15.11.1935
Efri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í C-deild Alþingistíðinda. (4616)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. 4. þm. Reykv. hefir spurzt fyrir um ýmislegt viðvíkjandi þessu frv., og ég skal reyna að verða við því að svara þeim fyrirspurnum með örfáum orðum. Það er þá fyrst og fremst það, að ég hafi ekki borið fram neinar ástæður fyrir því, að þetta frv. er fram komið, og að til þess gætu ekki legið aðrar ástæður en þær, að hér bæri meira á vopnaburði heldur en verið hefir og að flokkar manna gerðu tilraunir til þess að safna að sér vopnum. En ég get ekki verið sammála hv. þm. um, að það réttlæti það að bera fram svona lagað frv. En það er fyrst og fremst vegna þess, að það eru fleiri en Þjóðverjar og Englendingar, sem hafa slíka löggjöf. Ég veit ekki betur en að það séu allar þjóðir, sem banna mönnum alveg að bera vopn nema með leyfi. Ég veit ekki betur en að Danmörk og Svíþjóð hafi svona lög hjá sér. Þetta sést bezt á því, að útlendingar, sem hingað koma, gera talsvert að því að kaupa hér byssur, af því að þeir geta keypt þær hér frjálst, en þurfa leyfi til þess annarsstaðar. Þetta er ekki vegna þess, að menn búist við samtökum til þess að ráðast á ríkisvaldið, heldur vegna þess, að það er talið eðlilegt, að menn, sem hafa svona hættulega hluti í vörzlum sínum, þurfi að fá leyfi til þess. Ég segi ekki, að það séu margar þjóðir, sem hafa það sjónarmið, að koma í veg fyrir, að hópar manna geti vopnað sig. Mér finnst því eðlilegt, að við tökum upp sömu reglu um þetta og nágrannar okkar hafa. Það má líka færa ýmsar aðrar ástæður fyrir því, og ég get fært fram ýms rök fyrir þessu af þeirri reynslu, einmitt af þessu atriði, sem við höfum hér og ég vænti, að hv. 1. þm. Reykv. geti tekið nokkurt tillit til. — Áður en ég sný mér að því vil ég þó minna á, að hv. þm. gat sérstaklega um, að þetta væri falið ríkisstj., — að ríkisstj. ætti að gefa mönnum leyfi til að bera vopn o. s. frv. Það er vitanlega ekkert óeðlilegt við það, því að það eru alstaðar lögreglustjórarnir, sem hafa þetta með höndum, og því ekkert öðruvísi hér heldur en annarsstaðar, þar sem slíkt leyfi þarf. — Viðvíkjandi því, hvort þetta væri réttarnauðsyn, að setja þessar reglur, vil ég benda á, að við höfum rekið okkur á það í starfi lögreglunnar, að unglingar, niður í 8—10 ára, fari með skotvopn hér niðri við höfn, og það hefir hvað eftir annað legið við tjóni, og meira að segja orðið tjón að. Þetta stafar af því, að hvaða óviti sem er getur gengið í búðirnar og keypt vopn eftir eigin geðþótta. Það hefir líka tvívegis komið fyrir hér, að innbrotsþjófar á síðasta ári hafa verið vopnaðir með skammbyssum, og mér finnst óþarfi að gefa slíkum mönnum frjálsræði til að vera vopnaðir eftir því sem þeim þóknast. Mér virðist þessi ástæða vera alveg nægileg rök, og meira en það, fyrir því, að þetta frv. verði að l. — Það er talað um það, að sú skrifstofa, sem hefir með höndum að gefa út leyfin, verði geysilegt bákn, en þetta hefir ekki við nein rök að styðjast, því að þetta hefir alstaðar reynzt lítið verk, vegna þess að skotvopnin endast lengi og jafnvel heila mannsaldra, og það verður lítið verk að halda þessu við eftir að búið er að koma skrásetningunni á. En þó að það sé þannig alveg næg ástæða fyrir hendi til að setja þessi lög, að þessar reglur gilda í öllum siðuðum menningarlöndum, og vegna þess að við höfum rekið okkur á, að það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að óvitar og unglingar fari með þessi vopn sér og öðrum til tjóns, eins og nú á sér stað, og ennfremur afbrotamenn, sem þjóðfélagið þarf að berjast við, og svo er því ekki að leyna, að á þessum tímum, þegar tíðkast fyrirsátir, sem maður fyrir nokkrum árum hélt að gætu ekki komið fyrir, þá er rétt að fyrirbyggja, að menn geti hópazt saman og notað hættuleg vopn. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur veruleg brögð verði að þessu nú, en það er of seint að gera varúðarráðstafanir. þegar allt er komið í óefni og menn búnir að birgja sig upp með vopn í stórum stíl. Ég álít tvímælalaust, að það eigi að setja slíka löggjöf áður en til þessa kæmi, og þetta frv. sé því þarft og nauðsynlegt og eigi að verða að lögum.