04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (4750)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Herra forseti! Bændafl. hefir ekki óskað eftir útvarpsumr. nú. Hann vildi ekki gera neitt til þess, úr því að þingfrestun mun nú ákveðin, að þingið tefjist, því að þingið hefir tafizt nógu lengi samt, úr því að það á ekki að ljúka störfum. Hinsvegar hefði Bændafl. óskað eftir almennum stjórnmálaumr. í útvarpið síðar, þar sem bændur utan þings hér úr nærsveitum hefðu átt kost á að taka til máls. En einn flokkurinn hefir nú krafizt útvarpsumr. þessara, og þá skulu útvarpsumr. fara fram samkv. þeim reglum, sem Alþingi hefir sett sér.

Þetta þing hefir nú staðið í 50 daga. Fyrir því lágu mörg störf, en þó voru tvö verkefni sérstaklega aðkallandi á þessum fyrri hluta þings. Annað var það, að draga úr þeim útgjöldum á núgildandi fjárl., sem ekki voru atvinnuvegunum nauðsynleg til styrktar, eða beinlínis lögbundin. Í þessu efni hefir lítið verið að gert, og helzt ráðizt á garðinn þar, sem sízt skyldi, eða þar, sem atvinnuvegirnir áttu í hlut. Hinsvegar hefir ekkert verið samþ. í þá átt að draga úr styrkjum og bitlingum til einstakra manna, t. d. með því að veita stj. heimild til að lækka alla þá liði um tiltekna prósentu. Hefði það þó munað nokkru samtals. En sjálfsagt var að taka til rækilegrar athugunar, hvaða útgjaldaliðum fleirum mætti draga úr, án þess að afkoma atvinnuveganna yrði gerð erfiðari. Þessi athugun hefir ekki verið gerð af neinni alvöru.

Hitt aðalmálið, sem þingið hefði þurft að sinna, var að íhuga vandlega, hvað hægt væri að gera meira en gert hefir verið atvinnuvegunum til styrktar. Því afkomuhorfur atvinnuveganna eru nú hinar ískyggilegustu. Þunglega horfði á síðasta þingi, en nú horfir þó jafnvel enn þunglegar fyrir flestum greinum atvinnuveganna heldur en þá var vitað. Útlitið um síldarafurðasölu er að vísu ekki mjög slæmt. En þó er síldveiði og síldarafurðasalan jafnan óviss og langt frá því að vera að jafnaði örugg atvinnugrein. Um fiskinn þarf ekki að ræða. Það er öllum landslýð kunnugt, hvað mikil hætta vofir yfir fiskmarkaðinum, sérstaklega vegna innflutningstakmarkana Ítala. Er óvíst, hvort tekst að yfirvinna þá örðugleika, sem yfir vofa; a. m. k. hefir útlitið aldrei verið verra heldur en nú. Um afurðir landbúnaðarins er kunnugt, hvað verð á þeim er nú lágt erlendis. Telja má vist, að verð á útfluttu kjöti verði nú stórum lægra en í fyrra, og það þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið frá innanlandssölunni og framlag það úr ríkissjóði, sem hæstv. ríkisstj. hefir nú fallizt á að greiða. Um innanlandssöluna horfir að vísu nokkuð vænlegar. En þó hafa vonir manna um árangur þeirra ráðstafana, sem gerðar voru á síðasta þingi, ekki rætzt enn sem komið er, svo að viðunandi sé. Jafnvel á þeim svæðum landsins, þar sem aðstaðan er bezt til innanlandsmarkaðar, horfir vissulega enn svo þunglega fyrir landbúnaðinum, að fjölda bænda liggur við að gefast upp í baráttunni. Afkoma þessar atvinnuvega er þó þeir hornsteinar, sem þjóðfél. hvílir á, og fyrsta skilyrðið til þess að hægt verði yfir höfuð að afla nokkurra tekna í ríkissjóð.

Þar sem nú ástand og horfur eru svo ískyggilegar á öllum sviðum, sem nú hefir verið drepið á, þá hefði mátt vænta þess, að stjórn og þing hefði tekið á þessum málum með hinni mestu alvöru. Hefði ekki verið fjarri, þar sem alþjóðarheill var í veði, að kjósa sérstaka kreppunefnd meðal þingmunna af öllum flokkum þegar í byrjun þingsins, til þess að athuga þessi mál og gera tillögur um þau, annaðhvort af sameinuðu Alþingi eða af báðum deildum, líkt og gert var 1933 í kreppumálum landbúnaðarins. Voru þá frekar líkindi til, ef mannaval hefði tekizt sæmilega, að sameina hefði máti hugi manna um tillögur til hagsbóta fyrir atvinnuvegina, sem að gagni hefðu komið. A. m. k. hefðu aðrar leiðir verið heppilegri heldur en að veifa stöðugt stjórnarvendinum framan í andstæðingana og hugsa ekki um neitt unnað en láta þá kenna á valdi sínu, þegar afkomuhorfur þjóðarinnar eru slíkar sem nú.

