04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (4762)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég skal fyrst svara hæstv. fjmrh. með nokkrum orðum. Hann talaði af miklu yfirlæti, sem stundum getur komið fyrir hann, og sérstaklega var þessi eiginleiki áberandi, þegar hann svaraði mér. Hann vildi bera á móti því, að einn mikils ráðandi maður í stjórnarflokkunum hefði talað um það í hv. Ed., að lækka þyrfti jarðræktarstyrkinn niður í 300 kr. á mann. Ég held, að hæstv. fjmrh. ætti að víkja sér að hv. formanni Alþfl. og spyrja hann, hvort ég hafi ekki sagt rétt frá. Hæstv. fjmrh. talaði sjálfur hátíðlega um, að sízt mætti spara á fjárlögum til atvinnuveganna. En hann byrjaði samt á því að draga af atvinnuvegunum nefndarkostnaðinn, sem áður var greiddur úr ríkissjóði. Hann byrjaði líka með því að draga úr vaxtakröfum til bænda af fasteignalánum frá því, sem áður hafði verið. Hann byrjaði einnig með því að draga af fjármagni til bygginga í sveitum, 50 þús. krónur, og hann dró sömuleiðis úr lögboðnu fjárframlagi til ræktunarsjóðs 45 þús. kr. Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. álitur þetta talað af samræmi og í einlægni hjá sér, en svo mikið er víst, að almennt vekja slík rök undrun fyrir ósamræmi og óeinlægni. Hann var sérstaklega stórorður út af einu atriði, sem ég minntist á. Það var, að ég sagði, að athuga þyrfti, hvaða gjöld mætti draga úr núgildandi fjárl., án þess að atvinnuvegunum væri með því íþyngt. Þetta taldi hæstv. fjmrh. goðgá, en sjálfur komst hann reyndar að þeirri niðurstöðu síðar, að það þyrfti einmitt að gera tilraun í þessa átt, og var hann þannig sjálfur rétt á eftir, áður en hann vissi af, kominn á sama mál og ég. Hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að draga þyrfti úr útgjöldum núgildandi fjárlaga um margar milljónir. Ég nefndi ekki milljónir, enda eru afkomumöguleikar landbúnaðarins ekki þannig vaxnir nú, að hann geti ekki munað um minna en milljónir til styrktar. Hæstv. fjmrh. var stórorður út af því, að ég vildi ekki láta lækka tillög til fasteignalána bænda frá því, sem hefir verið undanfarin ár í lögum. Hann sagði, að þetta mundi hafa kostað 1/4 millj. kr. Stj. hafði gengið inn á að greiða vaxtatillag, svo að bændur þyrftu ekki að greiða yfir 5% af fasteignaveðslánum, en áður var það í lögum, að þeir fengju svo mikið vaxtatillag, að þeir þyrftu ekki að greiða yfir 41/2 af fasteignalánum. Ef vaxtatillagið hefði hækkað svo, að bændur þyrftu ekki að greiða nema 4% af fasteignaveðslánum, þá hefði upphæðin numið 120 þús. kr., en 60 þús. kr., ef vaxtatillagið hefði verið það sama og áður. Þetta eru engar milljónir. Ég hefi aflað mér upplýsinga um þetta atriði hjá skrifstofustjóra kreppulánasjóðs, sem gaf mér skýrslu yfir þetta. (Fjmrh.: Hann gaf mér þær upplýsingar, að upphæðin væri 230 þús. kr.). Það kann að vera rétt, ef öll upphæðin er tekin í því meðaltali, sem hæstv. ríkisstj. hefir gengið inn á að greiða. Heldur hæstv. fjmrh., að ekki sé hægt að spara á ýmsum gjaldaliðum fjárlaganna upphæð, sem nemur í allt 60—100 þús. kr., án þess að dregið sé úr verklegum framkvæmdum?

Þá kom hæstv. ráðh. að því í síðustu ræðu sinni, að ég hefði verið með einhverjar dylgjur út af raftækjaeinkasölunni. Ég sagði ekkert frá eigin brjósti um þetta atriði í ræðu minni. Ég rakti aðeins frásögn á fyrirkomulagi þessa fyrirtækis. Hér stendur í blaði, að það hafi verið um hneykslanlega framkomu að ræða í þessu máli af hálfu hæstv. fjmrh., og rafvirkjar í Reykjavík og Hafnarfirði hafa komið með kröfur um, að reglugerðin um einkasölur verði endurskoðuð þegar í stað, en verði kröfum þeirra ekki sinnt, segjast þeir munn gera verkfall. Hér stendur ennfremur, að þessar ráðstafanir, sem gerðar eru í þessu efni, séu vítaverðar, þar sem forstjórinn verði að semja við sjálfan sig um kaup á vörum einkasölunnar. Einnig stendur í Alþýðublaðinu, að það verði að víta þessar ráðstafanir hæstv. fjmrh. Alþbl. krefst þess, að þessi mistök á framkvæmd raftækjaeinkasölunnar verði leiðrétt strax með því að forstjórinn verði látinn víkja úr forstjórn og reglugerðin verði endurskoðuð að öðru leyti.

Það er óþarft að lesa upp meira, en það væri samt hægt að lesa miklu meira. Það er vitanlega óþarfi að nefna það, að sósíalistar tóku þann kostinn að éta ofan í sig öll þessi ummæli um hneykslanlega framkomu hæstv. fjmrh. í þessu máli og samþykktu traustsyfirlýsingu á hæstv. ráðh. og hrundu með því till. sjálfstæðismanna í þessu máli.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ég hefði ekkert stutt að tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ég hefi þó greitt atkv. með tekjuskattshækkuninni á síðasta þingi, og ýmsum öðrum tekjufrumv., sem stj. hefir borið fram, bæði á síðasta þingi og þessu þingi.

