21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í C-deild Alþingistíðinda. (4453)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Mér virtust aðalrökin, sem fram komu hjá hv. 1. þm. Reykv. gegn þessu máli, vera þau, að á síðasta þingi, sem skammt er nú liðið frá, hefðu verið sett lög um þetta efni, og að reynsla væri ekki fengin um þau lög ennþá. En það er nú svo, að þegar þetta mál var hér fyrir síðasta þingi, þá var einmitt um það dálítill ágreiningur, hvort tímabært væri að setja þau lög, sem þá voru sett. Fjhn., sem þá hafði málið til meðferðar eins og nú, og sömu menn áttu sæti í, skiptist dálítið öðruvísi, þar sem við 1. þm. Reykv. vörum þá í meiri hl. og lögðum til, að frv. yrði samþ., ég þó með fyrirvara, en hv. 4. landsk. taldi, að málið væri þá ekki nægilega undirbúið. Fyrirvari minn þá var einmitt um það sama, að ég teldi málið tæplega nógu vel undirbúið, þótt ég sæi hinsvegar ekki ástæðu til þess að leggja beinlínis til að því væri frestað. En þessi undirbúningur, sem á skorti þá, var einmitt sá, að ekki lágu fyrir nægilegar og eiginlega engar upplýsingar um það, hvað þessir sjóðir væru margir og hve mikilli upphæð þeir næmu o. s. frv. Það var einmitt þá verið að safna þessum upplýsingum, og n., sem hafði málið til meðferðar, reyndi að afla sér upplýsinga, en fékk þær ekki. Nú, eftir að þessar upplýsingar liggja fyrir, skeður það einfalda, sem svo oft hefir komið fyrir áður, að það verður augljóst, að málið hefði átt að takast upp á dálítið öðrum grundvelli en gert var í fyrra. (ÞÞ: Er skýrslusöfnun lokið?). Ekki algerlega, en hún er komin mikið áleiðis, eins og grg. ber með sér, og fyrir liggja allmiklar upplýsingar um það, hvað hér er um að ræða. Í stað þess, að hv. 1. þm. Reykv. heldur því fram, að svo stutt sé liðið frá því að 1. voru sett um þetta efni, að óviðkunnanlegt væri að setja ný, þá vil ég snúa þessu við og segja, að réttara hefði verið í haust að biða með það þangað til nú að setja l. um þetta efni, og byggja þau þá meira á því, sem vitað var um þessa sjóði. Annars held ég, að það sé ekkert einsdæmi, að Alþ. breyti þeim l. sem sett hafa verið af næsta þingi á undan. Ég skal játa, að það væri betra að geta vandað svo til löggjafarinnar, að til þess þyrfti ekki nema sem sjaldnast að koma, en það þykir nú samt nauðsynlegt oft og tíðum. Annars var hv. 1. þm. Reykv. sammála um það, sem frv. miðar að, að það væri í alla staði æskilegt að hafa eftirlit með sjóðum og stofnunum sem öruggast og fullkomnast, en hann sagði eitthvað á þá leið, að við yrðum að sniða okkur stakk eftir vexti og kosta ekki meira til en nauðsynlegt væri, og getur það verið rétt. En ég er ekkert viss um, að þótt þetta frv. verði Samþ., verði kostnaðurinn svo miklu meiri en annars myndi verða.

Hv. þm. talaði um, að nefndin, sem kosin var á þinginu í vetur, gæti haft það eftirlit með sjóðunum, sem nauðsynlegt væri. Ef svo ætti að vera, þá yrði n. að sitja hér allan tímann, og gæti það þá orðið dýrt að kosta 3 menn. En ef þeir sætu hér ekki allan tímann, þá býst ég við, að þeir yrðu að ráða skrifstofumann, og vari þá óvíst, hvort ódýrara væri. Eins og öllum er kunnugt, kostar sú umsjón, sem stjórnarráðið hefir með nokkrum sjóðum, mikið fé. Þó að það mætti kannske skoða þá upphæð, sem greidd er fyrir þessa umsjón, að einhverju leyti sem launauppbætur, þá hygg ég samt, að svo mikið sé greitt fyrir þessa umsjón, að það sé ekki rétt, í öllum tilfellum, að skoða það sem réttmæta launauppbót til starfsmanna , stjórnarráðsins. Það er alveg óvíst, að þetta fyrirkomulag verði dýrara heldur en það, sem ætlazt er til að sé samkv. lögum um eftirlit með sjóðum, sem öðlazt hafa konungsstaðfestingu, sem samþ. voru á síðasta þingi. Þá minntist hv. 1. þm. Reykv. á þau atriði, þar sem þetta frv. nær lengra en lögin frá í vetur. Í fyrsta lagi minntist hann á, að skylt er að leita konungsstaðfestingar á gjafabréfum eða stofnskrám sjóða. Hv., 1. þm. Reykv. sá ekki, að ástæða væri til þessa. Ég hygg þó, að tryggilegar sé um sjóðina búið, ef formlega er að þessu farið. Ég hygg það fátítt, sem haldið hefir verið fram, að gefendur sjóða vilji ekki konungsstaðfestingu. Ég hygg, að oft hafi ekkert um það verið ákveðið í stofnskrám sjóðanna, og stundum hygg ég, að það sé frekar gleymsku að kenna en því, að menn vilji ekki, að leitað sé staðfestingar.

