04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (4756)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hætti nokkuð skyndilega áðan vegna hávaða á pöllunum, en átti eftir að sveigja að einu atriði hjá hv. 10. landsk. En hann á eftir að ætla einu sinni, svo að honum gefst kostur á að taka það með.

Hann notaði tækifærið til þess að koma fram með ýmiskonar dylgjur um stofnun raftækjasölunnar og benti á, að Alþýðublaðið hafi ráðizt á mig fyrir framkvæmd í sambandi við hana. Sömuleiðis að hér hefði komið fram í dag till. um að víta mig fyrir framkvæmdir mínar í þessu máli. Hann bar fram þá ásökun, sem allmjög hefir borið á í sambandi við þetta mál, sem sé að forstjóri raftækjaeinkasölunnar, sem á að verða, Sigurður Jónasson, sem nú hefir forstjórn tóbakseinkasölunnar — þetta er gert til að spara — hann ætti að semja við sjálfan sig um kaup á vörubirgðum verzlunar þeirrar, sem hann rekur ásamt öðrum. Þetta segir nú hv. þm., og þó er upplýst í dag og viðurkennt af þeim andstæðingum jafnvel, sem deila á mig fyrir þetta mál, að þetta eigi sér engan stað. Það er af því, að það á ekki að kaupa neinar birgðir. En þessi hv. þm. hefir valið sér stað fyrir neðan þessa menn. Og eftir að búið er að ganga frá þessu atriði, þá lætur hann sér sæma að dylgja með það í útvarpinu. Annars hefði hv. þm. getað minnzt á það um leið og hann skýrði frá þessu, að þessi till. um ávítur á mig endaði með því, að samþ. var traust á ríkisstj. í sambandi við þetta mál. Þetta undanfelldi hann af skiljanlegum ástæðum.

Ég tel mér skylt að svara nokkrum atriðum, sem fram hafa komið viðvíkjandi fjármálum, en nota ekki nema nokkuð af tímanum, þar sem hæstv. forsrh. hefir ýmsu að svara, sem ástæða er til að gera aths. við.

Hv. 1. þm. Reykv. kvað það ekki alls kostar viðeigandi af mér að telja, að Sjálfstfl. hafi borið ábyrgð á fjármálastjórninni nokkurn tíma á síðari árum. Og ástæðan var sú, að stj. sú, sem flokkurinn hefir stutt, hafi verið mynduð vegna kjördæmamálsins. Það kann að vera rétt, að hún hafi verið mynduð vegna kjördæmamálsins að einhverju leyti. En hvernig hugsa hv. sjálfstæðismenn, að þeir geti myndan stj. utan um eitt mál og staðið að stj. í tvö og hálft ár án þess að taka ábyrgð á fjármálum landsins? Hvernig hugsa þeir, að þeir geti afgr. fjárl. með Framsfl. án þess að bera ábyrgð á fjárl. ásamt þeim flokki og svo öðrum till., sem leggja grundvöll í fjármálunum? Nei, það er meira en hægt er að bera á borð fyrir alla sæmilega viti borna menn. Ég er ekki að mæla Framsfl. undan ábyrgðinni. En það er ekki karlmannlegt af sjálfstæðismönnum að reyna að skjóta sér undan þeirri ábyrgð, sem þeir vitanlega bera með Framsfl. að réttu. Á þessu tímabili komu þeir ekki fram með neinar kröfur um að skipta um stefnu í þessu máli eða að frekar yrði varizt áföllum en raun varð á.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að því hefði verið haldið fram, að Sjálfstfl. hefði verið með öllum lántökum, og það væri ekki að marka, því að það yrði að vera með því að taka lán til að borga eyðsluna. En hann gleymdi að geta um það, þessi góði þm., að lánin voru undantekningarlaust tekin og vitanlega af eðlilegum ástæðum — áður en þeim var eytt. Lánin voru fyrst tekin og síðan eytt til ýmiskonar hluta. þannig að flokkurinn hefir veitt samþykki sitt til lántökunnar í hvert sinn. Og hann hefir verið með öllum erlendum ríkislántökum, sem framkvæmdar hafa verið á síðari árum. Af þessu sést, að það kemur úr hörðustu átt, þegar menn koma hér fram og berja sér á brjóst og segja: nær var að fara að okkar ráðum í þessu máli. Mennirnir, sem hafa verið meira og minna með í ráðum um þessar framkvæmdir, eins og ég hefi sýnt fram á.

