18.03.1935
Efri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í C-deild Alþingistíðinda. (4510)

94. mál, einkaleyfi til að flytja út hrafntinnu

Flm. (Pétur Magnússon) [óyfirl.]:

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa á undanförnum árum verið gerðar tilraunir um notkun hrafntinnu til þess að húða með hús. Hafa þær tilraunir gefizt vel, og hefir þetta efni m. a. verið notað til að húða með því þjóðleikhúsið.

Kaupsýslumanni einum hér í Reykjavík hefir nú hugsazt að reyna að gera þessa bergtegund að útflutningsvöru. Fór hann til Danmerkur fyrir nokkru og komst í samband við byggingafélag þar. Hafði hann með sér sýnishorn af efninu og plötur, sem húðaðar höfðu verið á þennan hátt. Firmanu leizt vel á og lét rannsaka efnið. Hefi ég hér bréf frá firmanu, og mun ég afhenda það n. þeirri, sem fær málið til meðferðar.

Ef hægt verður að selja þessa vöru við hæfilegu verði, eru líkindi til, að eftirspurnin verði talsverð.

Þessi bergtegund er aðeins til á tveim stöðum hér á landi, svo að það borgi sig að vinna hana, sem sé við Mývatn og austur í Hekluhrauni. Verður þá að mala hana og hreinsa að öðrum bergtegundum. Ef hún yrði flutt eins og hún kemur fyrir, yrði úrgangur mikill, og myndi það auka flutningskostnaðinn.

Egill Árnason hefir verið að hugsa um að koma upp kvörn hjá Landmannaafrétti. Myndi efnið þá verða flutt á hestum fyrst, en síðan á bílum hingað. Hann áætlar stofnkostnað 6000 kr., auk þess kostnaðar, sem að því verður að koma upp skýli handa verkamönnum. Til þess myndu e. t. v. duga skúrar eða tjöld. Má þó búast við 7000—8000 kr. stofnkostnaði alls. Maðurinn vill að sjálfsögðu ekki leggja í þennan kostnað, nema honum verði tryggður verzlunarhagnaður, svo framarlega sem markaður fæst. En ef markaður reyndist góður, myndu aðrir verða til að keppa við hann, og væri þá undir hælinn lagt, hvort þessi maður hefði nokkuð upp úr fyrirtækinu.

Þetta mál gæti orðið nokkur ávinningur fyrir landið. Myndi fyrst og fremst skapast nokkur atvinna við vinnslu og flutning, þó að hún yrði reyndar ekki mikil, og í annan stað veitti ekki af því, að útflutningur landsmanna ykist.

Við hv. 1. þm. Eyf. berum því fram frv. á þskj. 153, þess efnis, að Agli Árnasyni verði veitt einkaleyfi til útflutnings á þessari vörutegund til ársloka 1940. Á þessu ári mætti ekki búast við miklum útflutningi, a. m. k. yrði varla um að ræða aðrar sendingar en sýnishorna. En ef þetta efni reyndist vel í Danmörku og öðrum löndum, mætti búast við talsverðum útflutningi þegar á næsta ári. En til þess að fyrirbyggja, að sérleyfið haldi gildi í 5 ár án þess að um nokkurn útflutning verði að ræða, höfum við sett í 4. gr. það ákvæði, að ef útflutningur sérleyfishafa verði að þessu ári liðnu minni en 100 smálestir á ári, þá geti atvmrh. svipt hann sérleyfinu.

Í 2. gr. höfum við gert ráð fyrir 3 króna útflutningsgjaldi af smálestinni, en annars verður n. að athuga, hvort það beri að telja hæfilegt gjald eða ekki. Ég býst við, að hann myndi ekki telja það frágangssök, þótt þetta gjald yrði 4—5 kr.

Ég legg til, að frv. verði vísað til fjhn. Þá vil ég benda á það, að ef n. leggur með málinu, þá er því nauðsyn á sem fljótastri afgreiðslu. Því aðeins getur það komið að gagni þegar á þessu ári.