Þá get ég vikið að hæstv. forsrh. Hann byrjaði ræðu sína á því að breyta og rugla almanakinu, og vildi færa 7. febr. aftur fyrir 20. marz. Hann sagði, að ég hefði ekkert gert til undirbúnings kjötsölulögunum. En hann mun geta fundið skjöl í ráðuneytinu, er sýna, að 7. febrúar 1934 skrifaði ég S. Í. S. bréf og fjórum öðrum aðilum og bað þá að tilnefna menn í nefnd til þess að gera tillögur um þessi mál. Á þennan hátt byrjaði ég að hreyfa við málinu. En S. Í. S. svaraði mér aftur og sagðist ekki geta útnefnt mann í n. fyrr en 20. marz, er kaupfélagsstjórafundurinn væri saman kominn hér í bænum. — Að 7. febrúar sé á eftir 20. marz samkv. almanakinu, munu fáir taka trúanlegt, þó að hæstv. forsrh. vilji svo vera láta, nema einn hv. þm. í Ed. (JJ). — Þá var hæstv. ráðh. að afsaka sig út af því, að í stað þess, sem ákveðið var í frv. afurðasölunefndarinnar um sölu á mjólk, að bændur skyldu skipa þrjá fulltrúa í mjólkursölunefndina, þá eru það ekki nema tveir fulltrúar, sem eru skipaðir af bændum í n. samkv. hans eigin frv. Hann afsakaði þetta með því, að fulltrúar þeir, sem skipaðir eru af bændum. séu svo góðir menn, og aðrir, sem í n. eru. Ég skil að vísu ekki bera á móti því, en hitt stendur samt sem áður óhrakið, að bændur hafa aðeins skipað tvo fulltrú, í nefndina. — Hæstv. ráðh. hefir víst sviðið eitthvað undan því, að ég talaði um þessa 12-spena-kú, sem bændur þyrftu nú orðið að fóðra sjálfir, til viðbótar sínum mjólkandi beljum. En í mjólkursölunefnd og mjólkurverðlagsnefnd eru samtals 12 menn, sem mjólkurframleiðendur verða nú að bera kostnað af samkv. nýafgreiddum lögum. Hann gaf í skyn, að þessu yrði bráðlega kippt í lag, og er ekki nema gott til þess að hugsa þá var hæstv. ráðh. að gleðja áheyrendur með því, að sparnaðurinn við mjólkursöluna væri nú orðinn um í aura á lítra. En ég er hæddur um, að þetta sé ekki nákvæmt. Er ekki dreifingarkostnaðurinn og verðjöfnunargjaldið 131/2 eyrir á lítra, og flöskugjaldið þar að auki 2 aur. á lítra af þeirri mjólk, sem seld er á flöskum? Hver er þá lækkunin? — Ég er ekki með þessu að halda því fram, að kostnaðurinn hefði ekki mátt lækka meira en um 7 aura, en framkvæmdin á mjólkursölunni hefir ekki verið eins góð og vænta mátti og þörf er á.

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði ekki talað vinsamlega um kjötsölulögin, og ekki talið gróða að þeim. Ég sagði aðeins, að árangurinn væri minni en við hefði mátt búast, en hinsvegar tók ég það fram, að kjötlögin færu í rétta átt. — Þá talaði hæstv. ráðh. um frystingarkostnaðinn á kjötinu. Ég hélt því fram, að verðið hefði verið sett of lágt á kjötinu fyrst eftir sláturtíðina og ekki tekið nægilegt tillit til frystikostnaðarins. Sláturfél. Suðurl. átti í löngu stríði út af þessu. Og jafnvel þó að hæstv. ráðh. segist hafa talað við Helga Bergs og telji, að hann hafi ekki viljað gera mikið úr þessu og talið, að það myndi ekki þurfa að draga af kjötverði næsta árs af þeim sökum, þá skal ég geta þess, að ég hefi einnig náð tali af honum síðan í síma; og skildist mér á honum, að engin frystihús hafi fengið upp borinn frystingarkostnaðinn. Til 15. nóv. mun hallinn hafa numið í aur. á kg. frá verði á 1. fl. kjöti, og eftir 15. nóv. 8 aur. á kg. Og þó að Sláturfél. Suðurl. láti þetta ekki koma beinlínis til frádráttar á kjötverðinu, þá verður þetta tap að greiðast af öðrum tekjuliðum félagsins. Hæstv. ráðh. hefir því ekkert brakið af því, sem ég sagði um það, að kjötverðið hefði verið sett of lágt vegna frystigjaldsins.

Hæstv. ráðh. vildi bera brigður á, að rétt væri skýrt frá því verði, sem mjólkursamsalan greiddi bændum fyrir skyr og rjóma. Mér er kunnugt um, að bóndi, sem býr uppi í Borgarfirði, hefir fengið kr. 1,19 fyrir rjómalítra, þó að útsöluverðið sé 2,40 hér í bænum, og aðeins 40 aur. fyrir skyr, þó það sé selt á 80 aur. pr. lítra.

Hæstv. fmrsrh. temur sér það yfirleitt að slá um sig og nota sterk orð. Hann talar eins og húsbóndi, en hann gleymir því, þegar hann talar, að hann er sjálfur undir aðra gefinn. — Ég er ekki í vafa um, að ef hæstv. forsrh. mætti vera sjálfráður, þá hefði hann tekið meira tillit til framleiðendanna en raun hefir á orðið. — En hann er undirgefinn húsbændum sínum — sósíalistunum —, og það er augljóst, að hann vill vera tryggt hjú.