09.03.1935
Efri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í C-deild Alþingistíðinda. (4444)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Sigurjón Á. Ólafsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að segja. Er það nánast fyrirspurn til. hv. flm. — Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að leggja dóm á frv. yfirleitt; ég hefi ekki kynnt mér það nógu rækilega til þess, þó að það liggi nú fyrir til 1. umr. En það, sem mér datt í hug að spyrja hv. flm. að, er út af 1. gr. frv., hvort með henni sé meint, að þetta eigi að ná til sjóða, sem eru fyrir utan það að heita gjafasjóðir og hafa öðlazt konungsstaðfestingu á skipulagsskrá sína, eða sjóða, sem á einn eða annan hátt eru styrktir af ríkinu eða öðrum opinberum stofnunum. Ég tel sjálfsagt, að þessir sjóðir séu háðir eftirliti ríkisvaldsins, en svo eru ýmsir aðrir sjóðir, sem hv. þm. Dal. var að tæpa á, og ég vil í því sambandi sérstaklega beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort t. d. sjóðir verkalýðsfélaga, hvort sem það eru kaup deilusjóðir; sjúkrasjóðir eða aðrir sjóðir, sem eru; innan verkalýðsfélaganna, eigi að vera háðir þessu eftirliti. Ég er ekki viss um eftir orðanna hljóðan á 1. gr. frv., hvort á að telja slíka sjóði sjálfseignarsjóði eða bjargráðasjóði, en tel það mjög æskilegt, að það komi skýrt fram af hálfu flm. þessa frv., hvað víðtækt þetta eftirlit á að vera, ef það verður sett á stofn. Ég dreg enga dul á það að það eru ýmsir sjóðir innan ýmsra félaga í landinu sem e. t. v. er ekki talið nauðsynlegt að heyri undir opinbert eftirlit, en aftur á móti eru aðrir sjóðir, sem sjálfsagt er, að séu háðir opinberu eftirliti. Ég vildi því fá, skýr svör við þessu, og það er verkefni þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að gera þetta svo vel ljóst, að enginn vafi geti leikið á um, til hvaða sjóða eftirlitið á að ná. — Ég tel ekki þörf við þessa umr. að gagnrýna frv., en ég skal taka það fram, að það er mín skoðun, að andi frv. stefni í rétta átt, og sennilegt er, að með nokkrum breyt. verði hægt að fylgja því fram til sigurs.