29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í C-deild Alþingistíðinda. (4515)

94. mál, einkaleyfi til að flytja út hrafntinnu

Jón Baldvinsson:

Ég er ekki sammála meðnm. mínum um afgreiðslu máls þessa. Að vísu áleit ég ekki þörf að skrifa sérstakt nál. En ástæðan til, að ég hefi sérstöðu, er sú, að ég tel varhugavert svona alveg að óathuguðu máli að veita sérleyfi einstökum manni eða einstöku félagi. Yfirleitt tel ég þetta djarft, þó að það geti að vísu komið fyrir að það megi gera ef tryggilega er um búið. Ég mun því ekki fylgja þessu máli með þeim undirbúningi, sem á því er, og upplýsingum, sem liggja fyrir. Sé um einhverja tekjugrein að ræða, myndi landið sjálft geta haft gagn af, m. a. með því að hafa útflutning á hendi sjálft í þessu efni, og það tel ég eðlilegra en að einstakir menn taki þetta að sér. Það má segja að vísu, að þetta sé stuttur tími. Ég er hissa á, að nokkur skuli vilja leggja í að fá einkaleyfi fyrir svona stuttan tíma. Ég vil því ekki leggja mitt atkv. til þess, að slík hlunnindi séu veitt meðan málið er ekki meira rannsakað.