04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (4755)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Eftir nærri tveggja mánaða róður leggur nú hæstv. stj. árar í bát og leggst við akkeri, vonlaus um að ná í land um lausn vandamála þjóðarinnar. Hvernig stendur á þessu? mun þjóðin spyrja. Hefir nokkuð sérstakt komið fyrir, sem ekki varð séð í þingbyrjun? Eða hefir þingið, þessa tvo mánuði, verið að glíma við örðugleikana, sem að steðja, og leita að ráðum út úr ógöngunum?

Hvorugt þetta hefir átt sér stað. Ekkert hefir gerzt síðan fyrstu daga þingsins, sem orsaki nauðsyn á þingfrestun. Og enginn, sem til þekkir, getur viðurkennt, að þingið hafi gert skyldu sína gagnvart þjóðinni þann tíma, sem það hefir setið. Í mínum augum er þetta stærsta ásökunin á hendur ríkisstj. og stjórnarflokkunum. Annaðhvort var að fresta þinginu strax eða gera róttækar og drengilegar ráðstafanir til viðreisnar fjármálunum og til þess að koma atvinnuvegum þjóðarinnar á starfhæfan grundvöll.

Hvað hefir þingið gert í viðreisn fjármálanna? Ekkert nema að samþ. hafa verið lög um frestun nokkurra laga og lagaákvæða. Hvað hefir verið gert til þess að koma landbúnaðinum á starfhæfan grundvöll? Ekkert. Hvað hefir verið gert fyrir sjávarútveginn? Sama og ekkert, nema heimilaður lítils háttar stuðningur við smábálaútgerðina.

Við Bændafl.menn höfum á þinginu í vetur og nú borið fram ýms mál, sem gætu orðið mikill stuðningur fyrir framleiðendur í landinu, ef að lögum yrðu.

Alstaðar að berast þingm. óskir um, að héruðum sé veitt aðstaða til þess að standa undir hinum mikla þunga opinberra gjalda, sem er að sliga sýslu- og sveitarfélögin. Á báðum þingunum í vetur höfum við Bændafl.menn flutt frv. um, að fasteignaskatturinn rynni í viðkomandi sýslusjóði, og átti þetta að vera byrjun á löggjöf um fasta tekjustofna sýslu- og sveitarfélaga. Hér er að vísu ekki stórt spor stigið, en þó svo, að talsverður styrkur mundi sveitarfélögunum að þeirri lækkun sýslusjóðsgjalda, sem af þessu mundi leiða. Þessu máli hefir stj. og flokkar hennar ekkert sinnt, og málið ekki fengið aðra meðferð á þingi en komast í nefnd.

Snemma á þessu þingi bar ég fram frv. um verðgildi peninga, sem átti að tryggja það, að framleiðendur fengju það verð fyrir erl. gjaldeyrinn, sem inn kæmi fyrir vörur þeirra, sem svaraði framleiðslukostnaði. Þetta er áreiðanlega stórfelldasta till., sem fram hefir komið til stuðnings framleiðslunni til lands og sjávar. En hvað hefir þing og stj. gert í þessu máli? Bókstaflega ekki neitt. Frv. var vísað til nefndur, og þar situr það óafgreitt. Sömu afdrif hafa flest þau mál fengið, sem við Bændafl.menn höfum borið fram á þingi. Aðeins tvö af þessum málum okkar hafa náð fram að ganga á þessu þingi. verðuppbótin á kjötið, sem er nákvæmlega sú sama sem við lögðum til á síðasta þingi og sjálfsagt var að samþ. þá, og svo lækkun á vöxtum fasteignaveðsskulda landbúnaðarins, sem er þó í annari og ófullkomnari mynd en við ætluðumst til.

