14.11.1935
Efri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í C-deild Alþingistíðinda. (4608)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Á milli umr. um þetta mál hefir allshn. athugað frv. og hefir orðið sammála um að leggja til, að gerðar verði á því lítilsháttar breyt. Brtt. n. eru á þskj. 525, og eru tvær af þeim aðeins orðabreyt., að í staðinn fyrir „eldvopn“ komi „sprengjur“ á tveim stöðum í frv. N. taldi þetta orð betur viðeigandi.

2. brtt. er efnisbreyt. N. áleit, að þar sem þessi l. eiga að vera aðeins rammi utan um reglugerð, sem gert er ráð fyrir, að sett verði um þessi efni, þá væri fullstrangt að orði kveðið í upphafi 2. gr. frv., þar sem ákveðið er, að þeim einum skuli veitt heimild til að hafa vopn í vörzlum sínum, sem sýna skilríki fyrir því, að þeim sé það nauðsynlegt vegna atvinnu sinnar. Leggur n. til, að gr. þessi orðist svo, að það skuli vera höfuðregla, að þeim einum sé veitt heimild o. s. frv. Þar sem þessum l. er ætlað að verða aðeins rammi utan um reglugerð, þá virðist n. þetta vera nægilegt. En svo koma þá í reglugerð nánari ákvæði um frávikning frá þessari reglu, ef hún verður veitt.

Loks vil ég geta þess, að tveir nm. létu í ljós, að þeir mundu geta fallizt á frekari breyt. á frv. heldur en þær, sem till. er um í brtt. 523. En enn sem komið er hafa ekki komið fram aðrar brtt. við frv. en þær, sem eru á þskj. 525. Og það er till. n., að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem þar er till. um.