08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í C-deild Alþingistíðinda. (4600)

128. mál, eyðing svartbaks

Sigurður Einarsson:

Um leið og mál þetta kemur hér inn í hv. d. vil ég láta þess getið, að mér er um það kunnugt, að framgangur þessa máls er mikið áhugaefni margra bænda í Breiðafjarðareyjum. Þegar mér varð það kunnugt, að þetta frv. var í undirbúningi, þá fór ég þess á leit við hreppstjórann í Flateyjarhreppi, að hann kynnti sér, hverja nauðsyn sveitungar hans teldu slíkra aðgerða, sem hér er miðað að. Síðan hefir hann ritað mér bréf og segir þar, að 19. okt. hafi verið haldinn almennur fundur í Flatey, til þess að ræða um útrýmingu svartbaks. Á þessum fundi samþ. bændur í Flateyjarhreppi mjög eindregna áskorun um, að frv. í svipaða átt eða að mestu shlj. frv. því, sem hv. þm. Dal. flytur hér, næði fram að ganga á Alþ. Í forsendum fyrir sinni samþ. segja þeir, að svartbakurinn sé orðinn svo mikill vargur þarna í varplöndum manna, að til útrýmingar horfi á æðarfugli um norðan- og vestanverðan Breiðafjörð.

Þó að segja megi margt um þá aðferð að eitra fyrir fugla, þá er á hinn bóginn, í stuttu máli sagt, það vitanlegt, að bændur í Breiðafjarðareyjum, sem eiga afkomu sína að mjög verulegu leyti byggða á því, að æðarvarpið gangi ekki úr sér, telja brýna nauðsyn til þess bera, að einhverjar ráðstafanir verði gerðar til þess að vernda varpið.

Ég átti nýlega tal við bónda úr eyjunum. Telur hann, að æðarvarpið þar hafi af völdum svartbaksins minnkað um allt að þriðjungi á tiltölulega fáum árum. Mér er það og sjálfum persónulega kunnugt, að í þessa átt hefir stefnt, bæði í Flatey og öðrum eyjum á Breiðafirði, seinni árin. Ég verð því að mæla eindregið með því, að þetta frv. fái fram að ganga hér í hv. d., ekki sízt þar sem hv. Ed. hefir heldur hraðað afgreiðslu málsins og greitt fyrir því.