21.11.1935
Efri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í C-deild Alþingistíðinda. (4627)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. tók fram, að þessi löggjöf fyrirbyggir á engan hátt það, að börn geti náð í skotvopn og innbrotsþjófar varið sig með byssu. En það gefur að skilja, að því meiri takmarkanir, sem á því eru, að menn geti haft vopn í vörzlum sínum, því meiri líkur eru til, að þetta megi fyrirbyggja. Nú getur hvaða barn sem er keypt sér skotvopn og farið með þau. Við, sem höfum verið við lögreglustarf, vitum, að unglingar gera mikið að þessu og eru hér um alla fjöruna með þessi skotvopn. Sama er að segja um ýmsa misindismenn, sem eru lögreglunni vel kunnir. Það yrði vitanlega ekki farið að leyfa þeim að hafa skammbyssur og önnur skotvopn í vörzlum sínum, sem þeir gætu notað til þess að fara öðrum að voða. Af þessum ástæðum er það, að þessar takmarkanir eru settar annarsstaðar, og það er eðlilegt, að þær séu einnig settar hér. Ég get ekki séð, hvað menn geta haft á móti þessum takmörkunum. Aðalatriðið er það, að þessar takmarkanir hljóta þó að miða í þá átt að gera öryggið meira gegn því að misindismenn, unglingar og börn fari með byssur, sjálfum sér eða öðrum að voða. Hvað geta menn haft á móti þessu? Ég hefi ekki heyrt þau rök ennþá. Það er bara sagt, að þetta komi ekki að fullu gagni. Vitanlega er það rétt, að þetta kemur ekki að fullu gagni, en það getur a. m. k. fyrirbyggt mörg slys, bæði á mönnum, sem eiga að gæta laganna, og eins börnum, sem hingað til hafa farið með byssur.

Það eru fleiri ástæður, sem mætti nefna þessu máli til stuðnings, en ég álít, að ekki þurfi að rökstyðja þetta frekar, því það er svo sjálfsagt mál að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir.

Það er ekki hægt að neita því, að ettir að búið er að setja þá takmörkun í 2. gr. frv., sem sett hefir verið, þá getur hún ekki verið neinum til baga. Þar er sem sagt tekið svo til orða, að það skuli vera aðalreglan, að þeim einum sé veitt heimild til þess að hafa vopn í vörzlum sínum, sem sé það gagnlegt eða nauðsynlegt vegna atvinnu sinnar. Það er ekki tekið strangara til orða en svo, að það skuli vera aðalreglan. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr.