04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (4757)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Eins og tilheyrendur hafa tekið eftir, hefi ég ekki langan tíma til að svara því, sem hér kom fram. Ég þarf ekki að svara neinu viðvíkjandi fjármálum, því að hæstv. fjmrh. hefir gert það nægilega. Viðvíkjandi því, sem fram hefir komið um sjávarútveg og atvinnumál, fyrir utan landbúnaðinn, hefir hæstv. atvmrh. svarað einnig. Þau atriði, sem ég ætla að taka til yfirvegunar, eru nokkur ummæli í ræðum hv. þm. G.-K. og hv. 10. landsk.

Það var minnzt á það af hv. þm. G.-K., að stj. hefði í raun og veru tekið við kjötlögunum af n., sem fyrrv. stj. skipaði. Það er nú svo oft búið að hrekja þessi ósannindi, og meira að segja oft í útvarpi, að ég veit ekki, hvort þörf er á að endurtaka það. Það er öllum vitað mál, að það var S. Í. S., sem barðist fyrir að fá þessi kjötlög sett, samdi frv., sem lagt var í hendur á n., sem fundur Sambandsins knúði fyrrv. ráðh. til að skipa. En n. þessi lá síðan á öllu málinu þangað til eftir kosningar, að rekið var á eftir henni að ganga frá málinu.

Viðvíkjandi verðlagi á kjötinu, sem hv. 10. landsk. og hv. þm. G.-K. minntust á, þá skal ég koma að því nokkuð síðar.

Það var minnzt á mjólkursölul. og sagt, að ekki hafi verið gert annað en taka við till., sem gerðar voru af bændum í Mosfellssveit og Eyjólfi Jóhannssyni forstjóra. Oft er búið að taka fram, að sá maður, sem kom fyrst fram með frv. um málið, var Bjarni Ásgeirsson alþm. Síðan tók Sambandið málið upp og samdi mjólkursölul., sem einnig var skilað í hendur n. og hún gekk frá með sama hætti og minnzt var á um kjötsölulögin. Ég tek sérstaklega þann fyrirvara, að ef hv. 10. landsk. mótmælir þessu, þá get ég minnt hv. áheyrendur á það, að l. eins og þau komu frá Sambandinu voru birt í Tímanum löngu áður en nefndin tók þessi mál til athugunar.

Það var minnzt á, að ríkisstj. skipaði „gæðinga“ sína til að stjórna mjólkursölumálunum og svipti bændur ráðum. Þetta eru margendurtekin ósannindi, sem verið er enn að endurtaka til þess að vekja tortryggni hjá bændum. Ég vil þá minna á, að í n. eru þessir menn: Egill Thorarensen í Sigtúnum, sem hefir stjórnað mjólkursölumálum þeirra austanfjalls undanfarin ár. Hann er skipaður beinlínis af félögunum fyrir austan. Eyjólfur Jóhannsson er skipaður af Mjólkurfélagi Reykjavíkur og hefir stjórnað málefnum bænda eftir vali þeirra í 17 ár. Einn er kjörinn fyrir hönd annara félaga, það er Árni Eylands. Séra Sveinbjörn Högnason bóndi og prestur á Breiðabólsstað er fjórði maðurinn af sjö í nefndinni. Síðan er Hannes Jónsson dýralæknir. Það er sem sagt vitað mál, að bændur landsins eigi sem fulltrúa fimm menn af sjö í mjólkursölun. Og það er jafnvitað mál, að þessi yfirborðsdeila um það, hvort framleiðendur eigi að taka við samsölunni eða ekki, er fyrst og fremst um það, hvort Mjólkurfélag Reykjavíkur og Korpúlfsstaðabúið eigi að hafa ráðin. Það er verið að reyna að láta þau fá tvo menn af þremur.

Þá var talað um, að verðlagsnefnd væri dýr nefnd. Hún kemur sennilega saman tvisvar á ári og fær hver nefndarmaður 10 kr. fyrir að mæta. Það eru 100 kr. á ári. 1. maí verður sennilega kosin undirnefnd, sem að meiri hl. er skipuð af framleiðendum. Mun þá kostnaðurinn við mjólkursöluna að þessu leyti skipta kannske 200—300 krónum.

Að mjólkurl. hafi orðið til bölvunar. eins og hv. þm. G.-K. lét sér um munn fara, er ekkert annað en ósannindi. Það er vitað, að bændur í Mosfellssveit fá 26 aura fyrir lítrann nú, en 24,4 aura áður; og þó er búið að lækka mjólkina um 2 aura og jafnframt borgaðir 3 aurar í verðjöfnunargjald til bænda fyrir austan. M. ö. o., sparnaður við mjólkursöluna hefir orðið allt að 7 aurum á hvern lítra með skipulaginu.

