01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (4690)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Í því stutta nál., sem við minni hl. fjvn. höfum komið fram með, látum við í ljós það álit, að eins og hag ríkissjóðs sé nú komið, væri frekar þörf á að hugsa um aðra hluti en þá, að fara að sækjast eftir verðmætum, þ. e. a. s. jarðeignum og náttúrugæðum, t. d. eins og þessum hver þarna austur frá, því að í ærið mörg horn er að líta, og ég tel það liggja miklu nær fyrir þá menn, sem hafa yfirlit yfir hag og horfur ríkissjóðsins og almennings í landinu, að reyna að verjast áföllum sökum erfiðra greiðslumöguleika. bæði í nútíð og þeirri framtíð, sem næst blasir við, en að leggja út í slík kaup, sem hér um ræðir. Hér er um að ræða verðmæti, sem eru nú föst í landinu, hvort sem ríkið á þau eða einstakir menn, þar sem um er að ræða jörðina Skálholt og svo þessa Grýtu í Ölfusi. Ef það er svo ákaflega eftirsóknarvert, eins og hv. frsm. meiri hl., hv. þm. S.-Þ., hélt fram, fyrir útlendinga og aðra að sjá þennan hver, að þeir séu jafnvel fúsir að greiða eitthvað fyrir það, þá skil ég ekki, að eiganda hversins ætti ekki að vera áhugamál að vernda þessa arðbæru eign sína.

Ég veit ekki betur en núv. eigandi hversins hafi lagt þar í nokkurn kostnað, í þeirri von, að hann gæti haft nokkuð upp úr því að sýna hverinn. En síðar mun nú hafa komið í ljós, að hér er ekki um svo ábatasamt fyrirtæki að ræða, að eigandanum þyki sínum hag betur borgið en áður, og er mér ekki grunlaust um, að hann þykist svo bezt hagnast á þessum athöfnum sínum, að hann geti nú komið öllu saman yfir á ríkið. Við minnihl.mennirnir lítum svo á, bæði af þessari ástæðu og svo vegna fjárhagsgetu ríkissjóðs, að nú sé við öðru að snúast en vera að ráðast í slík kaup sem þessi.

Hvað kaupunum á Skálholti viðvíkur, þá er það ekki ný bóla, að á því sé ymprað. T. d. hefir kirkjuráðið eitthvað látið málið til sín taka. En ég veit nú ekki, hvort það er beint af kirkjulegum áhuga, að hv. þm S.-Þ. flytur þessar till. hér í þinginu, eða að einhverjar aðrar orsakir liggja þar til grundvallar. Um það skal ég ekkert segja, enda þarf það ekki að skipta neinu máli, þegar endanleg afstaða er tekin til þessa máls, en það liggur nú fyrir að taka ákvörðun um það í náinni framtíð, hvort sú stefna á að verðu ofan á, að hætt verði sölu á kirkju- og þjóðjörðum, og ekki einasta það, heldur einnig hvort ríkið á að fara að bæta við sig jarðeignum með því að kaupa þær af einstaklingum. Þessi till. er einn anginn af þeirri stefnu, sem víðar kemur nú fram í frv. formi á Alþ. Mér finnst því vel mega bíða með þetta mál nú, þar sem sennilega verða einmitt um þetta atriði átök í þjóðfélaginu nú á næstunni, og fæst þá úr því skorið. hvor stefnan verður ofan á. Ég sé ekki, að neitt sé í húfi, þótt kaupin á Skálholti bíði eftir þeim úrslitum, sem væntanlega koma bráðum í ljós í þessum málum. Þessi staður er búinn að missa sína kirkjulegu frægð, og þótt sögulega frægðin sé hinsvegar alltaf við hann tengd, og þótt mér sé sagt, að allur umbúnaður á þessum stað sé þannig, að hann standi illa undir sögulegri frægð og helgi, sem þjóðin hefir á þessum stað, þá held ég ekki, að kaup á jörðinni til handa ríkinu sé hin rétta lausn á málinu, frekar en t. d. að sú nýja ábúðarlöggjöf, sem samþ. var hér fyrir skömmu, gæti létt undir með uppbyggingu á jörðinni, þar sem hver ábúandi getur krafizt þess af jarðeiganda, að jörðin sé vel hýst, bæði hvað snertir íbúðar- og peningshús. Það breytir því engu á þessum stað. hvort ríkið eða einstaklingur á jörðina. Jörðin mun vera í þeirra manna eigu, sem eru vel færir um að sjá af fjármunum til þess að uppfylla skilyrði og kröfur ábúðarlöggjafarinnar. — Engar ástæður eru því fyrir hendi, er gera það knýjandi nauðsyn að samþ. þessa till. hvað kaupin á Skálholti snertir. — Af þeim ástæðum, sem ég nú hefi fram fært, munum við minnihl.- mennirnir í fjvn. greiða atkv. gegn þessari till. Ríkisstj. eru eiginlega engin skilyrði sett um þessi kaup. Það er eftir hennar eigin geðþótta, hvað henni þóknast að gefa fyrir þessar eignir, og á þeim tímum, sem við nú lifum á, renna menn nokkuð blint í sjóinn með það, hvers virði bújarðir eru, og það er ekki að ófyrirsynju, að frestað sé að kaupa þessa jörð af þeim ríku mönnum, sem nú eru eigendur hennar.