09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í C-deild Alþingistíðinda. (4557)

125. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hér liggja fyrir nokkrar breyt. á laxveiðilöggjöfinni, og ég býst við, að það sé ekki að ófyrirsynju, þó sú löggjöf sé athuguð, og það í ýmsum atriðum frekar en hér er gert í þessum brtt. Þegar núgildandi lög voru sett, var löggjöf þeirri, sem fyrir var, að ýmsu leyti mjög umsteypt og ekki svo vel fyrir séð um framkvæmdaratriði laganna, að þau kynnu ekki að valda ágreiningi, eins og reynslan hefir sýnt. Sú höfuðbreyt. var gerð, að taka frá sýslunum ákvörðunarréttinn um það, hvenær veiði mætti byrja og hvenær henni skyldi hætt. Þetta var mismunandi hjá hinum ýmsu héruðum og fór eftir staðháttum, en þetta ákvörðunarvald var tekið af héruðunum og sett allsherjarákvæði í lögin um það, hver veiðitíminn skyldi vera. Í sambandi við þetta hafði það yfirsézt, að heimild til stangarveiða er ótakmörkuð, því í ákvæðum frv. er ekkert um það, hvenær stangarveiði skuli hætt. Nú hefir þessi yfirsjón verið bætt með brtt., sem hér liggur fyrir.

Það er sérstaklega eitt atriði í brtt., sem ég get ekki fallizt á. Það er ákvæðið um að minnka möskvastærðina. Árið 1932, þegar breytt var lögunum, var möskvastærðin minnkuð nokkuð frá því, sem áður var, af því að möskvastærðin olli þá deilu. Nú er lagt til á ný að minnka möskvann um 1 cm., og ég hefi ekki heyrt nokkra ástæðu færða fram fyrir flutningi þessarar till. Ég tel þetta mjög óheppilegt; ég held, að það sé full ástæða til að hlífa frekar yngri laxinum við því að verða dreginn upp neðantil í ánum eða í stórum ám. Eins og fyrirkomulagið er nú, er alltaf að færast í það horf, að smærri ár og bergvatnsár séu notaðar þannig, að um þær sé myndaður félagsskapur og veiðirétturinn leigður út og þær notaðar eingöngu til stangarveiða. Þetta er sú bezta friðun, sem hægt er að fá, að útiloka ádráttarveiði og netaveiði, og þó sérstaklega ádráttarveiði. Það hættulega fyrir lax- og silungsveiði við að minnka möskvastærðina er það, að þá verður alltaf minna og minna af smálaxi, sem kemst upp eftir ánum og getur orðið til hagnýtingar við stangarveiðina; en það er mikið atriði, að sú veiði gefi not í raun. Reynslan hefir sýnt, að með því að leigja ár til stangarveiða hafa eigendur ánna töluvert upp úr veiðiréttinum. Það eru fjölda margir, sem sækja um að fá árnar leigðar til stangarveiða, bæði útlendir menn og innlendir, og þetta er til mikilla hagsbóta fyrir eigendurna. Ég er algerlega á móti því, að horfið sé að því ráði að minnka riðilstærðina frá því, sem nú er.

Mér þykir vænt um, að tekin hefir verið upp brtt., sem ég hafði borið fram áður, um að tryggja þeim mönnum, sem missa veiði vegna ákvæða laganna, bætur fyrir þann skaða, sem þeir á þann hátt verða fyrir. Þetta hefir verið tekið hér upp í frv. orðrétt, eftir þeirri till., sem ég flutti áður í þessari hv. d.

En það, sem ég nú sérstaklega vil vekja athygli á, eru brtt. hv. 1. þm. Árn. Með þeim brtt. er þessum málum stefnt í mikla hættu. Það er langsamlega mesta hættan fyrir viðhald laxins að leyfa ádráttarveiði, og að leyfa að veiða langt fram á haust. Í mörgum smáám hagar svo til, að þar er hægt að draga upp hverja bröndu, og ef gengið væri með stöng, þá er hættan því meiri, sem lengra kemur fram á haustið. Þegar komið er að þeim tíma, að laxinn fari að hrygna, þá dregur hann sig á ákveðna staði, þar sem vatnið er grunnt og malarbotn. Ef stangarveiði er leyfð eins lengi fram á haustið eins og farið er fram á í brtt. hv. 1. þm. Árn., þá er mjög aukið á hættuna með það, að stofninn í bergvatnsánum verði upprættur, því þá nær leyfið fram á þann tíma, sem er allra hættulegastur. Mér kemur það mjög undarlega fyrir, að þessi brtt. skuli koma frá hv. 1. þm. Árn., því hann hafði undirbúið breyt. á laxveiðilöggjöfinni, sem gerðar voru árið 1932, og öll hans stefna þá var að reyna að tryggja laxveiðina sem bezt, og mér þótti hann þá ganga lengra en góðu hófi gegndi, sérstaklega að því er snerti netaveiðar neðan til í stórum laxveiðiám, þar sem göngusvið er vítt; þar virtist mér í till. hans um takmarkanir að ýmsu leyti fulllangt gengið, en bar þó engar brtt. fram um rýmkun á þeim takmörkunum. Ég býst nú við, að hann hljóti að viðurkenna, að með brtt. hans á þskj. 702 sé stigið stórt spor aftur á bak að því er viðkemur friðun á laxinum, enda viðurkenndi hv. þm. þetta óbeinlínis í ræðu sinni áðan. Hann tók það fram, að langbezta og arðvænlegasta veiðitilhögunin væri sú, að leigja árnar til stangarveiða. Þetta er líka notadrýgsta aðferðin og eigendur ánna hafa mest upp úr veiðiréttindunum á þennan hátt, og auk þess er þá fengin trygging fyrir því, að veiðin haldi áfram, og með þeirri friðun á laxinum er stofninn bezt tryggður í ánum. Ég vænti þess, að hv. þm. vilji ekki halda þessu til streitu, því þetta er svo stórt spor aftur á bak, að hvorki er fært né forsvaranlegt, að það sé stigið. Ef almennt væri leyft að starfrækja veiði á þennan hátt, og þar sem um margar ár er að ræða, þar sem leyfð yrði netaveiði, þá yrði þessi ráðstöfun til þess að draga úr og ef til vill til að gera að engu árangur þeirra tilrauna, sem gerðar eru til þess að auka veiðina með klaki, og kæmi þannig alveg í bága við þá stefnu, sem nú er uppi og till. komin um nú á þingi, að tryggja og auka veiðina með klaki. Ég skal ekki fara lengra út í það nú, en býst við að taka til máls um það efni, þegar það kemur hér til umr. Ég vil vona, að hv. 1. þm. Árn. hverfi frá þeirri stefnu, sem kemur fram í brtt. hans, því með henni er dregið úr þeim árangri, sem átti að nást með laxveiðilöggjöfinni, sem sett var 1932.

Hv. 1. þm. Árn. minntist á, að þetta mundi verða til að draga úr brotum á löggjöfinni, en ég held, að eina lækningin og eina ráðið, sem dugir á móti brotum, sé að slá ekki undan brotahneigð manna á þann hátt, sem hér er gert, heldur hitt, að halda uppi sem beztu eftirliti, sem öryggi framkvæmd laganna á þessu sviði, sem segja má, að hafi að nokkru verið gert með ákvæðum laxveiðilaganna og eftirliti með þeim, eins og frá því var gengið með lögunum frá 1932. Ég held þess vegna, að sú röksemd sé léttvæg og geti ekki riðið baggamuninn um það, að stefnt skuli til afsláttar á öryggi laxastofnsins, eins og gert væri með því að samþ. slíka brtt.