02.04.1935
Sameinað þing: 8. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (4719)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég get eftir atvikum verið ánægður með ummæli hæstv. fjmrh. um brtt. mína á þskj. 344. Hann hafði ekki athugað, að frv. er brot á tóbakseinkasölulögunum. (Fjmrh.: Veit ekki þm., að framkvæmd þeirra l. er frestað með sérstökum l.?). Eftir till. er ekki ætlazt til, að þau séu framkvæmd á þann hátt. Og það er einmitt um það, sem deilan stendur. Ég hélt því fram með rökum, að hér væri verið að brjóta skýlaus ákvæði tóbakseinkasölul. og þetta tiltæki ríkisstj. gefur varhugavert fordæmi, þar sem hún ætlast til, að annar liðurinn sé felldur alveg niður, en hinn standi óbreyttur. Ég hafði ekki athugað að draga af atvinnubótafénu, sem fer til kaupstaðanna, til samræmis við það, sem dregið er af því fé, sem fer til akfærra þjóðvega. Það eina, sem hæstv. ráðh. taldi því til fyrirstöðu, að hann gæti samþ. mína till., voru þeir samningar, sem hann og hans flokkur hefði gert við sósíalista. En það fer þá kannske að verða skiljanlegt, þó dráttur verði á að koma fram skynsamlegum fjárl., ef stj. hefir skuldbundið sig svo, að ekki megi hreyfa við neinn á fjárl., sem Alþfl. vill þar vera láta.

Ef stj. er svona bundin „sósunum“, er ekki nema eðlilegt, þó erfitt reynist að koma fjármálunum í sæmilegt horf. En ég sé ekki, hvernig stj. ætlar að sitja og drasla með slík loforð á bakinu.

Hv. 9. landsk. ( Bolvíkingur kallaður) hélt því fram, að það væru óskyldir aðilar, sem hefðu fengið síldaruppbótina, og þeir, sem fá atvinnubótastyrkinn, svo það væri ekki sambærilegt að taka síldaruppbótina af atvinnubótafénu við það, þó þeir, sem kjötuppbótina fá, missi framlagið til veganna. En ég get ekki séð, að þar sé stór munur á milli.

Ég vil líka benda á í þessu sambandi, eins og ég hefi áður gert, að í aths. um atvinnubótastyrkinn stendur, að 100 þús. kr. af honum skuli ganga til vinnu við stofnun nýbýla. Nú hefir mér heyrzt á ríkisstj., að lítið muni verða gert í þeim efnum á þessu ári. Mér finnst því ekki ósanngjarnt, þó 20 þús. af þessum 100 þús. kr. verði varið í því skyni, sem brtt. mín fer fram á. fremur en þær renni allar skilyrðislaust til kaupstaðanna.

Ég get sem sagt verið ánægður með ummæli hæst. fjmrh. Hann hefir ekki með rökum getað fundið neitt að till. minni, en aðeins vitnað til þeirra samninga, sem gerðir hafi verið við sósíalistana um stj.myndun.