22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í C-deild Alþingistíðinda. (4458)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætlaði mér ekki að leggja orð í belg í þessu máli nú við 2. umr., en af því að hv. frsm. meiri hl. fór að minnast á það, hvað fyrir mér hefði vakað með l. frá síðasta þingi og að það hefði verið að fá sem fullkomnast eftirlit með sjóðum, og er það alveg rétt, en tvennt ver það þó, sem taka varð tillit til, annaravegar kostnaður við það eftirlit, og hinsvegar umráðaréttur þjóðstjórnar og vilji gefanda.

Ég tel ekki rétt að vasast í tilhögun þeirra sjóða, sem sæmilega er stjórnað og í anda þess gjafabréfs, sem fyrir sjóðnum er. Aftur á móti tel ég nauðsynlegt, að eftirlit sé með þessum sjóðum öllum og gripið í taumana, ef með þarf.

Ég teldi það þjóðarheildinni í hag, að hvetja einstaklinga til þess að stofna sjóði af fé sínu, er síðan hefðu það markmið að styðja að þarflegum fyrirtækjum í landinu eða væru bágstöddum til hjálpar. Hugði ég, að það mundi vera uppörvun til gefenda, ef þeir sæju það, að Alþingi fæli trúnaðarmönnum sínum að líta eftir því, að sjóðum þessum væri varið og þeir ávaxtaðir samkv. fyrirmælum gefenda, en láta þá fyrst til sín taka, ef að stjórn, er sett var yfir sjóðinn af gefendum, sýndi af sér vanrækslu í stjórninni, eða á annan hátt færi illa úr hendi stjórnin eða væri líkleg til þess. Aftur á móti er það víst, að það fælir einstaklinga frá að stofna slíka sjóði, þegar löggjafinn leggur að miklu leyti umráðaréttinn yfir sjóðum þessum í hendur embættismanns, er pólitískt stjórn skipar og auðvitað þarf sjálfur að vera pólitískur og „rétttrúaður“ til þess að fá bitann. En þetta er gert, — umráðarétturinn tekinn af þessum aðiljum með ákvæðum 10. gr. frv., eins og hv. 1. þm. Skagf. hefir réttilega tekið fram. Þá getur hinn hápólitíski fjmrh., hver sem hann verður, skipað fyrir um það samkv. 9. gr. 2. málsgr., hvar skuli ávaxta slíka sjóði, og gefið út reglugerð í því skyni.

Í grg. er gert ráð fyrir, að sjóðirnir kaupi m. a. sýslu- og bæjarfélagaskuldabréf: Nú vantar slíkar stofnanir fé. Fjmrh. Getur gefið út reglugerð um það, að verja skuli sjóðseigninni í slík bréf. Næsti ráðh. Gefur út reglugerð um, að verja skuli fé sjóðsins til kaupa á hlutabréfum, og svo koll af kolli, en engu þarf að sinna því, þó að gefandi hafi ákveðið, að sjóður skyldi ávaxtast á vissan hátt, enda sagði hæstv. Fjmrhr. í umr. í gær, að lána bæri sjóði þessa ekki aðeins í trygg útlán, heldur og nauðsynleg, en hver ráðh. metur á sínum tíma, hvaða lán eru nauðsynleg, og sjá þá flestir, hvernig málum er komið.

Þá vil ég minnst á kostnaðarhliðina. Við frv. það, sem nú er orðið að l. ætlaðist ég til, að kostnaður sá sem yrði af sjóðaeftilitinu, væri alls 300 kr. árlega, en í meðferðinni var því þannig breytt, að bæði var fjölgað gæzlumönnum sjóða þessara og einnig var ákveðið, að ráðh. skyldi ákveða laun þeirra, og getur það orðið til þess, að launin verði stórum mun hærri en til var ætlazt fyrst. Það var einnig ætlazt til þess, að kostnaðurinn lenti eingöngu á ríkissjóði, en með þessu frv. er gert ráð fyrir, að allur kostnaður við sjóðaeftirlitið sé lagður á sjálfa sjóðina, en áður hefir það ekki verið.

Í þessu frv. er fyrst og fremst gert ráð fyrir 6000 kr. launum handa sérstökum eftirlitsmanni, svo og þremur gæzlustjórum, skrifstofukostnaði og árlegum útgáfukostnaði við prentun reikninga. Þessi kostnaður allur getur skipt tugum þúsunda, og vitanlega nær engri átt að leggja slíkan kostnað á þessa sjóði. Það, sem áður hefir verið borgað fyrir umsjón þessara sjóða í stjórnarráðinu, hefir verið greitt af ríkissjóði, en alls ekki af sjóðunum sjálfum. Hér er því um algerða stefnubreyt. að ræða, að sjóðirnir skuli sjálfir verða að borga allan þann aukakostnað, sem leiðir af þessu eftirliti með þeim.

Eins og nú standa sakir, þá er undirbúningurinn undir þessa löggjöf alls ekki nægur. Skýrslusöfnun er ekki nálægt því lokið, og hefði því verið réttast að bíða með þessa breyt. þangað til næsta reglulegt Alþingi kemur saman. Ég býst ekki við og sé ekki, að ástæða sé til að vantreysta gæzlumönnum; þeim sem nú eru, og það er langt frá því, að ég geri það.

Hinsvegar ætlaði ég mér að koma með brtt. við frv. nú við 2. umr., en hætti við það, er hv. 1. þm. Reykv. kom með rökst. dagskrá um að vísa málinu til stj., því ég vildi sjá, hvernig hún færi. Annars er ýmislegt í frv., sem þarf að breyta, áður en frv. yrði að l. Ég skal fyrst nefna það, að undir eftirlitið heyra ýmsir sjóðir samkv. frv., þó félagasjóðirnir séu frá skildir, sein engin ástæða er til að láta eftirlit þetta ná yfir. Skal ég í því tilfelli t. d. nefna söfnunarsjóðinn, sem þingið sjálft kýs stjórn fyrir.

Hvað laun þessara eftirlitsmanna snertir, þá þykir mér þau allt of há, og gæzlustjórarnir allt of margir. Ennfremur vil ég, eins og ég hefi áður tekið fram, að síðari hluti 9. gr. falli burt; og sömuleiðis 10. gr., og athugaverðar eru 13. og 14. gr. Þetta verður allt að taka til rækilegra athugunar seinna, ef til þess kemur, að frv. verði samþ. við þessa umr.