04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (4753)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Magnús Jónsson:

Í sambandi við þingfrestunartill. stj. er ekki nema alveg eðlilegt, að rætt sé um ástand og hag þjóðarinnar, og hefir nú hv. þm. G.-K. gert það af hálfu okkar sjálfstæðismanna, í sinni ýtarlegu framsöguræðu. Svör stj. þekkjum við, bæði af þessum umr. og annarsstaðar frá; Þau eru alkunnug, og vil ég nú minnast á helztu atriðin.

Hæstv. fjmrh. sagði: Allt fjármálaástand ríkisins er ykkur að kenna. Má það nú heita viðurkenningarvert, að andstæðingar okkar eru þó farnir að viðurkenna, að ástandið sé slæmt, að sóað hafi verið fé, búið rekið með sífelldum halla og skuldum hrúgað upp. Þetta er náttúrlega framför frá þeim barnaskap, þegar þeir héldu, að komast mætti úr skuldum með því að samþ. á þingmálafundum, að skuldirnar hefðu lækkað.

En nú þegar ríkisskuldirnar eru viðurkenndar, þá er snúið við blaðinu, og þá eiga þær allar að vera okkur sjálfstæðismönnum að kenna. Skuldirnar eru þá eftir þeirri kenningu þeim flokki að kenna, sem ekki hefir farið með völd síðan þær byrjuðu að safnast. Sjálfstæðismenn réðu á árunum 1924—1927, og þá lækkuðu ríkisskuldirnar um meira en þriðjung, eins og allir viðurkenna.

En flokkarnir, sem farið hafa með völd síðan, eru alveg eins og heilagir englar. Mennirnir, sem eyddu allt upp í níföldum þeim upphæðum, sem heimilaðar voru á fjárlögum, þeir eiga enga sök á eyðslunni. Mennirnir, sem greiddu 40 þús. þar, sem 6 þús. voru heimilaðar, og 300 þús. þar, sem 50 þús. voru heimilaðar. mennirnir, sem greiddu hundruð þúsunda án heimildar. mennirnir, sem komust á einu árinu meira en upp í tvöfalda fjárlagaupphæðina, þessir menn eiga enga sök á því, sem gerzt hefir. Það er allt að kenna andstæðingunum, sem vöruðu við, sem skrifuðu, töluðu og greiddu atkv. á móti eyðslunni.

Hæstv. fjmrh. var að klifa á því, að vegna þess að sjálfstæðismenn hefðu á árunum 1932—1933 haft einn mann í stjórn, þá hefðu þeir líka orðið að bera og yrðu að bera ábyrgð á fjármálaástandinu. Það vita allir, að sú stjórn var eingöngu mynduð til þess að leysa eitt ákveðið mál, og sá ráðh., sem Sjálfstfl. átti í þeirri stjórn, gegndi ekki fjármálastörfunum, svo þessi rök hafa ekki við neitt að styðjast.

Svo er ein sönnunin þessi: Sjálfstfl. hefir samþ. lánsheimildirnar. Já. vissulega höfum við sjálfstæðismenn samþ. það, að ríkið standi við skuldbindingar sínar. Jafnvel það, sem eytt er í sukk, verður þó að borgast. Það eru líka margir ráðdeildarsamir feður, sem verða að borga eyðsluskuldir heimskra sona. En hitt er annað mál, að það ber vott um lélegt gáfnafar, ef menn þess vegna segja, að skuldirnar séu feðrunum að kenna.

Þá er eitt svar stjórnarflokkanna það, að allt öngþveiti atvinnuveganna sé sjálfstæðismönnum að kenna. Þeir hafi haft öll stóru atvinnutækin í sínum höndum og nú séu þeir búnir að sigla því öllu í strand. — Já, það er satt, í hópi þeirra rösku drengja, sem á síðasta mannsaldrinum hafa lyft íslenzkum atvinnuvegum upp úr þúsund ára kyrrstöðu, margfaldað afraksturinn, fundið nýja markaði og gert nútíma lifnaðarhætti mögulega á þessu landi, — í þessum sterka og virðingarverða hópi eru langflestir sjálfstæðismenn. Þess mun ævarandi verða getið þeim til sóma, og þá hins líka, að í þessari erfiðu fjallgöngu hafa margir hrapað, þegar þeir voru að kanna nýjar leiðir, eða af því að hamarinn hefir reynzt þeim of brattur. Þessar, manna mun getið verða og þessa tímabils um ókomnar aldir, og þá verður sennilega getið líka hræfuglanna, sem í þessu mikla starfi höfðu það hlutverk að vera jafnan til taks til þess að kroppa augun og rekja garnirnar úr þeim, sem fyrir slysum höfðu orðið og lágu ósjálfbjarga. Ofan á þessa öru og kannske of hraðfara sókn kom svo heimskreppan, verðfali afurða, söluhömlur og annað slíkt.