Þá fór hv. 1. þm. Reykv. að benda á það, að Sjálfstfl. hefði borið fram merkilega till. á síðasta þingi um niðurfærslu útgjalda á fjárl. Rétt er það, að fram kom till. nokkur um það, að skera niður verklegar framkvæmdir, sem nam 600 þús. kr. M. ö. o.: með þessari till. fékkst viðurkenning frá þessum flokki fyrir því, að ef ætti að færa niður á fjárl., ætti að taka af þessum lið. Ég verð að segja, að ég er mjög ánægður með það, að þessi till. kom fram. Því að hún hefir slegið föstu, að allt tal sjálfstæðismanna um það, að hægt sé að skera niður útgjöld án þess að það taki til verklegra framkvæmda, er ekkert annað en skraf út í loftið. Og einmitt þessi till. gerir miklu gleggri línur í fjármálum en ella. Hún sýnir, að baráttan í fjármálunum milli vinstri flokkanna annarsvegar og hægri flokkanna hinsvegar er einmitt um það, hversu mikið framlag eigi að verða til verklegra framkvæmd, og til atvinnuveganna. Og þessi till. sjálfstæðismanna dregur alveg sérstaklega skarplega fram þennan stefnumun, og kannske skarplegar en kostur hefir verið áður að fá hann dreginn fram. — Nei, það er alveg sama, hvað sjálfst.menn og Bændafl.menn reyna að villa menn í sambandi við þessi fjármál. Það stendur alveg ljóst fyrir mönnum eftir allar umr. um þessi mál á síðari tímum, að stefnurnar eru tvær. Annarsvegar sú, að halda uppi sem mestum framkvæmdum og framlögum til atvinnuveganna og nota þannig tekjuöflunarmöguleika ríkissjóðs sem bezt. Hinsvegar sú stefna, að nota ekki tekjumöguleika ríkissjóðs nema af skornum skammti og lækka þessi tillög til atvinnuveganna. Og þó að menn séu öðrum þræði — eins og hv. 10. landsk. að baksa við að benda á till., sem þeir hafi komið með landbúnaðinum til framdráttar, þá er slíkt ekki tekið lengur alvarlega, vegna þess að þessir flokkar sýna með stefnu sinni í fjármálum yfirleitt, að ef þeir hefðu farið með völdin, þá væru þessi tillög lægri nú. Það er aðalatriði málsins.

Að lokum vil ég víkja örfáum orðum að hv. þm. V.-Húnv., sem talaði hér nokkur orð áðan. Það var nú þetta sama nudd hjá honum — eins og gengur — um þessi mál Bændafl., sem ekki sé sinnt, og að því er virðist af einskærri fúlmennsku þeirra, sem hafa völdin. Það er að skilja á hv. þm., að það séu ótæmandi möguleikar til að ausa fé út, bara ef farið er eftir till. frá þeim. Ég hefi áður bent á samræmi tillagna þeirra við framkomu þeirra að öðru leyti.

Hv. þm. var að reyna að notfæra sér smáatvik, sem gerðist fyrir skömmu, þar sem varð ágreiningur milli Alþfl. og Framsfl. um niðurskurð til að mæta kjötuppbót til bænda. Hann sagði, að þetta sýndi stórkostlegan ágreining milli flokkanna. Það má segja, að svo mæla börn sem vilja. Þingmenn Sjálfstfl. og Bændafl. eiga auðvitað enga heitari ósk en þá, að ósætti takist milli þessara tveggja vinstri flokka. En ég get alveg fullvissað þessa hv. þm. um það, að það er ekki enn búið að taka svo mikið á þeim verkefnum, sem þessir flokkar geta unnið saman, að það sé nokkur minnsta ástæða til þess að koma fram með þær getsakir, sem hv. þm. V.-Húnv. var með. Því að þó að það sé eins og gengur í samstarfi milli flokka, að ágreiningur er um einstök smærri atriði, þá er það vitanlega þannig, að meðan nóg er af stórmálum, sem flokkarnir geta unnið saman að, þá helzt samvinnan áfram. Og það er alveg sama, þó að hlakki í ýmsum þm. yfir svona smáatvikum og þeir minni helzt á hræfugla, sem vaka yfir að fá æti. Þetta hefir engin áhrif til að spilla samvinnunni. Þeir telja það hlutverk sitt að vinna saman meðan þeir geta sameinazt um hin stærri mál.

Að svo mæltu vil ég láta máli mínu lokið, þar sem hæstv. forsrh. á ýmsu ósvarað og mun nota það, sem eftir er tímans.