03.12.1935
Efri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í C-deild Alþingistíðinda. (4492)

60. mál, klakstöðvar

Ingvar Pálmason:

Það eru aðeins fá orð út af brtt. hv. fjvn. Ég skil vel varasemi fjvn. í þessu máli og hefi ekkert við hana að athuga. En þrátt fyrir það get ég ekki fallizt á brtt., af því að ég tel, að hún sé í raun og veru ekki viðeigandi, ef hún er rétt skilin á þann veg, sem ég skil hana, að þegar ríkisstj. nær ekki til þingsins, eigi hún að leita til fjvn. Ég tel þetta varhugaverða braut af tveimur ástæðum. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að ég vil ekki viðurkenna fjvn. sem yfirboðara stj., en Alþingi get ég viðurkennt sem yfirboðara stj. Í öðru lagi, ef það er réttur skilningur hjá mér, að það eigi að leita til n. á milli þinga, þá tel ég mikið vafamál, að til nokkurra manna sé að leita, því að ég veit ekki betur en að fjvn. sé kosin til eins þings í senn, og þegar þinginu er lokið, er engin fjvn. til. Ég skal ekki segja, að þetta sé réttur skilningur en ég lít svo á þetta mál og þar af leiðandi finnst mér það ólöglegt að fela vissum mönnum, sem í raun og veru eru ekki í neinni vissri nefnd, meira vald heldur en ríkisstj. En mér virðist, að úr þessu mætti bæta á þann hátt að fella niður úr brtt. „fjárveitinganefndar“. Þá hljóðaði brtt. þannig: „Heimild þessarar gr. má þó aðeins nota með samþykki Alþingis“. En þá má segja, að greinin sé orðin þýðingarlítil. (MJ: Þá er bezt að sleppa löggjöfinni alveg). Þetta gerir frv. ekki þýðingarlaust, en það gerir heimildina til þessara kaupa þýðingarlausa, en þá till. komin í það horf, að ég sé ekkert á móti því að samþ. hana. En ég felli mig ekki við að gefa vissum þm. þetta vald, sem felst í brtt. eins og hún er. Í þessu formi get ég ekki verið með brtt., en ef eignarnámsheimildin er strikuð út, er spurning, hvort hv. flm. telja hana ná tilgangi sínum, þó að ég gæti þá fylgt henni.