Þá var ennfremur á það minnzt af hv. 10. landsk., að veitir, sem landbúnaðurinn verður að greiða, væru ennþá of háir. Það er alveg rétt. En ég vil benda öllum þeim, sem mál mitt heyra, á það, að það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að leggja á aðra atvinnuvegi, sem líka biðja um hjálp. Því að vitanlega hlýtur vaxtalækkun hjá bændunum að koma niður annarsstaðar. Og eins og ástatt er með aðra atvinnuvegi, þá er því miður ekki hægt að komast lengra. Og það er þetta mál, sem danska stj. hefir strandað á nú tvö undanfarin ár, af því að bankarnir hafa beinlínis neitað að taka á sig byrðarnar, sem það hefir í för með sér að færa niður vexti landbúnaðarins.

Það var minnzt á, að það hafi verið ákveðið of lágt gjald fyrir frystikjöt í sláturhúsinu, og þess vegna geti komið til mála, að bændur verði að borga til baka af því verði, sem þeir fá fyrir kjötið nú. Ég hefi nú leitað mér upplýsinga um þetta — sem ég raunar vissi fullvel áður — í fjórum stöðum. Hringdi m. a. til Helga Bergs forstjóra og spurði, hvort líkur væru til, að þyrfti að borga til baka af því kjötverði, sem nú er, Hann sagði, að eins og nú horfði væru ekki líkur til þess, og verðið væri ákveðið 95—96 aura kg. En bændur fengu í fyrra 72 aura á Suðurlandsundirlendinu fyrir kjötið. Og svo er verið að staðhæfa, að það sé enginn gróði að kjötsölulögunum. Þó er það vitað, að það var ennþá verri aðstaða gagnvart erlenda markaðinum í ár en í fyrra, vegna verðlækkunar. Hefði þá aðsóknin á innlenda markaðinn í haust orðið svo geysileg, ef kjötsölul. hefðu ekki verið, að verðið hefði fallið von úr viti. Þetta verð hafa bændur fengið á Suðurlandsundirlendinu, og þó er búið að borga 140 þús. kr. til bænda úti um landið. Og við þurfum ekki að bæta nema 150 þús. kr. við til þess að bændur fái að vísu ekki gott verða en verða því miður að sætta sig við eins og tímarnir eru og erlendi markaðurinn er nú fyrir þessa vöru.

Ég vil bæta því við viðvíkjandi frystikjöti, að ég hefi fengið þær upplýsingar, að það hafi hækkað um 111/2 eyri að jafnaði hjá Sláturfél. Suðurl. Síðan, þegar betur leit út um söluhorfur, var það hækkað um 121/2 eyri, og var þá hækkunin 24 aurar. Það þótti ekki fært að gera meira fyrir hækkuninni en gert var, vegna ótta við það, að svo miklar birgðir, sem til voru, seldust ekki sæmilega. En nú er búið að selja allt fryst dilkakjöt, sem átti að selja á erlendum markaði, eða a. m. k. vís sala fyrir það, sem enn er óselt. Ennfremur hefi ég fengið upplýsingar eftir skýrslum um kjötbirgðir innanlands. Það er alltaf verið að breiða það út, að þær séu ákaflega miklar. En kjötbirgðirnar eru ekkert óvenjulega miklar nú. — það er a. m. k. óhætt að fullyrða. Og einmitt vegna þess lítur betur út en jafnvel á horfðist.

Um þá staðhæfingu, sem hv. 10. landsk. kom með um verð á rjóma, vil ég geta þess, að það er skröksaga ein, sem birt var í Morgunblaðinu, nefnilega að rjómalítrinn hafi verið keyptur á kr. 2.40, en borgað kr. 1,19 fyrir hann. Þetta var leiðrétt af form. mjólkursölun. Er nokkuð hart, þegar hv. 10. landsk. gengur svona langt í baráttu sinni, þegar beinlínis er upplýst, að þetta verð er eingöngu lagt á þann hluta rjóma, sem búin selja fram yfir það, sem þeim ber hlutfallslega, og þau hafa gengið inn á að selja fyrir þetta verð. Þeim er sem sé reiknað sama verð eins og ef unnar væru úr mjólkinni aðrar vörur. Vitanlega væri ranglátt að láta þessi bú fá hlutfallslega meira en hin búin, með því að borga þeim það hátt verð, að þau fái sem svarar neyzlumjólkurverði.

Nú hefir hæstv. forseti látið leggja fyrir framan mig miða, sem tilkynnir, að tími minn sé búinn. Hefði ég þó þurft að svara enn ofurlitlu. Viðvíkjandi kjötuppbótinni hefir það verið upplýst áður í útvarpi, að ég var búinn að lýsa yfir því í Nd. áður en hv. 10. landsk. kom fram með till. sína í Ed., að kjötuppbót yrði borguð, ef á þyrfti að halda og verð á erlendum markaði reyndist svo lágt, að ekki yrði hjá því komizt. Og það var nú einmitt vegna þessarar yfirlýsingar minnar, sem komið var með þessa till.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja, að þótt erfiðleikar séu miklir fram undan og ýmsir hafi málað svart á vegginn, þá er ekki annað fyrir en að reyna að taka þeim eins og maður, það er reynsla þjóðfélaga og einstaklinga, að það er hægt að sigrast á flestum erfiðleikum, ef tekið er á þeim með ró og karlmennsku.