22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í C-deild Alþingistíðinda. (4466)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal ekki tefja umr. lengi, því ég þarf ekki mörgu að svara. — Hv. frsm. meiri hl. minntist á málið þannig, að hann virtist vera mjög sjálfsglaður yfir því, að allir hlytu að verða á hans máli. Ég verð þó að segja fyrir mig, að ég get ekki verið með frv., nema á því verði gerð stórfelld breyting.

Hæstv. fjmrh. lýsti yfir því, að frv., sem varð að l. á síðasta þingi, væri dæmt til þess að verða aðeins pappírsgagn. Ég verð að segja, að þetta er, vægast sagt, misskilningur hjá hæstv. ráðh. Ef athugaðar eru 2. og 3. gr. frv., þá má það með sæmilegum mönnum verða til stórmikils gagns.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, og vildi skopast að því, að ég hefði viljað hafa launin of lág. Það má vel vera, að svo hafi verið. En þar er þá sú bót í máli, að við eigum ráðh., sem virðist fús til þess að hækka launin, og það ekki neitt lítið, eftir því sem frv., sem nú er til umr., virðist bera með sér. — Ég verð að segja það, að þegar hæstv. fjmrh. og lið hans hefir haldið yfirreið sína yfir sjóðina, þá megi vera, að sumum detti í hug hófaförin eftir hest Atla Húnakonungs.