Stj. hefir lagt mikið á sig til þess að telja þjóðinni trú um, að allar till. Bændafl. væru ekkert annað en hóflaus eyðsla og yfirboð. Hvers vegna hefir hún þá tekið upp þessar till. okkar um kjötuppbótina og að nokkru leyti till. um vaxtalækkunina? Vitanlega er ástæðan nauðsyn landbúnaðarins, og þessi nauðsyn er nákvæmlega jafnmikil hvort sem Bændafl. eða annar flokkur bendir á hana. Annars eru þessar till. Bændafl. ekkert annað en tilfærsla útgjalda. Við lítum svo á, að hollara sé fyrir þjóðfélagið að styðja menn við atvinnurekstur í hinum dreifðu byggðum landsins heldur en að auka hina hóflausu sókn að atvinnu kaupstaðanna, sem engan veginn hrekkur til að fullnægja eftirspurninni. Þrátt fyrir þá feikna atvinnuaukningu, sem verður við Sogvirkjunina, sem talið er, að muni nema um 700 þús. kr., er á yfirstandandi fjárl. gert ráð fyrir 1/2 millj. króna til atvinnubóta gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar frá.

Hvað verður þörfin mikil fyrir atvinnubótafé. þegar niður fellur vinna við Sogsvirkjunina? hví ekki blæs byrlegu um lántökur erlendis til annara slíkra framkvæmda. Er það nú stór synd að álykta, að betra væri að verja nokkru af þessu fé til þess að hindra eitthvað þennan öra og óholla fólksflutning úr sveitunum í kaupstaðina? Um þetta má kannske deila, en dómur reynslunnar hlýtur að verða aðeins einn og okkur í vil.

Hæstv. fjmrh. lét þess getið í ræðu sinni, að hann og stjórnarflokkarnir gætu ekki gengið inn á að lækka framlög til verklegra framkvæmda. En vegna þess að sérstök nauðsyn krafði, varð það að ráði í Framsfl. að lækka framlög til þjóðvega um 10%.

En samstarfsmenn landbúnaðarráðherra gátu ekki fallizt á þessa lækkun og greiddu atkv. á móti henni. Bendir þetta á sundrung í stjórnarliðinu, og er mjög sennilegt, að sá ágreiningur sé meiri en opinberlega hefir komið fram. Og áreiðanlega mun það vera ein ástæðan fyrir þingfrestuninni, að stjórnarflokkarnir vilja fá tíma til þess að bræða sig saman um, hvað þeir eigi að taka til bragðs. Sem dæmi um þann ágreining má benda á ósamkomulagið, sem varð um frestun Alþingis strax á haustþinginu. Vildi stj. þá strax fresta þinginu, en fékk ekki samkomulag um það innan sinna flokka. Hvað hefir svo gerzt á þessu þingi, sem búið er að sitja nálega tvo mánuði? Það lítur út fyrir, að stj. hafi fundizt nauðsynlegt að halda þm. hér í 2 mánuði til þess að koma fram löggjöf um hæstarétt. En þar sem verið er að vinna að rannsókn þeirra mála, sem hér að lúta, og á að skila þeim fyrir næsta þing, hefði þetta einnig mátt bíða, og ekki ástæða til þess að halda þinginu þess vegna. Það getur því ekki stafað af öðru en pólitískum ástæðum, að Alþfl. og Framsfl. leggja svo mikið kapp á að koma þeirri breyt. á.

Stjórninni og flokkum hennar verður að skiljast, að ekki er nóg að fresta störfum Alþingis, það verður líka að fresta að reka pólitíska starfsemi með hagsmuni einstakra manna og stjórnarflokka fyrir augum. Hagsmunir flokkanna og flokkaforingjanna verða að víkja í störfum þings og stjórnar fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Þetta er að vísu lögmál, sem alltaf ætti að gilda, en alveg sérstök ástæða er til að krefjast þess á jafnörlagaríkum tímum sem nú standa yfir, þegar ekki er einungis teflt um fjárhagsafkomu frá ári til árs, heldur einnig um fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í framtíðinni.