04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (4411)

33. mál, útsvar

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Eins og tekið er fram í grg. frv., þá hefir á seinni árum borið töluvert á því, að menn skrifi sig í öðrum hreppum en þeir hafa atvinnu í, sérstaklega ef sveitarþyngsli eru mikil þar, sem þeir reka atvinnu sína. Er því sumstaðar svo komið, að hrepparnir hafa orðið mjög lítið gjaldþol, sakir þess hversu marga gjaldendur þeir eru búnir að missa. Hreppsnefndirnar standa ráðþrota, því að víða horfir nær því til auðnar, ef slíku fer fram miklu lengur. Það er því brýn nauðsyn að kippa þessu í lag. Þessu til sönnunar vil ég geta þess, að í einum hreppi í Dalasýslu hefir bóndi nokkur, sem vel er efnum búinn, búið að undanförnu með börnum sínum, en nú hefir hann látið einn sona sinna taka búið á leigu, mann, sem er fátækur fyrir. Vinnur svo bóndi þarna hjá syni sínum, lengri og skemmri tíma, en allt, nema einn sonanna, lætur það skrifa sig til heimilis annarsstaðar. Missir hin raunverulega heimilissveit þessa menn á þennan hátt sem gjaldendur.

Ég hefi sett í frv. ákvæði um það, að hafi maður haft atvinnu og fast aðsetur í hreppnum í 4 mánuði, þá skuli hann greiða þar útsvar, — 3 mán. þótti mér of stuttur tími. Hinsvegar hefir ekki verið breytt ákvæðinu um 3000 kr. tekjumennina. Er það tekið fram í frv., að það nái aðeins til manna, sem hafi tekjur fyrir neðan þá upphæð. Að ég hefi farið þessa leið, er sakir þess, að ég tel hana heppilegasta, eftir því sem nú standa sakir, en finni hv. allshn. einhverjar aðrar leiðir, sem heppilegri kunni að verða til lausnar þessu máll, þá er það gott og blessað. Fái frv. þetta góðar undirtektir, þá hefi ég hugsað mér að koma fram með annað frv. til þess að tryggja það, að mönnum liðist ekki að vera heimilislausir til þess að sleppa bæði við útsvör og skatta, eins og svo mjög hefir borið á í seinni tíð.

Leyfi ég mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.