29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í C-deild Alþingistíðinda. (4517)

94. mál, einkaleyfi til að flytja út hrafntinnu

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Mér þykir ólíklegt, að svo lítið mál geti orðið til þess að koma kappi og hita í umr., og það er ekki frá minni hálfu. En mér þykir einkennilegt, ef það þykir ekki gott, að einstakir menn brjótist í að gera nýja vöru að útflutningsvöru, því þær eru ekki of margar. Það, hver hafi gert uppgötvunina, finnst mér ekki koma málinu við. Ég veit ekki, hver hefir fundið upp á því að húða hús að utan með hrafntinnu; ég hefi heyrt um það mismunandi sagnir. Ég hefi spurzt fyrir um þetta og fundizt, að sitt segði hver. Ég held, að þetta geti naumast talizt uppgötvun, heldur tilraun með styrkingu á múrhúð. Menn hafa reynt ýmislegt í þeim efnum, bæði með útlendum og innlendum efnum; t. d. hafa ýmsir reynt að flytja inn granitduft, og svo hefir verið farið að nota innlend byggingarefni, og efast ég ekki um, að húsameistari ríkisins hafi ýtt undir, að farið var að nota hrafntinnu til múrhúðunar, og er hún nú notuð af ýmsum. Það er því mikilsvert, ef hægt er að færa út kvíarnar og koma henni á útlendan markað. Hv. þm. S.-Þ. telur eðlilegt, að ríkið reki sjálft þessa verzlun. En ég vil benda á, að ef þetta reynist vel, þá hefir ríkið í hendi sinni að taka það sjálft eftir 1940. En það borgar sig margfalt betur að láta aðra brjótast í því að finna út, hvert verð er í þessu. A. m. k. eins og nú er ástatt um fjárhag ríkisins, þá er þetta heppilegra. Ég fer fram á, að þannig verði greitt fyrir málinu, að því geti orðið lokið á þessum hluta þingsins. En ef málinu er nú frestað, þá nær það ekki fram að ganga áður en þingi er frestað. Ég veit að vísu ekki, hvenær þinginu verður frestað, a. m. k. ekki eins vel eins og hv. þm. S.-Þ., en ég hefi heyrt, að það muni verða um miðja næstu viku, og þá er bersýnilegt, að þar sem eftir eru fimm umr. um málið, þá verður það ekki afgr. frá þinginu fyrir þann tíma, ef því er frestað nú.