04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (4749)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Góðir tilheyrendur! Ég hlýddi með tilbærilegri athygli á ræðu hv. þm. G.-K. Ég var alltaf að bíða eftir því, að hann kæmi að því atriðinu, sem mér, fannst mestu máli skipta, sem sé í hvaða athöfnum og framkvæmdum hann væri ósamþykkur núv. stj. Hann taldi upp mikla og stóra örðugleika, sem við þyrftum sumpart þegar að glíma við, en sumpart blöstu við, en hann gleymdi alveg að geta þess, á hvern hátt hann mundi mæta — þessum örðugleikum, ef hann hefði verið ráðh., nema ef nefna skyldi það, að hann kvaðst ekki mundu hafa sent þingið heim, hefði hann fengið að ráða, heldur látið það halda áfram störfum til hagsbóta fyrir land og lýð. Þetta er fallega mælt, en það skaðar ekki að fá að vita hvaða störf það voru, sem hann ætlaði að vinna, meðan allt er í óvissu, eins og hann benti sjálfur á í ræðu sinni. Við Alþfl.menn höfum sérstöðu til þessarar till. um þingfrestun, vegna þess að á síðasta þingi bárum við fram brtt. við till. hæstv. forsrh. um að fresta þingi til 15. marz, um það, að þinginu yrði frestað til 10. sept. næsta haust, en létum þess jafnframt getið, að við myndum ganga inn á, að þingið byrjaði 15. marz, ef það stæði ekki nema 6 vikur og því yrði síðan frestað til haustsins. Það er óþarft að segja frá ástæðum þessarar till. okkar. Þær voru í fyrsta lagi, að það var sýnt, að sá tími, sem ætlaður var til undirbúnings þingmála — sem var að nafninu til 11/2 mán. — var ónógur; í öðru lagi gat engin reynsla verið komin þá á framkvæmd þeirrar nýju löggjafar, sem sett var á síðasta þingi, og í þriðja lagi var okkur þá ljóst, að þing, sem saman kæmi 15. febr., hlyti algerlega að renna blint í sjó um afkomu landsmanna og þjóðarbúsins á árinu 1935, og þess vegna væri því um megn að semja fjárlög fyrir árið 1936, sem gætu verið byggð á nokkru viti. Það náðist ekki samkomulag um þessa till. okkar hér á þingi, svo sem kunnugt er, en það, sem við þá héldum fram, er nú að sannast, því að það er nú komið í ljós, að það er óhjákvæmilegt að fresta a. m. k. afgreiðslu fjárl. til næsta hausts, af ástæðum, sem ég hefi drepið á. Auk þess vitum við ekkert nema þeir atburðir, sem eru að gerast úti í löndum á yfirstandandi ári, geri það að verkum, að það sýni sig fyrir lok ársins, að það verði fullkomlega knýjandi þörf sérstakra neyðarráðstafana vegna þess ástands, sem kann að skapast, og á ég þar við það, ef spádómur hv. þm. G.-K0. reynist réttur vera, — ef svo skyldi fara, að útflutningur okkar lækkaði niður fyrir 30 millj. kr. á ári. Þá stoðar lítt það eitt að tala um, að það þurfi að skera niður á fjárl., því að sá munur, sem þá yrði á útflutningi okkar á þessu ári og á síðastl. ári, hann einn yrði svo mikill, að sú upphæð mundi nema nokkrum millj. meira en öll samanlögð áætluð upphæð fjárl., og þá sér hver heilvita maður, að það er ekkert vit í því að vera að hampa því framan í fólk, að með niðurskurði á fjárl. sé hægt að bjarga þjóðinni frá þeim voða, sem hlýzt af því, ef útflutningur okkar minnkaði á einu ári um 16—18 millj. kr., sízt ef halla fjárl. á að laga með því að framkvæma skuldaskil útgerðarinnar, ekki með 11/2 millj. kr. — sem eftir hans dómi er allt of lág upphæð —, heldur með 5 millj. kr. í staðinn. Sömu menn, sem telja óhjákvæmilegt að skera niður 3—6 millj. kr. af fjárl., vilja ekki samþ. annað en að sú upphæð, sem greiða á til skuldaskilanna, sé hækkuð úr 200—250 þús. kr. upp í a. m. k. 750—800 þús. kr. Eins og ég hefi áður sagt. hefir það sýnt sig, að till. okkar Alþfl.manna um að fresta þinginu til næsta hausts hefir, því miður, liggur mér við að segja, við fyllstu rök að styðjast. Auk þess drap ég líka á aðra ástæðu fyrir því, að óheppilegt væri að hafa svo stutt á milli þinga, sem sé, að enginn árangur hefði enn fengizt af þeirri nýju löggjöf, sem síðasta þing setti. Það er vitaskuld eðlilegt á svo skömmum tíma, sem hér um ræðir, og á þeim tíma árs, sem ekkert gerist í þessu efni. Mér þykir rétt í sambandi við þau ummæli hv. þm. G.-K., að það væru einmitt bættar og breyttar verkunaraðferðir á sjávarafurðum, sem líklegar væru til þess að skap, aukna sölumöguleika fyrir afurðirnar, og einnig í sambandi við þau önnur ummæli, hv. þm. um val á mönnum í fiskimálanefnd, að gera grein fyrir nýbreytni í þessu efni, sem þegar er hafin.

