21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í C-deild Alþingistíðinda. (4454)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. frsm. hefir svarað því, sem fram kom af andmælum gegn þessu frv. frá hv. 1. þm. Reykv. En þar sem fleiri munn hafa tilhneigingu til að andmæla frv., þá ætla ég að segja um það örfá orð. — Hv. 1. þm. Reykv. gerði ráð fyrir, að sjóðaeftirlitið samkv. l. frá í fyrra væri nægilegt út af fyrir sig, og ekki þörf á þessu frv. Litlu síðar í ræðu sinni sagði hann, að eftir þessu frv. myndi ekki eingöngu verða 3 gæzlustjórar og einn embættismaður, heldur myndi líka þurfa sérstakt skrifstofuhald og starfsfólk við það. Í þessu kemur nú fram ósamræmi. Ef hann heldur, að hinir þrír menn, sem kosnir voru samkv. l. frá síðasta þingi, geti leyst þetta starf af hendi, þá ættu 3 gæzlustjórar og einn embættismaður að geta það, og ætti þá ekki að þurfa mikið skrifstofuhald. Það er því ósamræmi í því, þegar hann álítur, að í kákfrv. frá í fyrra sé nægilega séð fyrir þessu, en ekki í þessu frv., sem nú er til umr.

Hv. 1. þm. Reykv. vildi gera mikið úr kostnaðinum, sem af þessu frv. leiddi. Hv. frsm. hefir tekið það fram og gefið upplýsingar um það, að enginn aukakostnaður verður við þetta eftirlit, og það, sem hv. þm. sagði um, að verið væri að binda ríkissjóði bagga með þessu frv., hefir því ekki við rök að styðjast. Ég get fullyrt, að samkv. þessu frv. er ekki um aukinn kostnað að ræða fyrir ríkissjóð, af þeirri ástæðu, að fyrir vörzlu þeirra sjóða, sem eru í umsjón stjórnarráðsins, eru greiddar háar upphæðir, sem munu nægja til að greiða kostnaðinn við eftirlitið. Hv. 1. þm. Reykv. taldi, að ekki væri hægt að taka þessa þóknun af þeim mönnum, sem hefðu hana nú, nema með því móti að veita þeim launauppbót. En ég get upplýst, að það eru ekki lægst launuðu mennirnir, sem fá þessa þóknun, heldur þeir hæst launuðu, og þarf því ekki að bæta þeim upp, þó þeir missi eitthvað við samþ. frv.

Annars skal ég taka það fram almennt um málið, að það, sem vakti fyrir mér, þegar ég beitti mér fyrir því, að frv. um þetta efni væri flutt, var ekki eingöngu það, að hægt sé að líta eftir því, að farið sé heiðarlega með fé sjóðanna, heldur og að fá yfirlit yfir það, hvernig því væri varið til útlána, hvort það væri til nauðsynlegra útlána eða til útlána, sem ekki væru eins nauðsynleg og önnur útlán. Við skulum taka til dæmis, að sjóður láni manni fé í fremur ónauðsynlegt fyrirtæki á sama tíma og verðbréf eru boðin út, t. d. jarðræktarbréf. Til þess að fá yfirlit yfir þetta er nauðsynlegt, að löggjafarvaldið og stj. fái að hafa eftirlit með sjóðunum, svo að hægt sé að beina lánastarfsemi þeirra inn á þær brautir, þar sem nauðsynin er mest fyrir lánin. Það er alltaf verið að ýta á stað framkvæmdum fyrir bæjar- og sveitarfélög, og eru oft mestu vandræði að útvega lán til þeirra, þó að ríkisábyrgð sé veitt, á sama tíma og lán eru veitt úr sjóðum til ónauðsynlegra fyrirtækja. Þess vegna er eðlilegt, að menn vilji hafa eftirlit með þessu, að svo miklu leyti sem það brýtur ekki í bága við skipulagsskrárnar. Ákvæði skipulagsskránna eru oft ekki svo hnitmiðuð, að ekki sé hægt að gera slíkar ráðstafanir innan takmarka skipulagsskránna eins og að velja milli verðbréfaflokka. Þess vegna er nauðsynlegt, að þeir sjóðir, sem stofnaðir eru samkv. I. og eiga að vera geymslusjóðir, komist undir þetta eftirlit, þó að gert sé ráð fyrir endurskoðun samkv. h, því það þarf að sjá svo um, að þeir veiti fé aðeins til tryggra og nauðsynlegra útlána.

Menn mega ekki blanda því saman, að þetta eftirlit á ekki eingöngu að vera til þess að sjá um, að heiðarlega sé farið með sjóðina, heldur og, að fé þeirra sé varið til útlána á þjóðhagslega beztan hátt. Það er ekki sízt vegna þessa, að ég vil leggja áherzlu á, að þetta eftirlit fáist. Það vantar alltaf fé til nauðsynlegra mannvirkja, og því er eðlilegt, að hið opinbera hlutist til um, að lán séu veitt til þeirra, ef um trygga ábyrgð er að ræða.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að reynslan hefði sýnt, að engin hætta væri á þessu í sambandi við sjóðina. En ég hygg, að hið gagnstæða hafi oft átt sér stað. Það hefir komið í ljós, að lán hafa verið veitt á óheppilegan hátt, og ýms viðskipti framkvæmd fyrir sjóðina, sem ekki hafa verið heppileg fyrir þá. Ég vil benda á, að eins og grg. þessa frv. ber með sér, er svo ástatt um fjölda þeirra sjóða, sem koma undir þetta eftirlit, að opinberlega er ekkert um þá vitað, og því ekki hægt að dæma um, hvort vel eða illa hefir verið farið með þá.

Það má vel vera, að það mætti bæta um einstök atriði frv., og er ekkert nema gott um það að segja, að menn bendi á, hvað betur mætti fara, og er sjálfsagt að taka slíkar bendingar til athugunar. — Þetta, sem ég nú hefi sagt, vildi ég taka fram um aðaltilgang málsins.