11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í C-deild Alþingistíðinda. (4419)

36. mál, prentsmiðjur

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Þessi till. kemur að vísu ekki til atkv., þar sem flm. hefir lýst því yfir, að hún verði tekin aftur til 3. umr., en ég vil beina því til hv. menntmn., að með þessu er lagður skattur á prentsmiðjur og útgefendur. Og ég vil spyrja, hver á að borga kostnaðinn við sendingu bókanna, því hvort sem það eru prentsmiðjurnar eða ríkisstj., sem annast sendingarnar, þá verður það stór kostnaðarliður, ef bækur á að senda til Ameríku.

Það var svo fyrr á árum, að markaður fyrir íslenzkar bækur var mikill í Canada, en mér hefir skilizt, að á síðari árum hafi hann þorrið. Ég er ekki að mæla á móti því að senda þessar bækur, en ég vil benda á, að það væri ekki ákaflega stórvægilegt, þó að þessi bókasöfn keyptu þær helztu íslenzku bækur, sem út koma, en því fleiri bókasöfn, sem þessara hlunninda njóta, því minni verður markaðurinn fyrir þær bækur, sem gefnar eru út hér á landi, og er hann þó sannarlega ekki mjög stór fyrir.

Undir þessi ákvæði falla auðvitað blöð líka, og mér finnst rétt að athuga, að ekki sé gengið of langt í þessu efni, og sérstaklega að því er viðkemur sendingu til annara landa.