Sú leið, sem margir hyggja fljótfarnasta til þess að auka sölu á sjávarafurðum okkar, er að fara að dæmi Norðmanna og verka vissan hluta af aflanum sem harðfisk. Þetta hefir alls ekki verið gert hér undanfarið, nema að litlu leyti til neyzlu innanlands. Nú verður byrjað á þessu. Fyrir nokkrum dögum síðan kom Súðin frá Noregi hlaðin efni í trönur og hjalla til herzlu á fiski. Ég geri ráð fyrir, að á næstu dögum verði reistar trönur fyrir 1200—1500 smálestir af fiski til herðingar. Það er ástæða til þess að ætla, að þegar á þessu vori megi herða töluvert af fiski og reyna fyrir sér á þessu ári um sölumöguleika þessarar vörutegundar. Ennfremur hefir fiskimálanefnd gengizt fyrir því, að gerðar hafa verið tilraunir með sérstaka aðferð við verkun á harðfiski, sem mér er ekki kunnugt um, að notuð sé nokkursstaðar annarsstaðar, en hægt er að framkvæma hér; það er að herða fiskinn í húsum inni með dragsúg, sem leikur í gegnum húsið. Það er talið, að þannig verkaður fiskur liti betur út, og það, sem mest er um vert í þessu efni, er það, að þessi verkunaraðferð er alls ekki bundin við neina sérstaka árstíð. Það er að vísu ekki rétt að vera með fullyrðingar í þessu efni, en samt tel ég rétt að benda á, að einmitt nú á þessum erfiðu tímum er fyrir forgöngu fiskimálanefndar byrjað á nýjum framkvæmdum í þessu efni, sem þeir, er stjórnað hafa þessum málum undanfarið. hafa látið undir höfuð leggjast að sýna minnstu viðleitni til þess að hrinda í framkvæmd. Ég skal einnig geta þess, að það hafa líka fyrir forgöngu fiskimálanefndar verið gerðar tilraunir með hraðfrystan fisk fyrir Póllandsmarkað, og ef það gefst sæmilega, mun verða haldið áfram á þeirri braut. Einnig hefir nefndin gert ráðstafanir til þess, að gerðar yrðu tilraunir til þess að hraðfrysta fisk með aðferð Ingólfs Esphólins, en hún er fólgin í því, að fiskurinn er pakkaður inn í smápakka, sem svo er dreift út. Það er vitanlega ekki hægt að búast við því, að svo mikið seljist af þesskonar fiski á yfirstandandi ári, að það geti bætt upp hinn takmarkaða saltfisksmarkað á þessu ári, en slíkar tilraunir verður að gera til þess að bæta upp hinn ónóga saltfisksmarkað. En þessar tilraunir hafa ekki verið gerðar hingað til. Það hefir ekki einu sinni verið litið við þeim möguleikum, sem framundan hafa verið á því sviði. Það vil ég fullyrða, að ef fyrr hefði verið horfið að þeirri nýbreytni, sem hér um ræðir, þá væru ekki svipað því eins geigvænlegar horfur fram undan og nú eru. Hefði verið farið skynsamlega að í þessum efnum, þá væri ekki víst, að menn segðu nú, að útlit væri fyrir, að útflutningur landsmanna gæti minnkað um helming.

