04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (4780)

120. mál, skaði af ofviðri

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál. — Ég stend upp til þess að lýsa yfir þeirri skoðun minni á till. 353, að ég tel hana rétta úrlausn á tekjuöflunarhlið þessa máls. Ég geri ekki ráð fyrir, að till. frá minni hl. fjvn. verði samþ., enda mun ég ekki treysta mér til að fylgja þeim. Legg ég því áherzlu á, að þessi till., sem er flutt af hv. 9. landsk., verða samþ. Hún fer fram á það, að sé ekki fyrir hendi nægilegt fé af tekjum ársins 1935 til þess að standast þessar greiðslur, sé stj. heimilt að ábyrgjast lán fyrir hlutaðeigandi sýslufélög til þess að annast þessar skaðabætur, sem í till. er gert ráð fyrir. Þetta er aðferð til þess að færa þessi útgjöld yfir á árið 1936. Það var einhver, sem kastaði því fram, að þessi sýslufélög mundu ekki geta fengið slík lán. Það vil ég ekki álíta að óreyndu. Lánið verður að fullu endurgreitt af ríkissjóði árið 1936, og með þessu er það tryggt, að þessi útgjöld koma inn á fjárl. ársins 1936, og þá verður sjálfsagt gert annað af tvennu, tekin úr frv. útgjöld til að mæta þessu, eða aflað einhverra tekna á móti.