11.03.1935
Sameinað þing: 4. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (4672)

22. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Þessi till., sem hér liggur fyrir, var flutt á síðasta þingi af sömu mönnum, en komst þá ekki til umr. Eg skal geta þess, að við vorum 5 flm. þá, en nú var hv. þm. Vestm. ekki kominn til landsins, þegar till. var lögð fram, en ég reikna með, að hann sé henni að öllu leyti samþykkur.

Um 1. lið till. vil ég þó segja nokkur orð til viðbótar því, sem sjá má í grg. till. Eins og kunnugt er, er hugmyndin um að koma landhelgisgæzlunni á íslenzkar hendur ekki gömul, en draumur þeirra manna, sem sátu á Alþ., þegar landhelgissjóðurinn var stofnaður, var sá, að sjóðurinn yrði þess megnugur að bera uppi landhelgisgæzluna.

Þróunin er nú orðin sú, að tvö varðskip hafa verið byggð að nýju og það þriðja keypt gamalt. Þessi þrjú skip hafa svo annazt landhelgisgæzluna. En 2—3 síðustu árin hefir nokkuð verið dregið úr notkun skipanna með því að láta 1 eða fleiri liggja um kyrrt lengri eða skemmri tíma. Eina ástæðan, sem færð hefir verið fram fyrir því, er fjárhagsatriðið. Kostnaðinn við útgerð varðskipanna má sjá í landsreikningum fram til 1933. En fyrir 2 síðustu árin hefi ég aflað mér upplýsinga um kostnaðinn, og hefir hann orðið þessi 1933:

Útgerðarkostnaður kr. 654726.00

Afskrift — 1014820.10

Þetta verður samtals kringum 760 þús. kr.

1934 er kostnaðurinn nokkru meiri, eftir því sem upp hefir verið gefið, eða um 780 þús. kr. og afskrift 104 — —.

eða samtals í kringum 884 þús. kr.

Ég nefni þessar tölur til samanburðar, því þingið í vetur sá sér ekki fært að leggja nema 350 þús. kr. til landhelgisgæzlunnar. Að vísu má reikna með nokkrum tekjum af landhelgissektum og í björgunarlaun, en tekjurnar gætu samtals orðið allt að 500 þús. kr. Nú bygg ég, að hv. þm. sé það ljóst, að ekki verður hægt að halda uppi þeirri landhelgisgæzlu, sem nauðsynleg hlýtur að teljast, með þeirri fjárupphæð, sem nú er í fjárl. Það verður því að draga úr kostnaðinum. En ég býst við, að það muni valda allmikilli óánægju meðal landsmanna, ef landhelgisgæzlan þarf að versna, því vitanlega er þörfin sízt minni nú en hún var fyrir nokkrum árum. Ég hygg, að dómur landsmanna sé sá, að vernda þurfi fiskimiðin. Enda er það sú eina landvörn, sem hægt er að koma við, að vernda fiskimiðin og þá jafnframt stærsta atvinnuveg þjóðarinnar. Okkur flm. er ljóst, að fjárhagsleg geta okkar leyfir ekki, að hægt sé að halda uppi landhelgisvörnum fyrir 8—900 þús. kr. á ári. Því hefir okkur dottið í hug að fara fram á, að rækilega yrði rannsakað, hvernig hægt er að skipa landhelgisgæzlunni á heppilegastan hátt. Hvort við þurfum t. d. að hverfa frá stærri skipunum og taka upp smærri skip og ódýrari. Um þetta liggja engar athuganir fyrir, svo ég viti. En það er mjög erfitt fyrir Alþ. að kryfja þetta mál til mergjar á stuttum tíma, og viljum við flm. því leggja til, að skipuð verði mþn. til þess að rannsaka málið.

Um 2. liðinn má segja, að hann sé afskaplega nátengdur þeim fyrsta. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir rignt yfir þingið áskorunum un betri landhelgisgæzlu og beiðnum um fjárhagslega aðstoð til þess að halda uppi björgunarstarfsemi. Og ég verð því miður að segja, að stj. hefir ekki getað orðið við þessum kröfum. Eg segi því miður, því ég held, að allir séu sammála um, að við megum ekki horfa í neinn kostnað til þess að tryggja líf okkar hraustu sjómanna.

Á síðustu árum hefir sprottið hér upp félagsskapur, sem segja má, að vaxinn sé út úr hjarta þjóðarinnar, þar sem er Slysavarnafélag Íslands. Það mun mega leita lengi til þess að finna félagsskap, sem á jafnfáum árum hefir vaxið upp í að hafa um 10 þús. meðlimi. Það á ítök ekki aðeins í sjávarþorpunum, heldur einnig til sveita; er þar einnig skilningur fyrir því, að þar sé nauðsynlegt eitthvað að gera.

Stefnuskrá þess félags er í stuttu máli sú, að vinna að björgunarmálum, með allri þeirri tækni, sem mannlegt hyggjuvit ræður yfir, og þá fyrst og fremst með því að láta byggja björgunarskip, sem haldi uppi starfrækslu við strendur landsins. Er hugmyndin að byggja þau fyrir samskotafé, en leita ekki til Alþ. um fjárframlag.

En það liggur í augum uppi, að þegar búið er að koma þessum skipum upp á mörgum stöðum, þá verður kostnaður við rekstur þeirra svo mikill, að það verður að teljast mjög hæpið, að félagsskapurinn standi undir honum, og yrði því að leita fjárstyrks til Alþ. Því hefir ýmsum dottið í hug, að hægt væri að sameina björgunarstarfsemina og landhelgisgæzluna að meira eða minna leyti. Það yrði því eitt af aðalverkefnum mþn. að athuga, hvort ekki væri hægt að samrýma þessi tvö nauðsynjamál.