Í sambandi við þau ummæli hv. þm. G.K., að allar horfur væru á því, að á næst. ári myndu verðu svo miklar fiskbirgðir til í landinu, að þær fullnægðu markaðinum allt árið 1936, vil ég taka það fram, að ég hygg, að þetta sé orðum aukið hjá hv. þm., sem betur fer. Fiskbirgðirnar um síðustu áramót voru tæpar 18 þús. smálestir. Nú hefir aflinn hér á landi orðið frekar lítill í ár, miklu minni heldur en síðastl. ár og tvö undanfarin ár — afli Norðmanna hefir til þessa verið miklum mun minni í ár en undanfarin ár. Nú ætla ég, að óhætt sé að segja, að miklu meira hafi selzt af fyrra árs birgðum til þessa tíma en menn gerðu sér vonir um.

Að sjálfsögðu hefir það kostað það, að verðið hefir orðið lægra heldur en menn hefðu kosið. Af sérstaklega óvenjulegum sölum má geta þess, að til Portúgal hafa verið seld í tveimur sölum 5400 tonn, og líklegt er talið, að samningar náist um 3000 tonn í viðbót, þannig að í þremur sölum seljist um 8400 tonn. eða fast að helmingi af fiskbirgðunum, sem fyrir voru. Og þessar sölur valda langmestu um það, hversu gengið hefir á fiskbirgðirnar fram yfir það, sem útlit var fyrir allt fram undir þetta. Ef þessi sala næst, sem ég hygg að verði á næstunni, hygg ég, að ekki sé eftir nema innan við 4000 tonn óseld af fyrra árs birgðum, og það er léttara á miklu heldur en útlit var fyrir um skeið. Sala á saltfiski hefir verið með meira móti, því að menn hafa ekki þorað að liggja með fiskinn, þó sárt sé að missa atvinnuna við að verka hann, heldur selt eins og fært var. Mest hefir verið selt til Englands og Frakklands það sem af er árinu. Ég hygg því, að það sé óþörf bölsýni að gera ráð fyrir, að fiskbirgðirnar í haust eða um næstu áramót verði upp undir 40000 tonn. Ég skal játa, að þó ástandið sé ekki svo illt, þá dettur mér ekki í hug að neita því, að mjög alvarlegt ástand sé framundan í þessu efni. En það er engin ástæða til að gera útlitið óefnilegra heldur en rök standa til.

Hv. þm. sagði, að með löggjöf síðasta þings um fiskimálanefnd hefði fisksölusamlaginn verið slátrað, og það svo rækilega, að ég sem ráðh. hefði orðið að halda í því líftórunni með bráðabirgðalögum fram eftir vorinu. Ég hefi margsinnis rætt um þetta við hann áður. bæði í útvarpsumr. og endranær, og hirði ekki að vera að endurtaka það. Ég vil einungis taka það fram, sem ég hefi þó áður gert, að sýni það sig, að sölusambandið leysist upp að fullu að fengnum þessum lögum, þá er það alveg víst, að því hefði verið fullkomlega ólíft, hefði þessi löggjöf ekki verið sett. Ég veit, að hv. þm. er jafnkunnugt um það og mér, þó hann vilji láta líta öðruvísi út. Hann veit einnig, að ég hefi boðið þeim, sem að fisksölusambandinu standa, og útgerðarmönnum yfirleitt, að létta undir með þeim n hvern hátt, sem mér væri unnt, að koma upp sambandi til þess að taka fisksöluna að mestu leyti í sínar hendur. En hingað til hefir staðið á því, að samtök fengjust. Ég er ekki enn vonlaus um, að þetta kunni að lánast, en það hefir vissulega ekki staðið á góðum hug frá mér sem ráðh. í þessu efni. Það, sem á brestur, er skilningur útgerðarmanna og fiskeigenda sjálfra á nauðsyn samtakanna.

