22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í C-deild Alþingistíðinda. (4464)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Þessar umr. eru orðnar nokkuð langar, og skal ég ekki lengja þær nema með örfáum orðum. — Hv. 1. þm. Skagf. vék að því í ræðu sinni í gær, að það væri prentvilla í þessu frv., sem þyrfti að leiðrétta. Leit ég svo eftir þessu og sá, að þetta var rétt, og er því sjálfsagt, að n., sem hefir haft þetta mál til meðferðar, fái það aftur til nánari yfirlestrar fyrir 3. umr., og getur verið, að betra tóm gefist nú til athugunar á frv.

Annars þótti mér það dálítið undarlegt í ræðu hv. 1. þm. Skagf. í gær, að hann gerði lítið úr gildi þess, að gjafasjóðir fengju konungsstaðfestingu á skipulagsskrá sinni. Ég skal nú ekki fara langt út í það, hvert gildi það kann að hafa að fá nafn konungs undir eitt og annað. (MG: Það er ekki nafn konungs, sem um er að ræða). Það er þó það, sem okkar stjórnarskipunarlög gera ráð fyrir, bæði að konungurinn staðfesti lög með undirskrift sinni, og að hans úrskurðar sé að formi til leitað í mörgum tilfellum. Og vitanlega hefir þetta sama gildi til þess að gefa skipulagsskrám festu. En þá þótti hv. 1. þm. Skagf. fyrst taka út yfir, þegar konungsstaðfestingar átti einnig að leita á breytingum á skipulagsskrám. En það leiðir af sjálfu sér, að eins verður að leita staðfestingar á breytingum eins og á skipulagsskránum sjálfum í upphafi.

Þá var hv. 1. þm. Skagf. enn að víkja að því, að 10. gr. frv. gæti brotið í bága við vilja gefandans. Ég hefi minnzt á þetta áður og get ekki séð, að þetta sé rétt, heldur jafnvel þvert á móti. Og eftir því sem kom fram í ræðu hv. þm. N.-Ísf., eru mikil líkindi til þess, að öflugt eftirlit verði til þess að sjá um, að vilja gefandans sé framfylgt.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði í gær, að kostnaðurinn við þetta eftirlit myndi samsvara vöxtum af 1/2—1 millj. kr. Mér finnst hann áætla þetta nokkuð hátt, og hærra en frv. gefur tilefni til. Frv. gerir ekki ráð fyrir nema einum starfsmanni fram yfir það, sem nú er, og ætlar honum 6 þús. kr. árslaun, enda hygg ég, að Alþ. geti á hverjum tíma ráðið við, að kostnaðurinn við þetta verði ekki svo gífurlega hár. (ÞÞ: Það er gert ráð fyrir skrifstofukostnaði). Mér skilst, að hann hefði orðið að vera veittur í fjárlögum. (Fjmrh.: Hann þarf blekbyttu og pennaskaft. — ÞÞ: Dýr pennasköft). Hv. þm. gerir ráð fyrir 60 þús. kr. kostn., en ég skil ekki í því, hvernig um slíkt gæti verið að ræða. — Þá var þessi sami hv. þm. að tala um það, að þeirri rannsókn á þessum sjóðum, sem hefði verið byrjuð í fyrra, væri ólokið enn, og ekki hefði verið látið neitt í ljós frá henni enn. Ég mótmæli þessu. Það hefir margt komið í ljós í þessu máli frá í fyrra, fyrst og fremst, hve margir sjóðirnir eru, — þeir geta að vísu verið nokkru fleiri en ennþá er komið á daginn, en rannsóknin hefir leitt í ljós miklu meiri fjölda sjóða en menn grunaði, að til væru, og sérstaklega bjuggust menn ekki við, að svo mikið fé væri í þessum sjóðum sem reynslan hefir sýnt að er. Ég segi fyrir mig, að þegar þetta mál var hér til umr. í fyrra, þá datt mér ekki í hug, að um svo mikið fé gæti verið að ræða, 4—5 millj. kr., eins og nú er upplýst. Það er svo mikið fé, að mér finnst þjóðfélagið skipta miklu máli, að tryggilega sé um meðferð þess búið. Annars gekk hv. 1. þm. Reykv. inn á það, að þetta kostnaðaratriði væri ekkert aðalatriði, heldur væri aðalatriðið það, hvort gagn væri að þessum ákvæðum frv. eða ekki. Og ég verð að halda því fram, að fullt gagn megi að þessu verða.

