21.11.1935
Efri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í C-deild Alþingistíðinda. (4629)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Eins og ég sagði áðan, þá koma ekki önnur rök fram gegn þessu frv. heldur en það, sem var aðalefni í ræðu hv. þm. N.-Ísf., að frv. sé óþarft. En það er ekki bent á neina ástæðu fyrir því, hvers vegna það sé óþarft. Það er talað um það, að rétt sé að setja ýms ákvæði viðvíkjandi því, að ekki sé farið gálauslega með vopn. En það er heimild í l. til þess að setja ýms ákvæði í reglugerð einmitt um þessi atriði. Öðru þarf ég ekki að svara.

Hv. þm. N.-Ísf. minntist á það, sem er orðið landskunnugt, að ég væri góður skotmaður. En þó að ég viðurkenni, að skotfimi hafi einu sinni verið ein af mínum beztu íþróttum, og sé það kannske enn, þá held ég, að það sé oflof, sem fylgismenn þessa hv. þm. hafa borið á mig og talið sig sanna á mig fyrir skotfimi.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að það væri um mig eins og meinlætamenn, að þegar mér væri varnað þess að fara með vopn, þá vildi ég taka þann rétt af öðrum. En hv. þm. virðist muna betur eftir dómi undirréttar heldur en dómi hæstaréttar, því riffilinn var dæmdur af mér í undirrétti, en hæstiréttur dæmdi mér hann aftur. Við þetta hefir riffillinn stigið svo í verði, að mér hafa verið boðnar fyrir hann mörg hundruð krónur, en ég keypti hann fyrir 63 kr.

Ég álít það gagnlega íþrótt að fara með byssu. Ég iðka sjálfur þetta sport, og tel það eitt af því gagnlegasta, sem ég iðka. Ég held því satt að segja , að þetta vefjist eitthvað fyrir hv. þm. N.-Ísf., eða hafi ruglazt eitthvað í kollinum á honum, það sé þar eitthvert ryk, fyrst hann vill ekki skilja það, sem hér er á ferðinni.