11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í C-deild Alþingistíðinda. (4418)

36. mál, prentsmiðjur

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég kunni betur við að bera þessa brtt. fram nú við 2. umr., svo hún gæti verið til athugunar, jafnvel þó ég geri ráð fyrir að taka hana aftur til 3. umr., svo menntmn. fái tækifæri til að athuga hana. Brtt. fer fram á það, að tvö þau bókasöfn, sem helzt varðveita vorar bókmenntir meðal landa vorra vestan hafs, njóti sömu hlunninda og réttar sem önnur þau bókasöfn, sem heyra undir þessi lög.

Það er kunnara en svo, að á þurfi að minna, að Íslendingar vestan hafs hugsa með hlýjum huga til ættjarðarinnar, og margir harma það, að bókmenntasambandið á milli þjóðarbrotanna sé ekki eins náið og æskilegt væri. Hygg ég, að þetta gæti verið spor í rétta átt til að ráða bót á því, — gæti verið eins og vingjarnleg bróðurhönd rétt vestur yfir hafið. Mér er ekki kunnugt um önnur bókasöfn þar en þessi tvö, sem gætu komið til greina, en um þau skal það tekið fram, að annað þeirra — bókasafn þjóðræknisfélagsins Fróns — er mjög ungt, og ég veit ekki um húsakost þess, en eftir frásögn þeirra manna, sem hafa starfað vestan hafs, er það mikið notað.

Bókasafn sr. Jóns Bjarnasonar er vel þekkt. Það er kennt við sr. Jón Bjarnason, sem sjálfur gaf aðalstofninn til þess. Það hefir yfir góðum húsakosti að ráða og er líklegt til að geta varðveitt íslenzkar bækur vel. Ég hefi ekki viljað gera upp á milli þessara tveggja bókasafna. Þó að þeim mönnum fækki vestan hafs, sem íslenzku skilja, þá munu alltaf verða þar allmargir menntamenn, sem æskja þess að geta haft aðgang að íslenzkum bókmenntum.