En heima fyrir kom þá líka kreppa, stjórnmálakreppan, sú kreppa, að við völdum voru teknir þeir menn, sem engan skilning og að því er virtist lítinn vilja höfðu á að bæta hér um og aðstoða. Í örðugleikunum voru hjálparráðstafanirnar helzt þessar:

1) Hækkun skatta ár frá ári.

2) Gífurlegar opinberar framkvæmdir og þar með samkeppni um vinnukraft og kapítal.

3) Ríkisrekstrarstefna, sem gekk um snuðrandi eftir hverri þeirri starfsgrein, sem arð gæti gefið.

4) Og loks má telja það, sem ekki mun hafa haft minni áhrif. Þótt það virðist ef til vill við fyrstu sýn ekki eins raunhæft, að bæði í ræðu og riti var sótt að þeim mönnum og stofnunum, sem of mikið þótti fara fyrir.

Þegar svo er búið að sliga allt, þá er komið og sagt. Já, herrar mínir. Þið hafið rekið þetta. Hvers vegna blómgast það ekki í höndum ykkar? Í þessum hóp valdi hæstv. atvmrh. sér að vera með hnjóðsyrði sín og ómakleg ummæli.

Þá saknaði hæstv. atvmrh. þess í ræðu hv. þm. G.-K., að hann hefði ekki sagt, hvað ætti að gera. Þetta er það sama sem sífellt klingir: Hvers vegna gerið það ekki sjálfir uppástungur um ráðstafanir? Hvað á að spara? Hvað á að gera? komið það með það!

Já, það eru nú ekki ónýtir foringjar, sem svona spyrja og þessa krefjast. Rétta svarið væri náttúrlega við þessu að segja: Fáið okkur þessi mál í hendur. Þessa er engin von á meðan þið standið í vegi.

Það var nú t. d. gerð örlítil byrjunartilraun um sparnað á fjárlögum á síðasta þingi. Sjálfstæðismenn í fjvn. gerðu brtt. um niðurskurð á fjárlögum, nokkur hundruð þúsund, rétt eins og prófstein. En hvað skeði? Það var ekki aðeins, að allar þessar till. væru steindrepnar. En bæði tillögumenn og allur flokkurinn var auk þess skammaður og svívirtur fyrir það, að koma með annað eins ódæði og þetta. Með þessu leystu þeir sjálfstæðismenn alveg frá skyldunni að gera frekari till. um þetta efni meðan þeir hafa ekki völdin. Nú verður fróðlegt að sjá, hvernig þeim háu herrum tekst, þegar þeir eiga að framkvæma sinn niðurskurð á fjárlögunum í haust, ef þeir hafa þá manndóm í sér að reyna það. Það verður fróðlegt að sjá, hvernig þeir lækka útgjöldin niður í það, sem þjóðin fær borið án þess að nokkursstaðar verði klipið af og einhver finni til.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri ekkert að marka, þó þetta fjárlagafrv. væri það hæsta, sem hér hefði verið borið fram. Það væri þó ekki hærra en fjárlög hefðu raunverulega orðið á sumum árum. En það er þá eftir að sanna, að þetta fjárlagafrv. standist nokkuð betur og að ekki bætist á þau venjulegur viðauki.

