16.11.1935
Efri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í C-deild Alþingistíðinda. (4621)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þó að ég gerði ekki nema eina brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir, og hana ekki mikla, þá verð ég að taka það fram, að þetta var aðeins gert til þess að bæta úr einum af stærstu göllunum, sem ég áleit, að væru á frv., en nær vitanlega ekki til allra galla þess, sem eru margir. Til þess að frv. geti orðið sæmilega viðunandi, virðist mér þurfa að breyta því ekki svo lítið.

Hæstv. forsrh. kom fram með það í gær, að frv. væri aðallega flutt með það fyrir augum að koma í veg fyrir, að börn gætu keypt sér skotvopn og verið að leika sér að þeim, eins og ætti sér stað jafnvel hér í Reykjavík. Ég held, að hægt væri með breyt. á eða viðauka við lögreglusamþykkt að varna því, að þetta ætti sér stað.

Þá er, eins og áður hefir verið að víkið, þetta frv. þannig, að þótt fyrirsögnin hljóði aðeins um skotvopn, þá er annarsstaðar í frv. á tveim stöðum eða fleirum talað um vopn, án frekari skilgreiningar á því orði. Slíkt nær auðvitað, eftir orðunum sjálfum, til allra vopna, í hverskonar mynd sem er. Og þó að fyrirsögnin virðist benda til þess, að frv. eigi aðeins við skotvopn, þá nær samt frv. raunverulega yfir fleira eins og það er nú orðað. Þessu verður að breyta við meðferð málsins, þannig að í staðinn fyrir „vopn“ í frv. komi: skotvopn. Þetta væri hægt að laga við 3. umr.

Þá þætti mér fróðlegt að vita, hver ætlazt er til, að útbýti þessum heimildum, sem um ræðir í frv., hvort stjórnarráðið á að gera það eða lögreglustjóri, eða jafnvel hreppstjórar, og eins hitt, hvað vakir fyrir flm. frv. með þessum ákvæðum um „skilríki“, hvernig og hverskonar þau eigi að vera.

Yfirleitt hefi ég viljað með brtt. þessari láta það vera skýrt fram tekið, að hver sá maður, sem gæti fært rök fyrir því, að honum væri það gagnlegt að hafa skotvopn undir höndum, gæti í venjulegum kringumstæðum fengið leyfi til þess, þó að það væri ekki aðeins gagnlegt vegna aðalatvinnu hans sjálfs.

Mér virðist allt of langt gengið með þessu frv. Það hefði átt að undanskilja einstök skotvopn, sem í sjálfu sér þurfa að vera við hendina á hverju sveitaheimili, eins og fjárbyssur. Og það hefði jafnvel átt að undanskilja haglabyssur líka, því að á mörgum sveitaheimilum hafa menn þeirra töluverð not. En um skammbyssur er allt annað að segja.

Sem dæmi um það, hversu nauðsynlegt getur verið, að sveitamenn hafi byssur á heimilum sínum, vil ég benda á það og beina því til hæstv. forsrh., að komið hefir það fyrir, að birnir hafa vaðið á land á Ströndum, og þá hafa það verið byssurnar, sem bjargað hafa kjósendum þar frá því að vera étnir eða rifnir í sundur af björnum. (Forsrh.: Það má telja nauðsyn, að þeir hafi byssur).

Viðvíkjandi í sem hv. 2. þm. S.-M. var að tala um, að hann sæi ekki mikinn mun á því, að eitthvað væri gagnlegt og að eitthvað væri nauðsynlegt, vil ég segja það, að ég álít þó þar mikinn mun á, og margt getur verið gagnlegt, sem þó er ekki alveg nauðsynlegt.