04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í C-deild Alþingistíðinda. (4595)

128. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Þorsteinn Briem):

Ég þarf litlu við að bæta það, sem ég sagði áðan. Það má vera, að það hafi verið ofmælt hjá mér, að frv. gerði ráð fyrir eitrunarlyfjum eingöngu. En samt virðist liggja nærri að komast svo að orði, með því að eitrunaraðferðin er eina aðferðin, sem átti að fá opinberan styrk. Viðvíkjandi því, sem hv. flm. sagði um það, að önnur meining væri í kostnaðarverði en í innkaupsverði, vil ég taka það fram, að það vakti ekki fyrir n., heldur lagði hún þann skilning í innkaupsverð, að það væri kostnaðurinn við vöruna hingað komna, að meðtöldum flutningskostnaði og öðrum gjöldum. Annan skilning lagði n. ekki í kostnaðarverð og innkaupsverð. Þetta er því engin efnisbreyt. Ástæðan fyrir því, að n. breytti því, að eitrunarmenn væru skipaðir af hreppstjórum, en lagði til, að þeir skyldu ráðnir eftir tilnefningu hreppsnefndar, var sú, að það þótti vera í samræmi við það, að sveitarsjóður leggur að nokkru leyti fram fé til útrýmingarinnar. Annað vakti ekki fyrir n. Um orðabreyt. á 4. gr. skal ég ekki fjölyrða.