Um ákvæði 5. gr., sem heimilar að breyta gjafabréfum eða stofnskrám sjóða, hygg ég, að sé svo varlega búið, að ekki þurfi að óttast það. Það er tekið fram, að breytingu megi ekki gera nema ástæður séu orðnar svo breyttar frá því að sjóðurinn var stofnaður, að ekki sé unnt að framkvæma fyrirmæli gjafabréfsins eða stofnskrárinnar, og sé þá vilji gefandans virtur eftir því, sem hægt er að koma við. Mér finnst, að þetta ákvæði tryggi rétt þeirra, sem gjafasjóði vilja stofna, og ætti ekki að fæla neinn frá að stofna slíka sjóði.

Þá fannst hv. 1. þm. Reykv. það undarlegt, ef ekki væri hægt að búa svo um stjórn þeirra sjóða, sem stofnaðir eru með sérstökum lögum, að ekki væri þörf á þessu eftirliti. Það getur vel verið, að það ætti ekki að vera löggjafarvaldinu ofvaxið að búa svo um þá sjóði, sem stofnaðir eru með sérstökum lögum, að ekki þurfi að skipa eftirlit með þeim, en það verður að teljast hentugra og hagkvæmara að hafa vörzlu þessara sjóða á einum stað heldur en í mörgu lagi.

Þá fannst hv. 1. þm. Reykv. lítið gerandi úr því, að sjóðirnir ættu sjálfir að endurgreiða ríkissjóði kostnað þann, sem leiðir af þessum lögum, og benti hann í því sambandi á lögin um eftirlit með bönkum og sparisjóðum, sem nú er búið að nema úr gildi, að þar hefði innheimtan gengið illa; hefðu bankarnir greitt sinn hluta, en sparisjóðirnir ekki. Ég skal ekki fullyrða neitt um það, hvernig þetta hefir gengið, því ég er ekki svo kunnugur því. En fyrir nokkrum árum hafði ég, á hendi störf, fyrir lítinn sparisjóð, og veit ég, að hann greiddi alltaf sinn hluta, og hygg ég, að svo hafi fleiri sparisjóðir gert. En ég skal þó ekki fullyrða, að það hafi verið í því lagi, sem það átti að vera. En tregðan á að greiða þetta mun meðfram hafa stafað af því, að sparisjóðunum hefir ekki fundizt, að þeir hafi haft fullkomið gagn af eftirlitinu, og orðið þess lítið varir. Það gæti farið eins um þetta eftirlit, ef stofnununum fyndist þær ekki verða varan við það í framkvæmdinni. En gæti það náð tilætluðum árangri og orðið stofnunum til stuðnings, með því að gefa þeim leiðbeiningar og gera ráðstafanir til hagsmuna fyrir þær, þá myndi ekki verða tregða á að greiða þetta. Það má því gera ráð fyrir, að þetta verði ríkissjóði ekki til byrði, og ríkissjóður þurfi aðeins að veita lán til þessa part úr ári. Ég held, að það sé ekki ástæða til þess að halda, að þetta verði öðruvísi en í l. stendur.

Hv. 1. þm. Reykv. vék að því aftur og aftur í ræðu sinni, að það væri óviðkunnanlegt, að setja l. um þetta með svona stuttu millibili. Ég verð að segja það, að mér finnst, að afstaða okkar tveggja nm. sé í fullu samræmi við það, sem við héldum fram á síðasta þingi. Annar okkar hélt, því þá fram, að það væri ekki tímabært að setja l. um þetta, því að fullkomnar upplýsingar væru ekki fengnar um þetta efni, og hinn leit svo á, að ekki væri hægt að segja með vissu, hvernig hentugast væri að hafa eftirlitið. Nú eru upplýsingar fengnar um þetta efni, og virðast þær benda í þá átt, að það fyrirkomulag, sem var gert ráð fyrir með l. frá síðasta þingi, sé ekki fullkomið, ef á annað borð á að hafa fullt eftirlit með, opinberum sjóðum, en það mun þó hafa verið ætlun hv. flm.l. frá síðasta þingi og hv. 1. þm. Reykv., sem mælti með frv. Það, eru mér því vonbrigði, að hv. 1. þm. Reykv. skuli nú ekki styðja þetta mál, sem er eðlilegt framhald á málinu frá síðasta þingi. Ég tel víst, að hv. flm. frv. um eftirlit með sjóðum, sem öðlazt hafa konungsstaðfestingu, frá síðasta þingi, styðji þetta frv.