04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (4761)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég hygg, að hv. þm. og aðrir áheyrendur geti lagzt rólegir og áhyggjulausir til hvílu eftir þá mjög skörulegu ræðu, sem hv. form. Sjálfstfl. flutti hér síðast. Mér skildist ræða hans eiga að flytja þjóðinni bjargráð gegn þrengingum og kreppu, en ég verð að segja það — það getur ef til vill stafað af því, að ég er orðinn syfjaður að ég heyrði hvergi nefnd bjargráð í þessari snjöllu ræðu, en sjálfsagt hefir hv. þm. þótzt finna leið til úrlausnar á vandamálunum, því að það er flestum áheyrendum vafalaust kunnugt. hversu ánægður þessi hv. þm. er með sig, þegar hann er að halda ræðu.

Hv. þm. spurði mig, hvað ég sem atvmrh. vildi gera á þessum tímum. Mér er skylt að svara þessari fyrirspurn eftir föngum. Ég fyrir mitt leyti tel það einmitt eitt ráðið til þess að mæta aðsteðjandi örðugleikum að samþ. þá þáltill., sem hér liggur fyrir. Meðan fullkomin óvissa er um afkomu þjóðarbúsins, þá er það vitanlega fávitaskapur að ætla að fara að afgr. þýðingarmikla löggjöf til þess að mæta örðugleikum, sem við vitum ekki, hverjir eru eða hvaðan koma. Einnig munu verða reyndar allar leiðir, eftir því sem unnt er, til þess að tryggja sölu afurða okkar sem bezt í öðrum löndum og til þess að ná sem beztum viðskiptasamböndum við viðskiptafirmu erlendis, sem okkur er nauðsyn á að komast í samband við. Þá fyrst, þegar árangur hefir náðst af þessum ráðstöfunum, getum við fengið að vita, hvers er að vænta í þessu efni og hvernig við eigum að haga okkur til þess að mæta örðugleikunum. Hv. þm. viðurkenndi það í öllu sínu skrafi, að taflið væri þannig núna, að enginn gæti séð fyrir næsta leik. Á meðan svo er ástatt, er ekki hægt að láta þingið sitja og semja lög út í loftið. Hvaða vit er í því af sömu mönnum að halda því fram, að nauðsynlegt sé að veita millj. kr. til skuldaskila útgerðarinnar um leið og þeir heimta 5—6 millj. kr. niðurskurð á fjárlögum? Slíkt er vitleysa. Stjórnin mun, eins og ég hefi þegar tekið fram, gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að tryggja sem bezt sölumöguleika fyrir íslenzkar afurðir og ná sem beztum viðskiptasamböndum við aðrar þjóðir.

Það var rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að ástandið er nú svo ískyggilegt, að orðin tóm duga lítt. Menn verða að snúa sér að framkvæmdunum. Þegar einhver árangur hefir náðst af þeim framkvæmdum, þá er kominn tími til þess að setja lög í samræmi við það ástand, sem þá er.

Ég verð að segja það, að þótt stundum kenni yfirlætis hjá hv. þm. G-K., þá held ég, að honum hafi tekizt öllu bezt upp í þessari sérgrein eða sérmenntun sinni í sinni síðustu ræðu. Hann sagði á 4 mín.: við sigruðum örðugleikana. við slógum út keppinautana á markaðinum, við seldum fyrir hæst verð, svo að peningarnir streymdu inn í ríkissjóðinn, o. s. frv. Mig furðar á því, að hv. þm. skuli, eins og nú er ástatt, yfirleitt ætla svo mjög að skreyta sig með þessum fjöðrum eftir að vera nýbúinn að birta tölur og skýrslur mþm. í sjávarútvegsmálum, sem eru til orðnar löngu áður en núv. stj. tók við völdum, eða 1932, um það leyti sem hv. I. þm. Skagf. var faðir atvinnuveganna hér á landi. Eftir alla þessa sigra á þessum fjölda keppinauta, sem hv. þm. G.-K. var að tala um, var niðurstaðan sú, eftir að þessi „rauða“ stj. tók við völdum, að útgerðin í heild átti ekki fyrir skuldum. En nú er það svo, að á þessum slæma tíma eftir að markaðirnir hafa svo að segja lokazt sumstaðar, þá er það þessi Sama „rauða“ Stj., Sem hefst handa um það, að byrjað er á nýjum verkunaraðferðum á fiski, og það í kjördæmi hv. þm. G.-K. Nú fyrst er reynt að koma sem viðast á hraðfrystingu fiskjar og öðrum slíkum verkunaraðferðum. Sást hv. þm. alltaf yfir þetta, þegar hann var alltaf að sigra, eða kom hann ekki auga á það? Hefði sú fyrirhyggja verið sýnd, að einblína ekki stöðugt á þau 3 markaðslönd, sem aðallega hafa keypt íslenzkan fisk, en reynt hefði verið að víkka markaðinn með fjölbreyttari verkunaraðferðum, eins og Norðmenn hafa gert, þá stæðum við tvímælalaust betur að vígi nú með að mæta aðsteðjandi þrengingum. Hv. þm. sagði, að skuldaskilasjóðsfrv. vélbátaeigenda, sem samþ. hefir verið á þessu þingi, væri svik af minni hálfu. Þetta er rangt. Ég gerði samkomulagstilraunir við hv. sjálfstæðismenn í þessu máli á síðasta þingi, en sú viðleitni mín bar engan árangur. Þessir menn reyndu svo á þessu þingi að stemma stigu fyrir því, að málið næði fram að ganga fyrir þingfrestun.

Ég hygg, að það hafi ekki verið fleira í ræðu þessa hv. þm. eða annara, sem ástæða er til að svara, en út af ummælum hv. þm. G.-K. um þær óskaplegu horfur, sem fram undan væru á næstunni, vil ég endurtaka það, sem ég sagði í síðustu ræðu minni, að það er ekki sérstök ástæða til þess að óttast, að þessar fiskbirgðir, sem voru um seinustu áramót 18 þús. tonn, muni valda miklum örðugleikum, þegar kemur til sölu á þessa árs framleiðslu. Þetta er rétt tekið fram. Það er engin ástæða til þess að mála ástandið svartara en það er. Það er engin ástæða til þess að æða og tryllast og missa vald yfir skynsemi sinni út af því.