03.12.1935
Efri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í C-deild Alþingistíðinda. (4490)

60. mál, klakstöðvar

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það, sem hv. 1. þm. Skagf. spurði um til skýringar þessu frv., var, hverjir ættu að greiða gjaldið. Ég skil það svo, að það verði útflytjendur, sem greiði gjaldið af þeim laxi, sem út er fluttur. Í öðru lagi, þegar lax er seldur innanlands, verður að hafa eftirlit með því, hverjir selja laxinn, og heimta af þeim gjald, en það fer vitanlega eftir því, sem semst á milli kaupanda og seljanda, hver í raun og veru borgar þetta gjald. Hinu býst ég við, að ekki sé hægt að elta alla þá, sem selja einn og einn lax, og eins liggur það í hlutarins eðli, þegar einn og einn lax er gefinn, að ekki er hægt að eltast við það, ef það er ekki greinilega til þess að skjótast undan gjaldi. Ef það er eðlileg gjöf, þá finnst mér, að ekki eigi að greiða af því gjald. Hinsvegar, ef farið er að gefa lax svo hundruðum skiptir, liggur það í hlutarins eðli, að það er til þess gert að komast hjá þessu gjaldi, og ef laxinn yrði ekki seldur seinna, ætti að greiða gjald af honum, því að það væri að fara í kringum lögin að gefa í svo stórum stíl. En væri hann svo seldur á eftir í verzlun, kæmi hann að sjálfsögðu undir þetta gjald. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða um þetta frekar. Ég álít það skakkt af þinginu að binda þessa heimild við samþykki fjvn., eins og ég hefi margtekið fram, og svo vil ég segja það, að það gæti orðið skaði fyrir ríkissjóðinn, ef heimildin væri bundin á þennan hátt. T. d. ef ríkisstj. gæti komizt að góðum kjörum, sem hún áliti, og þyrfti svo, eftir að hún hefir fengið tilboð, að segja, að hún yrði að tala við fjvn. um þetta. Það gæti orðið til þess, að hún fengi ekki eins góð boð, eða missti af þeim, vegna þess að menn vildu ekki bíða eftir svari. Það er líklegt, ef ríkisstj. hefði sjálf heimildina, þá gæti hún sagt við eigendur veiðiréttindanna: Ég get gert þetta og þetta. Viljið þið ganga að því eða ekki? — Ég trúi því ekki, að hæstv. ríkisstj. gengi lengra í þessu efni heldur en hæfilegt er né greiði óhæfilega hátt verð fyrir þessi réttindi. Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það væri óeðlilegt að binda ríkissjóði svo stóra bagga sem þessi útgjöld. En hv. þm. lýsti því yfir, að hann væri samþ. því, sem er aðalkjarni frv., að auka og efla laxveiðina í landinu. Að vísu leggur frv. auknar byrðar á ríkissjóðinn, en í því skyni að auka framleiðsluna í landinu, auka útflutning verðmætrar vöru, sem sannarlega er ekki vanþörf á þeim tímum, sem nú standa yfir.