04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (4784)

120. mál, skaði af ofviðri

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Það kom flatt upp á mig, að hv. fjvn. skyldi taka aftur þessa till., en ég get fallizt á þau rök, sem hún hefir borið fram fyrir þessu. Mér þykir leiðinlegt, að hv. þm. N.-Þ. skyldi óbeint verða til þess, an þessi till. skyldi falla úr sögunni, en ég verð að beygja mig fyrir því.

Út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði áðan um það, á hvern hátt þetta tjón mundi verða bætt, þá þykir mér það nokkuð leitt, að ekki skyldi frá stj. hendi hafa legið fyrir neinar tölur eða áætlanir um það, hvernig tjónið yrði greitt. Mér finnst, að það muni liggja í augum uppi, að það hljóti að verða af handahófi, hvernig þessar bætur verða greiddar, ef á að slá því föstu, að það séu aðeins einstakir einstaklingar, sem fá þessar bætur greiddar, en hinsvegar ekki allir einstaklingar, sem ætla t. d. miklar bryggjur, báta, hús o. s. frv., og ekki ætti heldur að bæta félögum þeirra tjón. Ég er mjög hræddur um, að þótt sú n., sem fer með þessi mál á sínum tíma, reyni í hvívetna að gæta óhlutdrægni, þá muni mörgum finnast þeir settir hjá og ætti að bæta þeim þeirra skaða, fyrst nágranni þeirra fái sinn skaða bættan. Ég veit, að útgerðarmenn við Eyjafjörð bíða eftir því með eftirvæntingu, hvort þeir fái greiddur bætur fyrir það tjón, sem þeir urðu fyrir, og mér skilst, að það hefði verið eðlilegt, að stj. eða fjvn. hefði komið fram með einhvern „skala“ til að fara eftir í þessum efnum.

Ég veit um mann, sem er útgerðarmaður, ekki samt stór. Hann á dálítinn trillubát, hann á húsið, sem hann býr í, og hann á svolitla bryggju við suðurenda Hríseyjar. Þessu hefir hann komið upp, auðvitað ekki af miklum efnum, en hann átti þetta þó allt skuldlaust. Í ofviðrinu missti hann bæði bátinn og bryggjuna, en húsið á hann eftir skuldlaust. Má því segja, að þessi maður sé ekki svo illa efnum búinn, að hann geti ekki af eigin rammleik keypt sér annan trillubát og gert aftur við bryggjuna sína, og eftir því, sem mér skildist á ummælum hv. 2. þm. Eyf., þá ætti þessi maður engar bætur að fá fyrir tjón sitt. Slíkar reglur virðast mér settar alveg út í bláinn. Ef hinsvegar ætti að slá því föstu, að þeir menn, sem hefðu slíkan efnahag, fái ekki neinn styrk úr ríkissjóði, þá finnst mér, að stj. eigi að gefa þessum mönnum einhverja viðréttingu, þannig að þeir gætu með ábyrgð ríkisins, og vitanlega einnig hreppsins, fengið lán til þess að koma þessum tækjum sínum í viðunandi horf. Og ég vil hér með leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Vill hann í slíkum tilfellum, sem ég nú nefndi, veita ádrátt um það, að þessir menn geti með ábyrgð hreppsins fengið ríkisábyrgð fyrir láni eða lán úr ríkissjóði til þess að koma upp bátum sínum og bryggjum? Ég get ekki séð, hvernig þessir menn ættu að geta komið af stað sinni útgerð að nýju, ef þeim væri ekki veitt einhver slík hjálp. Hæstv. fjmrh. veit það vel, að þær lánsstofnanir, sem um væri að ræða. eru alveg lokaðar fyrir þessum mönnum. Þær lána ekki t. d. út á 2. veðrétt í húsum og öðrum eignum í Hrísey, Litla Árskógssandi eða öðrum slíkum stöðum. Bankarnir gera það alls ekki, og þessir menn hafa ekki aðgang að öðrum peningastofnunum. Og hvernig eiga þessir menn þá að fara að? Það er ákaflega hart, ef menn, sem með dugnaði og atorku hafa aflað sér einhverra eigna, sem að mestu eyðileggjast eina óveðursnótt, fá enga aðstoð þess opinbera til þess að rétta sinn atvinnuveg.

Ég skil vel, að ríkissjóður treysti sér ekki til að kasta þessum peningum út og gefa mönnunum þessar upphæðir, en mér skilst, að ríkissjóður með ábyrgð sinni, með ábyrgð hreppsnefndar á bak við, geti veitt þessum mönnum aðstöðu til að fá lán, sem þeir annars ættu alls ekki kost á. Ef þetta er ekki hægt, þá verð ég að mótmæla því, að sú regla verði viðhöfð, að þessar 60 þús. verði eingöngu veittar einstökum mönnum, sem öðruvísi stendur á um.

Á þinginu 1934 bar ég fram þáltill. þess efnis, að heimila fjmrh. að bæta fyrir þetta mikla tjón. Hann var þá svo „diplómatískur“ að vísa till. þessari til fjvn., og nú hefir það þó farið svo, að stj. hefir neyðzt til, þess að leita til þingsins um að fá heimild fyrir þessu. Ég held því að hæstv. ráðh. hefði átt að taka till. þessari betur en hann gerði. þegar hún kom fyrst fram.