Það hefir einnig verið reynt að koma á allsherjarfélagsskap þeirra, sem framleiða og selja léttverkaða saltsíld, matjessíld svokallaða. Á síðastl. vetri voru gerðar ítrekaðar tilraunir í því efni. Þær tilraunir hafa mistekizt með öllu. Þær hafa mistekizt svo, að ég held, að mér sé óhætt að segja, að flestir þeir, sem að þessum málum standa, hafi sumpart óskað eftir og sumpart samþ. óbeinlínis, að með ákvörðun stj. væri síldarútvegsnefnd gefinn réttur til þess að starfa sem einkaútflytjandi matjessíldar, vegna þess að þeim tókst ekki að koma sér saman. Eins og ég sagði áðan, er ég ekki vonlaus um, að samkomulag náist milli fiskeigenda. vænti ég innan skamms að fá um það fulla vitneskju, og mun ég stuðla að því eftir því sem í mínu valdi stendur.

Einu atriði vildi ég mega skjóta fram í sambandi við þessar umr. Eins og áður er sagt, var ein af höfuðástæðunum til þingfrestunar af hálfu Alþfl. sú, að ekki var unnt að ljúka undirbúningi sumra hinna stærstu mála, sem leggja varð fyrir þetta þing. áður en þing kom saman. Eitt af þessum málum var frv. um alþýðutryggingar, framfærslu sjúkra og almenna opinbera framfærslu. Mér þykir rétt að skýra frá þessu nú. úr því tilefni gafst. af því ætlun mín var sú, að hægt yrði fyrir þingfrestun að leggja fram frv. um þetta efni. því miður hefir þetta ekki tekizt, að ganga frá þessu til fulls, en n., sem að þessu starfar, hefir skilað áliti til mín, og ég mun láta prenta það í skýrsluformi og senda út til þm. svo fljótt sem hægt er, svo þeim gefist kostur á að kynna sér málið áður en þingið kemur saman að nýju, en þá munu frv. verða lögð fram þegar í stað.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að snúa mér að einstökum atriðum í ræðu hv. þm. G.-K., en ýmislegt af því, sem hann sagði, lét einkennilega í eyrum. Eitt af því, sem hann sagði, að mér skildist stj. til ámælis, var það, að hún bersýnilega ætlaði að reyna að efna sín kosningaloforð. Ég veit nú satt að segja ekki, hvernig ein stjórn á að hegða sér, ef það er ámælisvert, að hún reyni að efna þau loforð, sem þingmennirnir gefa kjósendunum þegar þeir bjóða sig fram. Ég hefi alltaf haldið, að það væri lofsvert að halda loforð, en ámælisvert að bregðast þeim. Sé þetta ekki einnig skoðun hv. þm. og hans flokks, þá er eðlilegt, að núv. stjórn sé lítils metin í þeim herbúðum. Og ég er ekki frá því að ætla, að þetta sé tilfellið, því sé farið að athuga eitt og annað af kosningaloforðum sjálfstæðismanna og bera þau saman við efndirnar, sem orðið hafa þegar þeir hafa átt menn í ríkisstjórn, þá lítur óneitanlega út fyrir, að þeir telji ámælisvert að efna sín gömlu kosningaloforð. En um þetta eins og svo margt annað erum við Alþfl.menn sennilega á þveröfugri skoðun við sjálfstæðismenn.

Annað atriði var það, sem hv. þm. benti á, sem hæstv. fjmrh. vafalaust tekur til andsvara, og það var, að stj. hefði leyft sér á seinasta þingi þá ósvinnu að leggja fram þau hæstu fjárlög, sem nokkru sinni hefðu verið borin fram á Alþingi. Hv. þm. sést yfir þann sannleika, að þrátt fyrir það, hvernig fjárl. hafa verið afgr. á undanfarandi þingum, hafa landsreikningarnir farið mörgum millj. fram úr því, sem áætlað hefir verið í fjárl. Hv. þm. veit, að meginhækkunin á gildandi fjárl., öll önnur hækkun en hækkunin til verklegra framkvæmda, stafar af því, að inn í fjárlög eru teknar upphæðir nú, sem eru lögboðnar, en hafa samt verið hafðar utan fjárl. að undanförnu, aðeins til þess að blekkja þá, sem hulda, að fjárlögin séu rétt mynd af skyldugjöldum ríkissjóðs.

