01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (4694)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Í fjárl. 1934 var stj. heimilað að festa kaup á Skálholti. Þessi heimild var ekki notuð. Ég geri því ekki ráð fyrir, að nú sé, fremur en þá, knýjandi nauðsyn til að gefa stj. heimild til þessara kaupa. Að ríkið þurfi að eiga Skálholt, getur ekki byggzt á öðru en því, að eitthvað sérstakt eigi að gera með þá jörð. En meðan ekkert er um það upplýst, sé ég ekki ástæðu til, að ríkið fari nú að ráðast í þessi kaup, enda er það alltaf hægt seinna, ef þörf gerist.

Ég var á móti þessari heimild á sínum tíma, sem sé 1934. því að ég fann enga ástæðu til að veita hana. Og um kaup á Grýtu get ég sagt það sama. Ég sé enga knýjandi nauðsyn til þessara kaupa. Ef ríkissjóður kaupir hverinn, verður hann að kosta töluverðri upphæð á ári hverju til gæzlu hans. En þessa gæzlu er eins hægt að framkvæma, þó að hana verði í eign einstaklings, og hún yrði ekki dýrari fyrir það.

Annars skil ég ekki, hví þessi tvenn kaup eru sett hér hvor við annars hlið, því að varla skil ég, að gert sé ráð fyrir því, að leiguliði sá, sem byggi í Skálholti, yrði hafður sem gæzlumaður við Grýtu. Hv. 6. landsk. talaði um strompinn, sem búið er að setja á Grýtu, og fannst mér hann hafa tilhneigingu til að skipta þar um stromp og setja á hana pólitískan stromp.

Annars finnst mér, sem sagt, engin ástæða til, að ríkið sé að kaupa þennan hver eða Skálholt. Það er ekki sjáanlegt, að ríkið þurfi á jörðinni að halda, nema ef vera skyldi til þess að geyma hana sem minjagrip. En svo er fyrir þakkandi, að jörðin verður ekki flutt þaðan, sem hún er. Ef hinsvegar á að gera staðnum eitthvað til prýði, þá kostar það nokkurt fé, og veit ég ekki, hvort hæstv. fjmrh. er fús til að láta það af hendi.