Þá skal ég víkja að 3. liðnum, sem ekki er veigaminnstur í mínum augum.

Lög þau, sem nú gilda í þessum efnum, eru að vísu ekki gömul, þar sem eru 1. nr. 58 frá 14. júlí 1929, og eru hugsuð eftir því, sem menn vissu bezt þá. Voru þau byggð á tilskipun nr. 43 frá 21. nóv. 1922, og sniðin eftir hliðstæðum l. annarsstaðar á Norðurlöndum. En það er nú svo með löggjöfina eins og annað, að hún er breytingum háð, því að tímarnir breytast, mennirnir breytast, og þarfirnar breytast. Og þótt 1. þessi væru góð á sínum tíma. eru þau ekki lengur í samræmi við kröfur tímans, og þurfa því breytinga við. Eg hygg því, að full þörf sé orðin á því að yfirfara og athuga þessi 1. og að ýmsu megi þar breyta til betri vegar. Eitt veigamikið atriði er fyrirkomulagið á skipaskoðuninni, sem 1. frá 1929 gera ráð fyrir. Eg skal ekki þreyta hv. þdm. með því að þylja mikið upp úr þeim 1., en aðalatriðið er það, að aðeins er gert ráð fyrir einni árlegri skoðun, um áramót, og svo aukaskoðunum eftir því sem óskað er í ákveðnum tilfellum. En reynslan hefir sýnt, að þetta er ekki fullnægjandi, en að skipaskoðunarmaður þarf að hafa vald til þess að grípa inn í og framkvæma skoðun á hvaða tíma sem honum þóknast. Eru dæmi til þess, að skip hafa fengið lánuð tæki, sem þau eru skyldug til þess að hafa, og hafa þau um borð meðan skoðun hefir farið fram, en skilað þeim svo aftur. Það eru tugir, ef ekki hundruð manna, sem mér er kunnugt um, að hafa athugað þessi mál, sem hafa skýrt mér frá því, að skipaskoðunarmenn þori ekki yfirleitt að gera það, sem ábótavant er skipum, opinbert í hverju tilfelli, af því að það sé svo viðkvæmt mál skipaeigendum og skipstjórum. Eg hefi í höndum mörg dæmi frá síðustu árum, er sanna þessi orð mín.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning skal ég taka það fram, að framkvæmd skipaskoðunar er mismunandi á ýmsum stöðum á landinu. Í sumum héruðum hefir hún verið sómasamleg, en í öðrum mjög léleg. Þegar einn skipaskoðunarstjóri er fyrir allt landið, getur hann vitanlega ekki verið á hverjum stað og tíma, þegar skipaskoðun fer fram, heldur verður hann að byggja á þeim mönnum, sem hann hefir falið að leysa þetta trúnaðarstarf af hendi.

Eg tel það afskaplega mikilsvert, að þeir menn, sem þessi störf vinna, séu algerlega óháðir allri útgerð, að þeir séu hvorki útgerðarmenn né hluthafar í útgerðarfélagi eða þ. u. 1. Þetta starf er svo mikið ábyrgðarstarf, að skipaskoðunarmaður má ekki af þeim ástæðum freistast til að fara eftir neinu öðru en samvizku sinni, er hann ákveður, hvers beri að krefjast til þess að öryggis sé gætt. Sama er að segja um þann mann, skipaskoðunarstjóra, sem settur er yfir þessi vandasömu trúnaðarstörf. Hann má ekki vera háður neinu öðru valdi en ríkisvaldinu, sem skipar hann í starfið, því að annars gæti það haft áhrif á starf hans.

Að gefnu tilefni vil ég geta þess, að ég tel ekki viðeigandi, að skipaskoðunarstjóri ríkisins eigi svo að hafa ákvörðunarrétt um það, hvað þessi eða hin útgerðin þurfi til síns viðhalds. Það er annað að vera sparnaðarmaðurinn í þessu efni og hitt að vera maður, sem heimtar fullt öryggi.

Ég vil ekki þreyta hv. þm. með því að lengja framsögu mína meira. Eg þykist hafa skýrt það nokkuð, hvað fyrir okkur flm. till. vakir. Hér eiga hlut að máli á þeim tíma ársins, sem sjávarútvegurinn er í fullum gangi, um 6 þús. menn, sem geta átt líf í hættu, ef ekki er gætt öryggis í þessum efnum. Og ekki að gleyma öllum aðstandendum þeirra í landi. Það er því auðsætt, að hér er ekki um neitt smámál að ræða. Hér er um það að ræða, að okkar fámennu þjóð ber skylda til að gera allt, sem unnt er, til þess að vernda sem bezt líf okkar sjómanna, sem í raun og veru færa okkur drýgstan skerf til viðhalds okkar þjóðfélagi. Við erum svo gæfusöm þjóð, að við höfum ekki herskyldu. En þetta eru okkar stríðsvarnir, ef svo mætti segja, að gæta þessa öryggis fyrir okkar sjómenn. Og þessa öryggis eigum við að gæta eins vel og mannlegu hugviti er frekast unnt.

Vona ég, að hv. þm. geti orðið mér sammála um, að þetta mál eigi að athugast þangað til þing kemur saman næst. Það er mín hugmynd, að hæstv. stj. leitaði til þeirra manna, sem hún teldi fróðasta í þessu efni, til þess að fá hjá þeim allar þær leiðbeiningar, sem hún teldi sig þurfa til þess að leysa þetta verk vel af hendi. öllum til velfarnaðar, sem njóta eiga.