Það hafa einir 3 dm. látið ljós sitt skína í þessu máli og gefið í skyn, að hér myndi vera um að ræða bitling handa einhverjum „rauðliða“, eins og það er kallað. (ÞÞ: Eða skjóttum). Það er þetta gamla í sambandi við öll störf. Það var hér í fyrra frv. fyrir þinginu, sem fór fram á að stofnsetja nýtt embætti. Frv. var flutt af flokki hv. þm. Dal. og var samþ., og sú stj., sem nú situr, veitti það, og held ég þó, að sjálfstæðismenn séu ekki svo mjög óánægðir með það.

Út af þeim umr., sem hér hafa orðið milli hæstv. fjmrh. og 1. þm. Reykv. um það, hvort hér væri um eftirlit eða yfirstjórn þessara sjóða að ræða, þá vil ég benda á það, að það er skýrt, að frv. fjallar um eftirlit; en á hinn bóginn, eins og ráðh. hefir tekið fram, getur þetta eftirlit í mörgum tilfellum orðið til þess að beina fjármagni sjóðanna inn á vissar brautir. Mér finnst, að í útlánastarfseminni væru ekki aðrir betri ráðunautar hinna ýmsu sjóða úti um land en sá maður, sem veitti sjóðaeftirlitinu forstöðu. Ég er hv. þm. Dal. þakklátur fyrir fyrri hluta sinnar ræðu, því að eins og vænta mátti færði hann skýr og glögg rök fyrir því, að öruggt og gott eftirlit með sjóðum er nauðsynlegt og þarflegt, vitanlega í samræmi við það, sem hann hélt fram í fyrra. En í seinni hluta ræðu sinnar hafði hann aftur á móti ýmislegt að athuga við þetta frv., sem hér er nú til umr., en margt af því var ekki stórvægilegt, og má því að sjálfsögðu vel hugsa sér samkomulag um þau atriði. Honum fannst það höfuðgalli frv., að það gerði ráð fyrir embættismanni, sem pólitísk stjórn skipaði. Það er nú svo um okkar stjórnarfar, að stjórnin er alltaf pólitísk, og skipar þó alla embættismenn landsins. Og þetta gengur svona nokkurnveginn. Hv. þm. Dal. er t. d. sjálfur konunglegur embættismaður, skipaður af pólitískri stjórn, og ég veit ekki annað en að hann sé ágætur embættismaður. (ÞÞ: Ég var alls ekki hápólitískur, þegar ég var skipaður). Nei, en stjórnin, sem skipaði hv. þm. sýslumann í Dalasýslu, var áreiðanlega pólitísk, og það er ekki endilega sagt, að maðurinn, sem hlyti þetta embætti, yrði pólitískur fremur en hv. þm. Dal. var. (JBald: Nema það hafi verið veitt með því skilyrði, að hann yrði pólitískur?). Það gæti e. t. v. fundizt eitthvert fyrirkomulag, sem sneiddi hjá þessu. Ég hefi ekki hugsað svo ákaflega mikið um það, t. d. að allar sjóðstjórnirnar kysu manninn, en það yrði e. t. v. nokkuð flókið, en með öllu er það nú ekki útilokað. (Fjmrh.: Kosningar eru nú stundum pólitískar). Já, svo er það nú, a. m. k. hefir það verið á „Mogganum“ að heyra undanfarna daga. (MJ: En á Alþbl. og Nýja dagbl.? — MG: Það er eðlilegt, að hv. þm. lesi aðallega Mbl.). Í hverju einasta „Mogga“-blaði stendur: Magnús Jónsson þarf að komast í útvarpsráðið. (MJ: Já, það er rétt af hv. þm. að lesa Mbl. — ÞÞ: Og breyta svo eftir því, en alls ekki hinum).

Út af því, sem hv. þm. N.-Ísf. var að tala um hafnarsjóði í þessu sambandi, þá verð ég að líta svo á, að þeir komi ekki til með að heyra undir þetta eftirlit. Sjóðir, sem bæjarfélög eiga og nota í sínar þarfir, heyra ekki hér undir, samkv. 2. gr., en aftur á móti finnst mér sennilegt, að þeir sjóðir, sem hann nefndi, að gefnir hefðu verið til að veita lán til jarðakaupa, myndu falla undir þetta. Sé það rétt, sem hann sagði um meðferð þessara sjóða, sem ég veit ekkert um og legg því engan dóm á, þá er það auðvitað eitt af hlutverkum þessa eftirlits að hafa eftirlit með, að slík misnotkun sjóðanna eigi, sér ekki stað eins og hann lýsti.

Ég tel þessu máli því vísan stuðning hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Dal. (ÞÞ: Nei). Jú, hv. þm. Dal. hlýtur að styðja það samkv. skoðunum hans á þessu máli.