09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í C-deild Alþingistíðinda. (4562)

125. mál, lax- og silungsveiði

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Það er aðeins örstutt aths. um eitt atriði í ræðu hv. þm. Borgf. Hann hélt því fram, að brtt. mín, ef samþ. yrði, mundi tefja fyrir stofnun veiðifélaga. Skal ég ekki mótmæla, að það geti átt sér stað. En ég er ekki í vafa um, að eigi verulega að stuðla að takmörkunum, til þess að laxinn gangi ekki til þurrðar, er ekki nóg, að þær gildi fyrir þverárnar, heldur verða þær að gilda fyrir allar ár jafnt. Hefir mér dottið í hug miðlunartill., þar sem farin væri sú leið, að veita veiðiheimild um stundarsakir, en ekki nema um ákveðið árabil. Því það mun sannast, að með því að auka laxgengdina er hægt að auka tekjur þjóðarinnar um tugi eða jafnvel hundruð þús. kr.

Ég skal geta þess út af ræðu hv. þm. Borgf., að það mun vera rétt, að meðan þetta var í höndum sýslunefnda var veiðitíminn víðast ekki nema 3 mán., en ekki alstaðar á sama tíma. Í Árnessýslu var veiðitíminn frá 15. júní til 15. sept., því laxinn gengur þar seint, en í Norðurlandi gengur hann fyrr, og þess vegna byrjaði veiði fyrr þar. — Ég skal svo ekki segja fleiri orð við hv. þm. Borgf., en mér þykir hann nokkuð harðdrægur við þá, sem við þverárnar búa.

Þá eru það aðeins fá orð til hv. frsm. landbn. Mér þykir leiðinlegt að heyra þann misskilning, sem kemur fram hjá honum, sem hlýtur að stafa af því, að hann hefir ekki kynnt sér gömlu l. Ég skal nefna nokkur atriði til samanburðar. Eftir gömlu l. var heimilt að leggja í miðja á, nú ekki nema 1/3. Áður var heimilt að veiða í ós og svo nærri ós sem vildi, nú ekki fyrr en langt frá ós; áður varð að taka net upp aðeins 36 stundir á viku, nú 60 st.; áður mátti hafa ljós við veiðina, nú er það bannað. Nú er einnig lengra milli lagna, og mörg fleiri ákvæði, sem ganga í þá átt að leggja hömlur á veiðina. Enda hefir það komið fram, að þess er full þörf, eftir því sem veiðitækin verða fullkomnari. Hv. þm. verður því að skilja, að það er ekki lögunum að kenna, þó þau séu brotin.