Ég vil taka annað dæmi, sem sýnir einlægni þessara manna, þegar þeir heimta af okkur tillögur um umbætur. Á síðasta þingi bar hv. þm. G.-K. fram frumv. um fiskiráð og ritaði með því stórfróðlega grg. um erfiðleika og nauðsynjamál útgerðarinnar. En hvernig var þessu tekið? Jú, andstæðingarnir fáfróðu tóku sig til og lásu greinargerðina. því að þar fengu þeir nýja fræðslu. En frumv. notuðu þeir sem átyllu til þess að koma með sína lausn á málinu, lausn, sem stefndi öllu þessu stórmáli í bersýnilegan voða. Það voru gerðar gyllingar til að koma fisksölusamlaginu fyrir kattarnef. Hæstv. atvmrh. var að vísu að mótmæla þessu og sagði, að það hefði þá verið í dauðateygjunum, en hann ætti að muna eftir bréfi, sem barst frá samlaginu, þar sem talað var um þessa beinu hættu og varað við henni. Hæstv. ríkisstj. er nú að reyna að leggja á þetta plástur yfir plástur, en hamingjan má vita, hvort það heppnast.

Það væri nú ekki óálitlegt fyrir sjálfstæðismenn, sem hafa þessi starfsskilyrði, að vera að koma með sínar till. aðeins til þess að láta ýmist hundsa þær eða það, sem verra er, aflaga þær, snúa þeim upp í vitleysu og framkvæma þær svo í þeirri mynd. Nei. það er engin ástæða til þess fyrir okkur að vera að gefa þeim hugmyndir, úr því þeir hafa hvorki vit né vilja til annars en þess að gera svart úr hvítu.

Auk þess er það svo, eins og hv. þm. G.-K. tók fram, að mjög margt af því, sem þarf nú að gera, er þess eðlis, að það þarf að gerast miklu frekar en að ræðast, og eins er það, að nú eru breytingarnar svo örar og vandamálin svo breytileg, að það er gersamlega óhugsandi að leggja ráðin á fyrir langan tíma. Það eru menn, sem þarf, en ekki áætlanir, — menn, sem eru hverju nýju viðhorfi vaxnir. Það er ekki hægt að heimta af taflmanni, að hann segi í upphafi taflið allt. Það verður bara að skipa þar á manni, sem er fær um að mæta hverju, sem að höndum ber, manni, sem er verkinu vaxinn. Það er ekki hægt að gefa þar neina fjögra ára áætlun.

Þá vil ég að lokum með örfáum orðum minnast á enn eitt svar, sem stjórnarliðarnir gefa okkur. Og það er sú staðhæfing, að þeir séu sí og æ í samvinnu við alla beztu menn innan Sjálfstfl. Þeir hafi þá í nefndum og noti yfirleitt okkar beztu krafta. Í því efni er gaman að minnast hinnar svonefndu skipulagsnefndar atvinnuveganna, sem stundum hefir verið kölluð Rauðka. Um valdsvið hennar voru sett lög á síðasta þingi og henni gefið allmikið vald, en sá. böggull fylgdi skammrifi, að það var tilskilið, að þá skyldu vera í henni tveir sjálfstæðismenn. En svo mikill og einlægur er nú samvinnuviljinn, að þeir hafa heldur viljað láta Rauðku sína standa uppi valdalausa heldur en að láta þangað komast nokkra menn af okkar flokki.

Í sambandi við þessa nefnd vil ég svo víkja að ástandinu eins og það er og hvað valdhafarnir þyrftu að gera. — Til þess að taka allt þetta föstum tökum var skipuð þessi nefnd, og þessi hugsun, að mynda nokkurskonar hring vitrustu manna til þess að reyna að brjóta vandamálin til mergjar, er að mínu viti alveg laukrétt. Fram undan okkur hlýtur að vera geysileg breyting á öllum okkar háttum. Búskapur okkar fær ekki staðizt eins og hann er. Ef alla þarf að aðstoða, hver á þá að veita aðstoðina? Erlenda lánstraustið er nú tæmt og hæstv. fjmrh. hefir orðið að lofa í auðmýkt að taka ekki meiri lán. Innlendi forðinn er horfinn. Það eyðist, sem af er tekið, — og þannig verður þá hvorki geta til skattgreiðslu né til kaupa á afurðum. Hér þarf einmitt brain-trust, eins og Roosevelt kom sér upp, vitsmuna-klíkur, þar sem öll sérþekking og mannvit er notað og síðan öllum manndómi og dáð beitt í framkvæmd. En mér finnst það alveg einkennandi fyrir þá menn, sem nú fara með völdin, hvernig þetta hefir tekizt hjá þeim. Þeir skipa nefndina fyrst eingöngu eftir pólitískum lit, og útkoman verður svo eftir því.

