15.11.1935
Efri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í C-deild Alþingistíðinda. (4615)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að leggja út í að ræða um einstakar gr. eða brtt. við þetta frv., en ég vildi aðeins láta í ljós undrun mína yfir þeirri löggjöf, sem hér er á ferðinni. Mér er í raun og veru alveg óskiljanlegt, hvað allt þetta á að þýða, nema hér sé bara einn liður í þeirri stefnu, að löggjafarvaldið eigi að hafa yfirleitt hönd í bagga með öllum sköpuðum hlutum, sem borgararnir taka sér fyrir hendur. Það hefir svo sem tíðkazt, að löggjafarvaldið hafi sett ákvæði um það, hvernig menn ættu að klæðast, hversu fjölmennar veizlur menn mættu hafa o. s. frv. Það er alveg eins og hér eigi að fara að leggja út á slíka braut, en mér er alveg óskiljanlegt, hvaða ástæða önnur getur verið fyrir þessu frv., og ég vildi gjarnan fá skýringu á þessu hjá þeim hæstv. ráðh., sem stendur að þessu frv. Ég sé, að hann er því miður ekki við.

Ég hefi farið í gegnum grg. og reynt að finna þar ástæður fyrir frv., en þar er ekkert að finna, sem réttlæti flutning frv. Þar er að vísu sagt, að önnur ríki láti þessi mál mjög til sín taka, og er svo að sjá, að ástæðurnar fyrir flutningi frv. séu þær, að t. d. Englendingar og Þjóðverjar hafa slíka löggjöf. Þessar þjóðir hafa stórkostlegar vopnaverksmiðjur og hernaðarbákn með höndum, og það er af því, að þær hafa löggjöf um þessi stórkostlegu mál sín. En hvers vegna ætti að vera nauðsyn að setja lög um þetta hér á landi, þar sem enginn hernaður er og hefir ekki verið öldum saman? Mér er þetta alveg óskiljanlegt, og ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort nokkuð það sé að gerast í okkar þjóðfélagi, leynt eða ljóst, sem geri þessa ráðstöfun nauðsynlega. Maður gæti hugsað sér, að hér væru hópar manna farnir að ganga alvopnaðir eða að miklar vopnabirgðir hefðu fundizt einhversstaðar í landinu, sem settu þjóðfélagið í hættu. Ef svo væri, gæti ég skilið, að slíkt frv. kæmi fram. En þá finnst mér, að gefa ætti einhverja yfirlýsingu um það. Annars lítur út fyrir, að hér sé um hreinan skrípaleik að ræða, að setja hér á eftirlit um vopnaburð og sölu á skotvopnum. Ég verð að segja, að mér finnst það nánast hlægilegt að kalla þetta skotvopn og tala um sprengjur í frv. Það er eins og verið sé að gefa til kynna, að hér sé vopnaburður í uppsiglingu. Samkv. 2. gr. skal halda skrá yfir alla menn, sem hafa leyfi til að hafa vopn í vörzlum sínum. Ég veit ekki, hvernig það er nú í sveitum, en í mínu ungdæmi var ekki til það heimili, sem ekki var byssa á. Það var beinlínis einn liður í búskapnum, að menn notuðu byssur, sérstaklega til fugladráps. Það eru mörg dæmi til þess, að menn hafi haft þó talsverðar aukatekjur af því að skjóta rjúpur á haustin, þegar sæmilegt verð hefir fengizt fyrir þær. Það, að gera skrá yfir öll skotvopn í landinu, er hreint ekki svo lítið starf. Að ég nú ekki tali um þá óendanlegu skriffinnsku, sem leiðir af því, að hver maður þarf að sækja um það til skrifstofunnar í hvert skipti, ef hann skemmir byssu sína eða leggur niður byssu og vill fá sér nýtt verkfæri. Þarf hann þá að sanna fyrir rétti, að hann þurfi á byssunni að halda atvinnu sinnar vegna og annað slíkt. Mér finnst þetta satt að segja svo einkennileg löggjöf, ef ekki liggja til grundvallar fullnægjandi ástæður, t. d. það, að stj. hafi komizt að því, að verið sé að hrúga upp vopnabirgðum í landinu og líkindi séu til, að gera eigi vopnaða árás á þjóðfélagið. Ég er ekki svo mikill lögfræðingur, að ég viti, hvort nokkur stoð er til í l. nú til þess að hefta slíkt. Ég vil benda á, að hér er ekkert um það sagt, hver á að hafa þetta eftirlit með höndum, en mér skilst, að það sé ríkisstj., og það er sagt í grg., að stj. eigi að hafa með höndum að vaka yfir vopnasölu og vopnaburði í landinu. Eina vitið, sem hægt er að fá út úr þessu frv., er það, að ríkisstj. sé að búa sig undir að vopna sig og ætli sér að vita vel um styrk andstæðinganna. Ég ætla ekki að gera stj. getsakir um, að hún ætli að taka einræði og styðja það með vopnavaldi, en frv. bendir á, að þetta sé hernaðarráðstöfun í landi, þar sem ekki er vitað, að neinn hernaður sé í. Það væri æskilegt, ef hæstv. forsrh. vildi færa meiri ástæður fyrir þessu en þá, að Englendingar og Þjóðverjar vilja hafa l. um sína stórkostlegu vopnaframleiðslu.