En stj. og flokkar hennar hafa valið hinn kostinn, að berja í borðið og þverskallast. Einu umbæturnar, sem fengizt hafa á þessu þingi landbúnaðinum til hagsbóta, eru þær, að stj. hefir tekið upp till Bændafl. frá síðasta þingi um verðuppbót á útflutt kjöt, og tekið nokkurt tillit til tillagna Bændafl. um vaxtatillag af fasteignaveðslánum. Er þó vaxtatillagið 1% lægra en í tillögum Bændafl. 1/2% lægra heldur en verið hefir undanfarin ár.

En verðuppbótina á kjötið eigu bændur að borg sjálfir. Fyrst með því að svipta Búnaðarbankann 50 þús. kr. framlagi til byggingu í sveitum. Þar næst með því að svipta ræktunarsjóð um 15 þús. kr. tillagi, sem hann hefir haft. Og loks átti að svipta sveitirnar 10% af framlagi til nýrra akvega. En vegna snurðu, sem kom á þráðinn milli Framsfl. og sósíalista meðan stóð á lokaafgreiðslu málsins, tókst þó eigi að svipta sveitirnar fullu framlagi til akveganna. Aftur á móti kom þeim ágætlega saman um að færir bændum landsins og öðrum framleiðendum aðra gjöf. Og það var að demba á framleiðendurna sjálfa öllum kostnaði af nefndum þeim, er fara með afurðasölumálin. Þetta var gert þrátt fyrir það, þó síðasta þing væri með fullu samþykki stj. búið fyrir örfáum mánuðum að samþ., að þessi kostnaður greiddist að mestu af þjóðfélaginu í heild. Þetta var gert þrátt fyrir það, þótt stj. og flokkar hennar þverneituðu enn sem áður, að framleiðendurnir eða fulltrúar þeirra fengju aðstöðu til meiri áhrifa í þessum nefndum. Og þetta var gert þrátt fyrir það, þó framleiðendunum væri meinað að koma við sparnaði við nefndirnar. t. d. með því að fækka þar mönnum. Sýndist það þó vel fært. T. d. eru nú tvær nefndir í mjólkursölunni, önnur með fimm mönnum og hin með sjö mönnum, eða tólf mönnum samtals. Þessa tólfspenakú eiga nú bændur sjálfir að fóðra framvegis, því hver þarf að sjúga sinn spenann ! Um þetta kom stjórnarflokkunum ágætlega saman. Þó lét formaður sósíalista þess getið í umr., að síðar gæti komið till. um það að lækka jarðræktarstyrkinn frá því, sem nú er, þannig að enginn bóndi fengi meira en 300 kr. Fer þá að verða erfitt fyrir bændur að lækka framleiðslukostnaðinn, ef hvorttveggja á að sigla í sama kjölfarið: kauphækkunin fyrst og lækkun jarðræktarstyrksins á eftir.

Að vísu varð nokkur hækkun á kjötverði bænda í næstu héruðum við Reykjavík síðastl. haust. En bændum mun þó vart hafa fundizt hún gera meira en að vega upp á móti kauphækkuninni. Og þó koma hér ekki öll kurl til grafar um kjötverðið, því að Sláturfél. Suðurl. fékk ekki samþykkta í kjötverðlagsnefndinni nægilega hækkun eftir sláturtíð upp í frystingarkostnað kjötsins, sem það gekk út frá sem sjálfsögðu, þegar það greiddi kjötið út til bænda. Fyrst átti að neita um alla hækkun fyrir þessum kostnaði. En loks fékkst hún þó fram að nokkru leyti. Sláturfél. Suðurl. eitt verður því fyrir allmiklum skaða á frystingu og vaxtatapi, og hefir félagið því greitt sem því nemur hærra verð fyrir kjötið heldur en það raunverulegu gat síðastl. haust. Hvar á félagið svo að fá hallann greiddan? Það getur ekki fengið hann á neinn hátt. nema með því að draga þetta frá kjötverðinu að ári. Í þessari kjötverðhækkun til bænda á Suðurlandi síðastl. haust er því falin fyrirframgreiðsla á nokkru af kjötinnlegginu næsta ár. Og er þetta einn vottur þess, hversu stj. leggur í þessum málum miklu minna upp úr því að vera heldur en að sýnast.

Um kjötverðið annarsstaðar á landinu er það að segja, að þrátt fyrir verðuppbótina úr ríkissjóði, sem bændur eiga að greiða sjálfir eins og áður er sagt, þá verður það að ríkissjóðstillaginu meðtöldu vart hærra heldur en kjötverðið 1933. kauphækkunin og væntanleg lækkun á jarðabótastyrknum verður þá eina hagsbótin, sem þeir bændur fá.

