25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (4683)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi flutt viðaukatill. við þessa þáltill., sem hv. 2. þm. Árn. hefir lýst. Ég get verið stuttorður um brtt. mína, því að efni hennar er áður kunnugt hér á hv. Alþ. Það var fyrir nokkru, ef ég man rétt, sem ákveðið var að heimila ríkisstj. að festa kaup á þessu gamla biskupssetri, ef um semdist. Þetta mun ekki hafa tekizt þá, og það er óvíst, hversu auðvelt það er nú, en ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að flestum hv. þm. finnist það slík nauðsyn, að ríkið eignist þessa jörð, hvaða álit, sem menn annars hafa á því atriði, hvort ríkið eigi að veru almennur jarðeigandi eða ekki.

Skálholt hefir verið annar af tveim höfuðstöðum landsins mestalla sögutíðina, og fyrir rás viðburðanna var biskupssetrið og skólinn flutt burt af staðnum. Skálholt hefir verið svo ofið inn í sögu landsins, að það er beinlínis stórvægilegt menningarmál, að þessi jörð verði eign ríkisins, og að sú mynd, sem bæði landsmenn sjálfir og gestir, sem hingað hafa komið, fá af staðnum, sé í samræmi við frá mynd, sem bókmenntir okkar og saga geyma af Skálholti. Það liggur í augum uppi, að þegar þetta höfuðból skiptir oft um landsdrottin og þegar það er, eins og nú, leigt til eins árs, þá er blátt áfram óhugsandi, að hægt sé að halda slíkum sögustað nægilega vel við. Það getur vel verið, að þótt hv. Alþ. samþ. þessa till., þá takist samt ekki að festa kaup á staðnum að sinni, því að það getur verið, að eigandi jarðarinnar haldi henni í svo geipilegu verði, að hæstv. ríkisstj. sæi sér ekki fært að kaupa hana. Samt álít ég vel við eigandi, að málinu sé haldið vakandi með því, að hæstv. ríkisstj. fái aðstöðu til þess að leitast fyrir um að ná þessum sögustað í eign landsins.