03.04.1935
Efri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í C-deild Alþingistíðinda. (4532)

94. mál, einkaleyfi til að flytja út hrafntinnu

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Það hefir nú nokkuð mikið verið talað um þetta mál hér í hv. þd. og ýmsir hv. þdm. hafa komið hér fram með nokkrar upplýsingar í málinu frá þeim manni, húsameistara ríkisins, sem mest veit um þetta mál. En auk þess hygg ég, að á leiðinni sé bréf frá þessum manni með ráðleggingum um það, hvað gera skuli. Það er víst, að þessi maður hvetur til varasemi í málinu, því hann álítur, að ef eitthvað verður úr útflutningi á þessu efni, þá geti svo farið, að hér sé um að ræða stórkostlegar tekjur fyrir ríkissjóð. Mér finnst, þar sem að því er komið að þinginu verði frestað, þá sé óhyggilegt og óviðeigandi að hraða málinu svo, þar sem nægilegar upplýsingar fást ekki í því áður en þingið hættir störfum í bráð. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til stj. til athugunar í hléinu, en síðan megi á framhaldsþinginu athuga, hvað gera skuli.