Hæstv. landbúnaðarráðh. var ekki lítið upp með sér í síðustu útvarpsumr. yfir því að bændur í nágrenni Reykjavíkur fengju nú 12/5 eyris meira fyrir mjólkina heldur en áður. En hann gleymdi að geta um lækkunina á rjómanum, virðist sölukostnaður á rjóma vera ríflega reiknaður, þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið, ef potturinn er seldur fyrir 1,19 kr., en útsöluverðið er þó 2,40 kr. hér í bænum. Er það hart, að útsölukostnaðurinn skuli ekki geta lækkað verulega.

En fullyrða má, að ýms þau mistök, sem orðið hafa í afurðasölunni, einkum hvað mjólkina snertir, hefðu ekki komið fyrir, ef bændur sjálfir hefðu mátt hafa meiri áhrif á framkvæmd sölulaganna. Því þrátt fyrir ýmsa missmíði, sem núv. stjórnarflokkar settu inn í lögin, þá miða þau í rétta átt og hefðu getað orðið bændum til mikilla hagsbóta, ef framkvæmd þeirra hefði verið hagað skynsamlega. Þessi mál og önnur hefði verið nægur tími til að taka til athugunar og lagfæra. ef hæstv. stj. hefði ekki barið höfðinu við stein. verður ekki hjá því komizt að minnast á þessi mál.

Í byrjun þessa þings lýsti varafomaður sósíalista yfir því, að hann vildi fresta því til hausts., Ýmsir framsóknarmenn voru þá á móti þessari till., því að þeim var það ljóst, að sambúðin við sósíalista var ekki annmarkalaus. Þeim mátti og vera það ljóst, að á haustþingi myndu sósíalistar verða mun voldugri en á þingi, er háð væri síðla vetrar. Gæti vel farið svo, að þeir heimtuðu þingið rofið, og yrðu þá kosningar að fara fram um nýir, sem er sósíalistum hentugur tími, en bændum óhentugur. Samt beygðu framsóknarmenn sig fyrir þessu. En hin yfirvofandi frestun dró starfsáhugann úr þinginu, var þá annað en ánægjulegt fyrir framsóknarmenn að sitja á þingi, enda fóru þá sósíalistar að færa sig upp á skaftið, ekki aðeins í þessu máli, heldur og ýmsum öðrum, svo sem í mjólkurmálinu og jafnvel í sambandi við ýmsar ráðstafanir í sjálfu stjórnarráðinu.

Mönnum eru í fersku minni árásargreinar Alþýðublaðsins á hæstv. dómsmrh. og Jónas Jónsson. Varð ekki einungis dómsmrh. að þegja við þeim, heldur líka Jónas. Hann fékk ekki að svara einu orði og var þannig settur undir einskonar ritskoðun. Og fyrir nokkrum dögum flutti sama blað svæsna árásargrein á hæstv. fjmrh. út af raftækjaeinkasölunni. Var þar lagt fyrir hann að skipta um tvo yfirmenn við raftækjaeinkasöluna, þar sem annar væri útlendingur, frá erlendu raftækjafirma, og mætti ekki taka há laun frá landsmönnum, en hinn væri stór raftækjasali, sem ætti miklar vörubirgðir og semja ætti við sjálfan sig um kaup á raftækjum til handa einkasölunni. Og þar sem sjálfur aðalmaður sósíalista er höfundur greinarinnar, má nærri geta, hvort þessu verður ekki fylgt eftir.

Og svo þegar sjálfstæðismenn komu um daginn fram með vantrauststill. á hæstv. fjmrh., þá mun hofa sorfið að Framsókn. — Ég álít reyndar, að sú till. hafi verið óviturleg, því að það var fyrirfram vitað, að Framsókn myndi fús til að ganga undir hvaða ok sem væri til þess að geta haldið völdum. Og ég vildi ekki framsóknarmönnum svo illt, að þeir væru neyddir til að beygja sig undir þetta, eftir allt annað. Það má fara nærri um það, hvort sósíalistar hafa gert það fyrir ekkert að styðja Framsókn í þessu máli. Ég tel, að till. um að vita hæstv. fjmrh. muni hafa þann árangur, að Framsókn verði að sýna enn meiri hlýðni hér eftir en hingað til.

Þingfrestun er nú ráðin. Hefir þá þing staðið í 50 daga og lítið verið gert. Ég hefi þegar bent á. tvö atriði, er leysa þarf, sem sé að draga úr ólögbundnum útgjöldum í fjárl. og gera allt, sem unnt er, til að styrkja atvinnuvegina. Og nú. þegar fresta á þingi, hefi ég bent á, hversu hættulegt það. getur orðið sveitunum, ef haustþing yrði rofið með vetrarkosningar fram undan. En um þetta er þýðingarlaust að deila við dómarann. Hér getur enginn sagt neitt, nema stjórnarflokkarnir, en Framsókn getur hinsvegar ekki gengið til kosninga um hávetur. Verður hún því að kaupa sig undan þeim, hvað sem það kann að kosta. Hvað dýrt það verður, getur enginn sagt, en það getur vel farið svo, að Framsókn og sveitirnar verði lengi að súpa af því súrar dreggjar.