25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (4682)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Flm. (Bjarni Bjarnason) [óyfirl.]:

Goshverinn Grýta í Ölfusi og rúmur ha. lands umhverfis er eign Boga A. J. Þórðarsonar, kaupmanns í Reykjavík. Það má segja, að þessi hver sé sá eini, sem gýs, a. m. k. sem hægt er að komast að með auðveldu móti frá Reykjavík. Undanfarin ár hefir borið töluvert á því, að ferðamenn hafa krotað í barma hversins og kastað ýmsu rusli ofan í hann. Þótt sumir hafi gert vísvitandi tilraun til þess að eyðileggja hverinn, eru þó mörg af þessum spellvirkjum framin af barnaskap, án vitundar um, að verið sé að eyðileggja hverinn sem goshver. Eigandi hversins telur sig ekki hafa efni á að kosta þarna vörð, sem þó sennilega þyrfti að vera á staðnum, a. m. k. þá tíma árs, sem mikil er umferð að og frá hvernum. Það er vitað, að flestir útlendingar, sem hingað koma og nokkuð geta hreyft sig út fyrir Reykjavík, fara þangað austur, og þá að jafnaði með leiðsögu innlendra manna. Einnig fer fjöldi landsmanna að Grýtu, sérstaklega frá Reykjavík og menn utan af landi, sem hingað koma. Er það mikill kostur við þennan hver, hversu auðvelt er að komast að honum úr Reykjavík, þar sem mest er umferðin, auk þess sem þetta er eitt af þeim náttúrufyrirbrigðum Íslands, sem a. m. k. útlendingum finnst einna mest til koma. Þessa hvers mun vera getið í flestum eða öllum leiðarvísum, sem nú eru gefnir út og sendir erlendum ferðamannaskrifstofum. Ég tel það eina möguleikann til þess að hvernum verði haldið við, að hæstv. ríkisstj. fái heimild til þess að kaupa hverinn, eftir frekara samkomulagi við eigandann. Það hygg ég vera einu leiðina til þess að tryggja hverinn fyrir skemmdum, eftir því sem auðið er að gera. Eigandinn gerði síðasta sumar töluvert til þess að laga hverinn, með því að hreinsa úr honum rusl, sem kastað hefir verið í hann, og steypa í holur í börmunum, sem gufaði upp úr og ullu því, að þrýstingurinn var minni en ella hefði verið.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta frekar, því að hv. þm. munu flestir vera kunnugir á þessum slóðum og vita því vel, hvað hér er á ferðinni. — Ég vil mælast til þess, að þessari þáltill. verði vísað til síðari umr. og fjvn., að þessari umr. lokinni.