Hvað hefir nú þessi nefnd gert? Hvað hefir hún gert til eflingar sjávarútveginum? Hvað hefir hún gert til viðreisnar landbúnaðinum, eða sérstökum iðngreinum, eða þá verzlun landsins? — Frá henni kemur ekkert nema aumustu hégómamál, svo sem eins og um það að einoka bifreiðar, setja upp málamynda-ferðamannaskrifstofu, kveða á um samband rannsóknarstofnunar og háskólans og annað eftir þessu. Rauðka með öllum sínum einkennum og öllu sínu atferli er ágæt mynd af þeim mönnum, sem nú eru hér við völd í landinu á einhverjum örlagaríkustu tímum.

Og nú ætlar þessi stjórn að senda Alþingi heim. Víða annarsstaðar les maður um það í blöðum, að svo miklir örðugleikar steðji að, að þing hafi verið kallað saman í skyndi. Hér aftur á móti steðja svo miklir örðugleikar að, að það verður að losa sig við þingið. Við fljótlega yfirvegun virtist mér þetta hrein fjarstæða og að sjálfsagt væri að greiða atkv. móti þingfrestun. En ég hefi komizt á aðra skoðun, og það sérstaklega við það, að horfa á störf þessa þings. Það hefir nú setið í 7 vikur, — og hvert er nú orðið okkar starf? má spyrja. Mér er sagt, að fjvn. sé ekki einu sinni búin að lesa fjárlagafrumvarpið í gegn. Og hvað á hún að vera að lesa frumv., sem hvort sem er er markleysa.

En hvers vegna var þá ekki hætt fyrr? Dag eftir dag og viku eftir viku er þingmönnunum haldið hér yfir engu. Tugir þúsunda hverfa í þetta. En það er eins og þingið geti hvorki lifað né dáið. Menn hafa verið að reyna að finna þá skýringu á þessu, að starfleysi þingsins stafi af því, að valdhafarnir viti ekkert, hvað á að gera, en að það hafi ekki mátt hætta fyrr en búið væri að afgr. lög um hæstarétt, þar sem veitingarvaldið er sett óskorað í hendur dómsmrh.

Hæstv. forsrh. sagði, að það kostaði ekkert að fresta þinginu, af því að það mætti taka hvert mál upp aftur þar, sem frá því hefði verið horfið, en seinna í ræðu sinni mótmælti hann þessu svo sjálfur og sagði, að þetta mundi allt verða ónýtt. Ef hér væru nú við stjórn duglegir menn, sem væru verkefnunum vaxnir, þá væri ekkert áhorfsmál að halda þinginu áfram og taka þegar í stað til óspilltra málanna um þær ráðstafanir, sem áreiðanlega þarf að gera hvernig sem allt snýst. En þetta þing, sem nú situr, og undir þeirri forustu, sem það nýtur, það held ég að við sjálfstæðismenn þurfum ekki að harma, það er áreiðanlega þarfast meðan það er ódýrast.

Og svo að lokum vil ég aðeins segja þetta: Ég er sannfærður um, að fram undan okkur eru stórar breytingar, sem sennilega knýja okkur til þess að láta allar fornar væringar hverfa. Við verðum að láta þá dauðu grafa sína dauðu og láta það liðna eiga sig. Við verðum að taka ástandið eins og það er og hefja starf á þeim grundvelli, sem er lagður, hvort sem hann er vondur eða góður. Um þetta munu allir góðir drengir í landinu sameinast. hvar sem þeir hafa annars staðið í flokki eða fylkingu. Hinir verða svo að húka úti í horni á meðan og urra í sinni meðfæddu geðvonzku.

Gæfa Íslands er undir því komin, af hvorum reynist nú meira, góðum drengjum, sem setja landsins hag ofar öllu öðru, eða hinum, sem kroppa augun. Kappinn reynist fyrst þegar á hólminn er komið. Og ég er sannfærður um, að Ísland er nú að komast á hólminn. — er að komast að sinni mestu örlagastund.