21.11.1935
Efri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í C-deild Alþingistíðinda. (4633)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Mér virðist þurfa nýja lögreglusamþykkt fyrir þennan bæ, ef unglingar geta gengið hér um allar fjörur með skotvopn. Á Ísafirði t. d. er það bannað með lögreglusamþykkt, að menn fari með byssur innan takmarka bæjarins. (MJ: Það er bannað hér líka). En lögreglustjóri, eða hæstv. dómsmrh., sem hér var lögreglustjóri, segir þó, að unglingar gangi hér með byssur um allar fjörur. (MJ: Og hann gerir það sjálfur). Ef lögreglusamþykkt er til um þetta atriði, þá hlýtur eitthvað að hafa skort á eftirlit með því, að henni væri hlýtt, og mig undrar það náttúrlega ekki, ef sjálfur lögreglustjórinn hefir ekki farið eftir henni.

Till. mín um að selja ekki unglingum innan 18 ára skotvopn felur það í sér, að yngri menn en 18 ára fari ekki með byssur, sem þeir eiga sjálfir, en ekki hitt, að þeir megi ekki fá lánaðar byssur og fara með þær undir eftirliti annara. Ég álít, að það sé ekki hægt að banna þeim það, enda verði enginn góð skytta, nema hann æfi sig nokkuð snemma undir handleiðslu eldri manna.

Þá er það síðari ástæða hæstv. ráðh., að misindismenn verði ekki látnir bera vopn, ef frv. verður samþ. Ég skil satt að segja ekki annað en hægt sé að dæma skotvopn af misindismönnum, ef lögreglan kemur að þeim með vopn. (Forsrh.: Hvar eru ákvæðin, sem á að dæma þá eftir?). Ég veit t. d., að það hefir verið gert á Ísafirði. Það hafa verið teknar byssur af mönnum, sem hafa skotið í fjörum innan bæjartakmarka. (Forsrh.: Ég var að spyrja um afbrotamenn). Ég hélt, að lögreglan hefði vald til að taka vopn af þeim, sem sýna henni ofbeldi, og ef ekki eru til ákvæði um slíkt, væri nær að koma fram með frv. um það.

Hæstv. ráðh. sagðist vera góð skytta, en mér heyrðist nú annað hjá hv. þm. S.-Þ., sem sagði, að hæstv. ráðh. hefði sloppið við dóm, af því að hann hefði ekki hitt.

Út af því, sem hæstv. ráðh. var að tala um ryk í kollinum á mér, þá vil ég svara því, að það er ekki einu sinni ryk í kolli hæstv. ráðh., heldur er hann alveg galtómur.