18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í C-deild Alþingistíðinda. (4396)

203. mál, útsvar

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Þetta frv. er flutt eftir beiðni ríkisskattanefndar og felur í sér aðallega tvær til þrjár breyt. á gildandi lögum. Ein þessi breyt. er þó í raun og veru aðeins formsbreyting. Fyrsta og önnur brtt. miða að því að gefa heimild til, að útsvör, sem eru lögð á útlenda menn, er stunda hér atvinnu um stundarsakir, séu miðuð við tekjur þeirra á gjaldárinn, en hinsvegar slegið föstu hvað almenna gjaldendur snertir, að útsvör þeirra séu miðuð við tekjur síðastl. árs. Sú hefir og verið höfuðreglan, að miða útsvör við tekjur næsta árs á undan, og eftir gildandi lögum er óheimilt að leggja útsvör á tekjur yfirstandandi árs. Af þessu getur leitt, að útlendingar, sem stunda hér atvinnu um stundarsakir, sleppi við útsvör, en þessir menn, sem oft koma hingað og taka atvinnu stundum af innlendum mönnum, þykir ekki rétt, að sleppi án þess að greiða gjöld til opinberra þarfa. í sambandi við 2. brtt., sem er aðeins til samræmis við 1. brtt., skal ég geta þess, að eins og útsvarslögin nú eru skilin og framkvæmd, er alvarlega oft ruglað saman hugtökunum útsvarsári og gjaldári, en útsvarsár er árið áður en útsvarið er lagt á, það ár, sem á að miða útsvarið við, en gjaldárið er þegar útsvarið er lagt á. Í framkvæmdinni hefir þetta verið svo, að gjaldár hefir yfirleitt verið notað til að tákna bæði árin. — 3. breyt. er við 12. gr., um að fella niður 2. og 3. mgr. Í þeim gr. eru gefnar reglur um það, hvernig eigi að finna út, hvort útsvör séu hærri eða lægri í einu sveitarfélagi en öðru, því lögin gera ráð fyrir því, að útsvör þeirra, sem stunda atvinnu í fleiri en einu sveitarfélagi, skiptist á milli sveitarfélaganna. Um þetta eru í raun og veru gefnar fullkomnar reglur í 1. mgr. 12. gr., sem svo nokkru nánar eiga að vera skýrðar í 2. og 3, mgr., sem hér er lagt til, að falli niður, en þessar skýringar eru nokkuð flóknar, og hefir ríkisskaftanefnd komizt að því, að þær gera ekki annað en rugla menn gersamlega, og því er lagt til, að þessar tvær mgr. verði felldar niður. Hinsvegar hefir n. verið bent á það, hvort ekki mundi réttara að breyta þessum mgr. en að fella þær niður, og telur n., að það geti komið til álita, en vill þó ekki leggja það kapp á það, að málið tefjist fyrir það.

5. gr. felur í sér lagfæringu á villu, sem slæddist inn í útsvarslögin í fyrra. Vegna þeirrar breytingar eru sveitarstjórnir sviptar þeim rétti að áfrýja til ríkisskattanefndar úrskurðum yfirskattanefnda um útsvör. Samkv. þessari breyt. í fyrra hefir því ríkisskattanefnd ekki leyfi til að breyta útsvari, sem yfirskattanefnd hefir breytt, nema gjaldandi sjálfur óski þess. Það liggur í augum uppi, að báðir aðilar, sveitarstjórn og gjaldandi, hljóta að eiga rétt til þess að áfrýja úrskurði yfirskattanefndar til ríkisskattanefndar.

Loks felst í 8. gr. sú breyt., að því er slegið föstu, að hjón beri ábyrgð á útsvarsgreiðslum hvors annars, enda búi þau saman, er niðurjöfnun fer fram. Nú er það að vísu svo, að niðurjöfnunarnefndir eða sveitarstjórnir hafa heimild til þess að ákveða slíka samábyrgð hjóna í hverju einstöku tilfelli, og er þar í raun og veru gengið inn á það princip, að hjón eigi allténd að bera ábyrgð á útsvarsgreiðslum hvors annars. En það, að hjón hafa ekki borið sameiginlega ábyrgð á útsvörum, hefir oft valdið því, að ekki hefir verið hægt að innheimta útsvör hjá gjaldendum, því þegar til þess hefir komið, þá hefir komið í ljós, að eignir allar hafa verið á nafni þess, sem ekki átti að greiða útsvarið. Þetta, sem hér er farið fram á með útsvörin, er alveg hliðstætt því, sem er um tekjuskattinn. Svo þess er að vænta, að það verði heldur enginn ágreiningur um þessa breytingu.

Þá er um aðrar breyt. að segja, að það eru aðeins orðalagsbreyt. til samræmingar.

Þetta mál er svo seint fram komið, að það getur ekki náð afgreiðslu, nema með margföldum afbrigðum. En ríkisskattanefnd telur brýna nauðsyn á, að það nái nú fram að ganga, og þess vegna er farið fram á það við hæstv. forseta, að hann hraði málinu svo sem hann sér sér frekast unnt. N. hefir athugað málið grandgæfilega og mun naumast glöggva sig betur á því, svo það er engin ástæða til að vísa því til n. aftur til nánari athugunar.