01.04.1935
Efri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í C-deild Alþingistíðinda. (4526)

94. mál, einkaleyfi til að flytja út hrafntinnu

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Minni hl. fjhn. hefir engum rétti afsalað sér, þó hann ekki hafi komið með neitt álit hér í hv. d. Minni hl. hefir sinn rétt óskertan til þess að gera till. í málinu. Ég hefi síðan frv. kom fram verið að reyna að kynna mér málið og afla upplýsinga um það, og hefi nú allra síðustu daga fengið nokkrar upplýsingar frá þeim embættismanni ríkisins, húsameistara, sem þessu er kunnastur og hefir fyrstur notað þetta efni og vakið á því eftirtekt, m. a. þeirra einstöku manna, er nú sækja um einkaleyfi til þess að fá að flytja þetta merkilega efni úr landi. Ég hefi fengið þær upplýsingar hjá húsameistara, að hann hafi átt tal við ýmsa menn erlendis, sem vit hafa á þessum málum, og hann hefir eftir þessum mönnum, að þeir áliti þetta efni mjög mikilsvert til notkunar, og kannske gæti komið til mála, að hægt yrði að flytja það út í miklu stærri stíl en nokkurn grunar. Þetta efni er til hér á landi í stórum stíl, og virðist miklu ódýrara en önnur hliðstæð efni, eins og t. d. granit.

Mér hefir verið sagt, að þetta efni, sem notað var í húðun á þjóðleikhúsið, hafi kostað á húsið 12 þús. kr., en ef notað hefði verið erlent efni, granit, þá hefði það kostað um 30 þús. kr. aðeins efnið. Ef hrafntinna er svo auk þess endingarbetri, eins og álitið er að hún sé, og líka fegurri en granitblanda, þá þykir mér ekki rétt, að ríkið fleygi þessum rétti í hendur einstakra manna að svo lítið athuguðu máli, þar sem það auk þess sjálft hefir gerzt brautryðjandi á þessu sviði. Nýjung þessi hefir alls ekki verið rædd opinberlega, og það er fyrst þegar leyfisbeiðni er fram komin, að farið er að tala við þann embættismann ríkisins, sem hér hefir mest um að segja. Og þar sem hann mótmælir því fastlega, að þetta einkaleyfi sé veitt, af því málið sé svo lítt athugað, þá sýnist alveg óafsakanlegt að gera það. Ég vænti þess, að hæstv. forseti láti að mínum orðum, en ef svo verður ekki, þá mun ég a. m. k. greiða atkv. gegn einkaleyfinu, eins og á stendur. Þar með er ekki sagt, að ekki megi veita einstökum mönnum einkaleyfi á þessum útflutningi, en það þarf þó að vera svo athugað mál, að Alþingi viti eitthvað um, hvað það er að gera. (MJ: Þetta er nú ekki 99 ára einkaleyfi). Húsameistari ríkisins hefir sagt, að svo óvíst sé enn um útflutningsmöguleika fyrir hrafntinnuna, að hugsazt geti, að hér sé máske um milljóna útflutning að ræða. Ég segi fyrir mig, að ég hefi f. d. enga hugmynd um það, hvort þetta 3 kr. útflutningsgjald á tonnið er í nokkru hæfilegu hlutfalli við söluverð og sölumöguleika. Mér skilst á húsameistara, að hann telji bara hlægilegt að setja slíkt ákvæði í lög eins og á stendur, og yfirleitt að veita leyfið áður en málið er rannsakað. Mér finnst yfirleitt, að ríkið gæti sjálft rekið slíkt fyrirtæki sem þetta, og það í stærri stíl en einstakir menn. Ég skal benda á það, að nóg mun verða hér af atvinnulausu fólki á næstu árum, sem ríkið þarf að styrkja og veita atvinnu, og því sé rétt að athuga þetta mál með hag ríkis og þjóðar fyrir augum. Það er reynsla fyrir því, að einstaklingar, sem fengið hafa þessu lík einkaleyfi, hafa fyrst og fremst litið á sinn augnablikshag; t. d. var það svo um silfurbergið við Reyðarfjörð. Það var veitt einkaleyfi á að vinna það, og þar var ekki hugsað um annað en að rífa sem mest niður og ná sem mestu á stytztum tíma og ekkert horft í það að stórskemma og eyðileggja námuna. Engin trygging er fyrir því, að hið sama endurtaki sig ekki hér, að mest verði hugsað um augnabliksgróða, en minna um hitt, hvað heppilegt sé fyrir framtíðina. Það er ekki einusinni svo, að hér sé að ræða um heimildarlög fyrir ríkisstj., heldur er hér hreint og beint gert ráð fyrir, að eitt einkaleyfi skuli veitt fyrir alla hrafntinnu í landinu. (MJ: Það á ekki að veita eignarrétt á efninu). Það er að vísu rétt, en ég hygg, að hvorki hv. 1. þm. Reykv. eða hv. 2. þm. Rang. séu svo kunnugir, að þeir viti, hvar helzt er að byrja að vinna þetta efni, þegar tillit er tekið til framtíðarinnar. Hitt er náttúrlega vandalaust, að ganga í beztu bingina og láta greipar sópa um það, sem bezt er að ná í fyrst í stað. Mér finnst því varhugavert að kasta þessum rétti í höndur einstakra manna að óathuguðu máli.