25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (4704)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er spaugilegt að heyra hæstv. forsrh. vera að tala um innantóm orð hjá öðrum. — þessi galtómasta tunna, sem hann er sjálfur af öllu því, sem telja má innihaldslaust og einskis virði. Þetta er nú kunnugt um allt land fyrir útvarpsumr. hans á Alþingi, og hitt er einnig á allra vitorði, að hann er á engan hátt fær um að gegna því starfi, sem hann nú hefir, né nokkru öðru, sem ábyrgð fylgir.

Hæstv. ráðh. vildi hnekkja því, sem ég hélt fram um lækkun vaxta af landbúnaðarlánum og aðdraganda þess máls á síðasta þingi. Hann sagði, að rétt eftir stjórnarskiptin hefði verið skipuð 3 manna n. til að undirbúa málið, og að einn maður úr n. hefði talað við mig um það, svo að mér hefði verið það kunnugt. Hvaða maður var það? Ég veit ekki til, að neinn maður hafi minnzt á þetta við mig. Og hvað starfaði n. lengi að þessu máli? Mér skildist á síðustu ræðu hæstv. ráðh., að hún hefði tekið til starfa daginn eftir stjórnarskiptin í fyrrasumar. En hver voru svo afköst n.? Hæstv. ráðh. var dálítið drjúgur af þeim og frammistöðu n. yfirleitt. — Í byrjun síðasta þings fluttum við hv. 2. landsk. frv. um lækkun vaxta af fasteignaveðslánum bænda, eins og ég hefi áður getið um. En þegar liðinn var mánuður af þinginu, kom frumvarpsóskapnaður um sama efni frá n., eftir að landbn. Nd. var búin að sitja á okkar frv. í fleiri vikur. Þessa frv. ómynd n. var ekki hægt að nota sem grundvöll í málinu því að þegar það kom til Ed. og flokksmenn stj., þar á meðal hæstv. forseti Sþ., ætluðu að taka það til meðferðar, þá varð forseti Sþ. að lýsa því yfir f. h. landbn. Ed., að það væri ekki hægt að nota frv. og yrði því að fresta málinu. — Ég held því, að hæstv. forsrh. hafi varla getað gert n. meiri bjarnargreiða heldur en að minnast á þetta frv. hennar. — Og hvaða alvara hefir svo fylgt málinu á þessu þingi frá stj. hálfu? Þegar frv. okkar hv. 2. landsk. kom fram, þá lýsti hæstv. ráðh. því yfir, að stj. væri búin að send. sitt frv. í prentun. Svo leið vika eða meira, og lítur því út fyrir, að það hafi verið erfitt og vandasamt að prenta þessar 2 blaðsíður, ef rétt hefði verið frá skýrt af hæstv. ráðh. En auðvitað sagði hann ekki satt; það voru ósannindi hjá hæstv. ráðh., að búið væri að senda frv. í prentun.

Hæstv. ráðh. sagði, að frv. okkar hv. 2. landsk. um stofnun nýbýla væri eftiröpun af þeim till., sem Framsfl. hefir haft á prjónunum undanfarin missiri og hélt því fram, að árleg fjárframlög úr ríkissjóði til nýbýla ættu að vera geysimikil, en samkv. frv. frá stj. um sama efni eigi fjárframlög til nýbýla að ákveðast árlega í fjárl. og vera nokkru minni en eftir okkar frv. Hefir hæstv. ráðh. ekki lesið sitt eigið blað, þar sem sagt er, að samkv. frv. stjfl. um nýbýli og samvinnubyggðir eigi að leggja fram 600 þús. kr. til þeirra framkvæmda árlega? Eða er þetta lygi hjá blaðinu? Það er hæstv. ráðh., sem fer hér með lygi. (Forseti hringir): Þingm. viðhefir óþingleg orð og hefir oft verið á takmörkunum að nota ósæmilegt orðbragð). Má ég ekki tala þessi orð, fyrst þau eru sönn? — Jæja, ég skal þá bara segja, að hæstv. ráðh. sé ósannindamaður, og það má hann vera mín vegna.

Hæstv. ráðh. sagði, að störf mín hér á Alþingi og annarsstaðar hefðu verið gæfusnauð og léleg. ( Forsrh.: Hvenær ætlar þm. að skila sjóði Reykjaskóla?). Ráðh. ætlar máske að lepja hér upp einhverjar slúðursögur eftir þm. S.-Þ. um Reykjaskóla? En ég skora á ráðh. að taka til athugunar og rannsóknar aðalstörf mín við kaupfél. Vestur-Húnvetninga og þar áður við Sláturfél. Austur-Húnv. — Ég skora á hann að gera þetta og sanna svo framburð sinn, ef hann getur. — Allt, sem hæstv. ráðh. hefir sagt um þau málsatriði, sem borið hafa á góma í þessum umr., ber vott um, að hann er á hröðum flótta frá sínum verkum og skyldum sem landbrh. Hann finnur, að það er ósanngjarnt að taka peningana frá byggingar- og landnámssjóði, án þess að snerta við þeim hluta, sem rennur til verkamannabústaðanna.

Þetta er mín síðasta aths. við þessa umr., og ráðh. getur nú sagt það, sem honum sýnist. — En það væri hyggilegast fyrir hann að koma með eitthvað af því, sem hæstv. fjmrh. var að hvísla að honum — annað getur hann ekki sagt af viti.