Hvað snertir skuldaskilasjóð, þá er það rétt, að upphæðin, sem ætluð er til þess að kaupa vélbátaeigendum skuldaskil. virðist ekki stórvaxin, miðað við það fé, sem lagt var til kreppulána bændanna. En mér þykir gott að fá tækifæri til að taka það fram, að það hlýtur öllum að vera ljóst, að hversu gott og þýðingarmikið og jafnvel nauðsynlegt sem það kann að vera fyrir einstaka útgerðarmenn að fá hjálp til að kaupa sér skuldaskil til þess að tryggja það, að lánardrottnarnir gangi ekki að þeim og svipti þá sínum starfstækjum. Þá getur þetta ekki verið nema einn þáttur í þeirri hjálp, sem þeir þurfa að fá, og það jafnvel ekki sá veigamesti. Ef spár hv. þm. G.-K. um það, að fiskútflutningurinn hljóti að fara niður í helming af því, sem hann hefir verið undanfarin ár, rætast, þá er þýðingarlaust að vera að gera skuldaskil fyrir útveginn, því þá er ekki nema um tvennt að ræða: Annaðhvort að reku áfram allan útveginn að fengnum skuldaskilum, með þeim bersýnilega árangri, að eftir eitt eða tvö ár yrði hann kominn í sama skuldafenið aftur, — eða þá að svo og svo mikill hluti af flotanum verður að liggja við festar án þess að geta farið á veiðar. Það, sem ég vil benda mönnum á með þessu, er það, að skuldaskil ein geta aldrei orðið þess megnug að bjarga sjávarútveginum. Þau geta tryggt nokkra menn, sem ella ættu á hættu að verða sviptir starfstækjum sínum, þ. e. a. s. á meðan sölumöguleikar haldast fyrir okkar afurðir. Því má ekki ríkissjóður binda svo sína takmörkuðu getu í skuldaskilum, að hann af þeim sökum verði ómegnugur eða minna megnugur að styðja öflun nýrra markaða, nýjar verkunaraðferðir og annað slíkt. Ég vil spyrja hv. þm. og aðra hlutaðeigendur: teldu þeir skynsamlegt að hallast að till. hv. þm. N.-Ísf. um að verja 21/2 millj. kr. til skuldaskila, ef af þeim sökum yrði svo að hætta við að verja þeirri millj. kr. til nýbreytni í verkun og söluaðferðum, sem síðasta þing heimilaði? Ég held, að engum blandist hugur um, að það væri ekki heppileg aðferð. Ég hefi ríkar ástæður til þess að ætla, að með upphæð þeirri, sem gert er ráð fyrir í l. um skuldaskilasjóð, verði hægt, með góðri samvinnu við bankana og lánsstofnanirnar, að kaupa þeim vélbátaeigendum skuldaskil, sem skulda yfir 75% móti eignum, svo að þeir verði ekki sviptir starfstækjum sínum. Auðvitað er þessi upphæð algerlega ónóg til þess, að maður geti lítið sér detta í hug að kaupa línuveiðurum og togurum tilsvarandi skuldaskil. En sú útgerð er, hvað sem efnahagslegri afkomu hennar líður, ekki í eins yfirvofandi hættu að því er stöðvum snertir eins og vélbátaútgerðin, vegna þess að lausaskuldir þessarar útgerðar eru minni heldur en vélbátaútvegsins. vélbátaútvegurinn skuldar um 41/2 millj. kr. í verzlunarskuldum einum saman, og lausaskuldir hans nema alls yfir 6 millj. kr., meðan verzlunarskuldir togaraflotans eru ekki nema 1 millj. og 300 þús. kr., ef ég man rétt. En af lausaskuldunum stafar útgerðinni aðallega sú hætta, að til stöðvunar komi. því að þeim er hægt að ganga hvenær sem er. Þessari hættu hygg ég að sé hægt að létta af vélbátaútgerðinni með þeirri upphæð, sem l. um skuldaskilasjóð gera ráð fyrir.

Vænti ég svo að fá tækifæri til þess að bæta við nokkrum orðum síðar í kvöld.