22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í C-deild Alþingistíðinda. (4461)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Í sambandi við ræðu hv. þm. N.-Ísf. vildi ég beina þeirri fyrirspurn til þeirra, sem standa að þessu frv., hvort hafnarsjóðir og aðrir slíkir sjóðir í umsjá bæjarstjórna eiga að heyra undir ákvæði þess. Mér sýnist, að á þessu sé nokkur vafi. Í 1. gr. er tekið fram, að eftirlitið nái ekki til sýslu-, sveitar- og bæjarsjóða, en þar fyrir getur verið meint, að eftirlitið skuli ná til sjóða, er bæjarstjórnir hafa undir höndum, annara en hinna almennu bæjarsjóða. Ef sjóðir þessir eru undanskildir, þá tel ég það engin meðmæli með frv. Nái frv. þetta fram að ganga og sé tilgangur þess sá, að verja ýmsa opinbera sjóði fyrir misnotkun, þá held ég, að verið geti álitamál, hvort ekki á þá líka að taka þessa sjóði undir eftirlitið.

Mér þótti lakara, að hæstv. fjmrh. heyrði ekki ræðu mína hér í gær í þessu máli; þó ætla ég ekki að fara að endurtaka hana, en mér virðist hann vilja draga undir verksvið þessa eftirlits ýms atriði, sem dauðlegum mönnum hlýtur að finnast eftirlitinu gersamlega óviðkomandi. Þetta er frv. um eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum, og virðist eftir frv. að dæma, að það eigi aðeins að vera eftirlit með því, að þessir sjóðir starfi samkv. þeim skipulagsskrám, er þeim hafa verið settar, og koma í veg fyrir misnotkun á fé sjóðanna. En hæstv. ráðh. lagði tiltölulega litla áherzlu á þetta, heldur talaði mest um það, að eftirlitið öðlaðist vald yfir veltufé sjóðanna. (Fjmrh.: Ég skýrði þetta í ræðu minni). Já, hæstv. ráðh. skýrði þetta t. d. svo, að eftirlitið skyldi ráða því, hvort sjóðirnir keyptu jarðræktarbréf eða einhver önnur verðbréf fyrir sitt fé. Í frv. er ekki sagt annað en það, að fé þessara sjóða eigi að verja annaðhvort til kaupa á tryggustu verðbréfum eða þá að ávaxta það í tryggri peningastofnun, en hæstv. ráðh. telur það tilgang frv., að eftirlitið geti ákveðið, hvaða verðbréf hver einstakur sjóður skuli kaupa, að því er virðist.

Þegar ég var að verja þetta frv. í gær, þá gerði ég það af því, að ég sá ekkert í frv., er gaf sjóðaeftirlitinu vald til þess að grípa fram fyrir hendurnar á stjórnum sjóðanna í þessu efni, sem vitanlega eiga einar að ráða því, hvort þær verja fénu til að kaupa veðdeildarbréf, jarðræktarbréf eða þær leggja fé sjóðanna inn á innlánsskírteini í banka. Í frv. er aðeins sagt, að féð skuli ávaxta á tryggan hátt, og eiga sjóðsstjórnirnar vitanlega að ákveða það sjálfar á hverjum tíma, með tilliti til skipulagsskránna einnig. Ég benti á það í ræðu minni í gær, að ef þetta er virkilega verkefni eftirlitsins, ef það á að grípa fram fyrir hendurnar á sjóðsstjórnunum, kannske viðvíkjandi hverri einstakri lánveitingu eða fjármálaráðstöfun, er sjóðina snerta, þá er hér um geypimikið starf að ræða. Hæstv. fjmrh. fór að vísu ekki lengra en það, að segja, að hugmyndin væri þessi, sem hann tiltók, en sú hugmynd er sem betur fer hvergi klædd í búning orða í frv. Ég teldi það líka nokkuð frekt, ef þetta fé ætti að verða leiksoppur pólitískra stjórna, sem sæju sér pólitískan hag í því kannske að þveita fé þessu úr einu í annað, eftir því sem vindurinn blæs, ýmist til jarðræktarbréfakaupa, til verkamannabústaða eða í eitthvað slíkt, allt eftir því, hvaða pólitískum flokki stjórnin tilheyrir á hverjum tíma. Þetta er ekki tilgangurinn með frv., enda væri það mjög óheppileg meðferð á fé sjóðanna, og ef það er meiningin, sem á bak við liggur, þá er ég meira á móti þessu frv. en ég var áður. Ég verð að segja, að það er ekki nema gott að tryggja sem bezt meðferð þessara sjóða, en málið er ótímabært nú, meðan engin reynsla er fengin um það, hversu reynast l. um þetta efni frá síðasta þingi. Frv. þetta er því ofrausn. — Um hina frómu þanka hæstv. fjmrh. um það, að sjóðirnir kaupi jarðræktarbréf, er ekkert nema gott að segja, og get ég um það vitnað til ræðu minnar í gær. Það er bara algerlega óviðkunnanlegt að blanda hér saman þessu tvennu, yfirstjórn og eftirliti. Ég tók það glögglega fram í gær, að yfirstjórn og eftirlit verður hvort um sig að starfa innan ákveðins ramma. (Fjmrh.: Ég ætla, að ég hafi skýrt þetta fullgreinilega áðan). Ég sé það nú, að 9. gr. stappar fullnærri því, að gengið sé á það vald, sem stjórnum sjóðanna er oft falið í gjafabréfum. Ég held mig því við það, sem ég áður hefi sagt um þetta frv., að við eigum ekki að fella það, heldur að vísa því frá með dagskrá, þar sem nú eru þegar til l. frá síðasta þingi um þetta eftirlit, sem enn eru óreynd. Það er nógur tími fyrir löggjafann að setja ný l. um þetta efni, þegar séð er, að þess þarf.