svo slíkar samþykktir verða ekki gerðar fyrir veturinn í vetur. Ef þing kemur saman 15. febr., þá er hægðarleikur að ganga frá þessu frv. Það ætti því að gefa mönnum tóm til þess að athuga þetta frv. og leggja það fyrir næstu sýslufundi, sem geta tekið það til meðferðar.

Ég get að öðru leyti tekið undir með hv. þm. A.-Húnv., að þó þetta sé nauðsynjamál, eins og allir vita, að reyna að koma í veg fyrir fóðurskort, þá er ég fyrir mitt leyti vantrúaður á, að hér sé hitt á nokkurt allsherjarmeðal til bóta í þessu efni. Það er líklega um fátt, sem hafa verið sett öllu fleirþættari l. og verið gerðar jafnmargvíslegar ráðstafanir eins og einmitt þetta atriði. En því miður verð ég að segja, að það liggur fyrir sú sorglega reynsla, að það hefir ekki komið að þeim notum, sem menn hafa gert sér vonir um, og ég er hræddur um, að svo fari einnig um þetta. En það er jafnsjálfsagt fyrir því að athuga hvert skynsamlegt ráð, sem fram kemur til þess að ráða bót á þessu, en þá verður að gefa þm. og þeim, sem nokkuð eru kunnugir þessum málum, og öðrum sem áhuga hafa fyrir því, tóm til þess að athuga málið, miðað við mismunandi staðhætti á ýmsum stöðum.

Ég get gjarnan endurtekið það, sem ég sagði við 1. umr. að ég tel mjög litlar líkur til þess, að sýslunefndirnar séu fúsar til þess að bæta miklum útgjöldum á hreppi, sem margir hverjir eru að því komnir að gefast upp með að inna sín gjöld af hendi. Ástandið er þannig í sveitunum, að það er engan veginn líklegt, að menn geti, þó þeir gjarnan vildu, lagt af mörkum tiltölulega mikið fé, þó þeir fái þar á móti tillag úr ríkissjóði. Af þeim ástæðum er ég hræddur um að þetta kunni kannske á ýmsum stöðum — beinlínis af fjárhagserfiðleikum — að dragast úr hömlu, og þess vegna ekki verða að þeim notum, sem til var ætlazt. Ég hefi heldur enga trú á því, þó þetta frv. verði gert að l. nú, að sýslunefndirnar yfirleitt hlaupi upp til handa og fóta og geri hjá sér samþykktir í þessu efni.

Þær þurfa fyrst að athuga sinn gang, og fjárhagsástæður stuðla að því, að menn verða seinni til heldur en ella mundi vera.