02.04.1935
Sameinað þing: 8. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (4720)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Jakob Möller [óyfir.]:

Ég ætlaði nú ekki sérstaklega að tala um aðalmálið, sem hér liggur fyrir, verðuppbótina á útflutt kjöt. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til þess að vekja athygli á öðru máli, sem hér hefir borið á góma áður. Mér virðist Alþingi vera komið út á hála og varhugaverða braut, ef það ætlar að fara að úthluta úr ríkissjóði verðuppbót á framleiðsluvörur atvinnuveganna. Og ég sé ekki, hvernig það verður réttlætt, að leggja þunga skatta á framleiðslu annars aðalatvinnuvegarins, sem einnig framleiðir með tapi, en létta tilsvarandi á hinum, og ætla svo auk þess að greiða honum verðuppbót úr ríkissjóði. Þetta er svo augljóst misrétti, að ég sé ekki, hvernig hægt er að gera það nema að verða fyrir þungu ámæli. En þar sem það er vitanlega fyrirfram ráðið að samþ. þetta, er tilgangslaust að eyða orðum um það. Verðuppbótin verður greidd, ef ríkisstj. hefir peninga til þess.

Í sambandi við það hafa komið fram ýmsar till. um að spara á öðrum liðum, til þess að vinna upp á móti þeirri greiðslu á fjárl. Og það er sérstaklega ein leið, sem hér hefir verið bent á í því skyni, sem ég vil láta sjást, að ég vil ekki ganga inn á, — að fella niður prentun þingtíðindanna. Þessi till. hefir komið fram áður á þingi í sparnaðarskyni, þó hún hafi verið undir öðru formi. Og út af því, að vikið hefir verið að því í umr., skal ég taka það fram, að ég tel það mjög vafasama aðferð að heimila stj. með þáltill. að fella niður prentun þingtíðindanna. Það mun hafa fallið úrskurður um fullkomlega sambærilegt efni á þingi 1924. Til þess að fresta framkvæmd l. hafa alltaf verið gefin út sérstök l., sem þó gilda aðeins frá ári til árs. Á þetta þó sérstaklega við um l., sem hafa útgjöld í för með sér, eða tekjum, sem þau gefa, er varið til unnara hluta en til var ætlazt upphaflega. Það hefir verið litið svo á, að allar slíkar breyt. yrði að gera með l., en ekki þál.

við það, sem sagt hefir verið um prentun á umræðuparti þingtíð., hefi ég ekki sérstaklega að bæta. Ég er samþ. þeim hv. þm., sem telja það principmál, að þingið sé háð í heyranda hljóði, svo alm. og alþjóð sé gefinn kostur á að kynnast afstöðu fulltrúa sinna til málanna. Þetta má ekki fella niður. Það er líka enginn vafi á því, að það er rétt, sem haldið hefir verið fram, að sparnaðurinn verður ekki eins mikill eins og till.menn geru ráð fyrir, sem mun vera 40—50 þús. kr., nema gerðar verði miklu róttækari ráðstafanir en þeir hafa ætlazt til, t. d. að hætta alveg að halda umr. saman. Ef gert er ráð fyrir, að í staðinn fyrir prentun verði vélritað lítið upplag, skilst mér, að það sé aðallega setningin, því hitt er aukaatriði, hvort upplagið er meira eða minna. Ég tel því víst, að meira sé úr því gert en rétt er, hve mikill sparnaður verði að því að fella niður prentun þingtíðindanna. Þar sem ég hefi áður — á þingi 1923 — haft sérstakt tækifæri til þess að gera grein fyrir minni afstöðu til þessa máls, og býst því við, að flestum hv. þm. sé hún kunn, sé ég ekki ástæðu til þess að fara lengra út í einstök atriði, þó ég vildi ekki leiða hjá mér að taka þetta fram nú. Enda eru umr. þýðingarlausar, ef það fer eins og hv. þm. Borgf. hjóst við, að ekki fáist atkvgr. um till. Ég get að mestu verið samþ. hv. 1. þm. Reykv. um, að ef prentað væri færra, en vandað meira til þess, t. d. nál. og grg., sem mundi verða gert, ef ræðuparturinn yrði felldur niður, þá leiddi aftur af því, að sparnaðurinn yrði því óverulegri, vegna þess að skjalaparturinn mundi lengjast til muna. Sparnaðurinn mundi því hverfa, eða a. m. k. verða miklu minni en gert er ráð fyrir af flm. brtt.

Hinsvegar get ég ekki fallizt á, að það sé fullnægjandi að lengja skjalapartinn og láta nál. og grg. koma í stað umr. Það lesa menn sér ekki eins að gagni, enda oft vísað til þess, að málið verði betur skýrt í framsögu, en því mundi verða hætt og þær skýringar teknar upp í nál. Undir umr. koma einnig oft fram ný sjónarmið og ný rök frá öðrum en þeim, sem að nál. standa, sem þá féllu alveg niður og sæjust hvergi, ef hætt væri að prenta umr.partinn.

Hinsvegar mætti vel taka til athugunar, hvort ekki mætti breyta fyrirkomulaginu frá því, sem nú er, í það horf, að prentunin yrði ódýrari. Eins og vitanlegt er, er nú sá siður að færa ræður í letur orði til orðs, eftir því sem skrifarar bezt geta tekið þær. En mér finnst, að vel geti komið til mála að taka útdrátt úr þeim, en sleppa málalengingum, sem oft eru miklar. Umræðuparturinn yrði að ýmsu leyti aðgengilegri þannig en þegar ræður eru teknar orði til orðs, eins og nú er. Þetta kemur væntanlega ekki til meðferðar eða úrslita nú, en mér finnst fremur ástæða til þess að athuga málið frá þessari hlið en að fella alveg niður að prenta umr.part þingtíðindanna.